Fyrsti dagur Landsþings afkastamikill

Landsþing LÍS hófst á Bifröst í gær, 5. mars, með um fimmtíu þinggesti. Þema þingsins er menntun á umrótartímum þar sem að markmið okkar er að kortleggja áhrif Covid-19 á stúdenta.

Dagurinn hófst á ávarpi frá Jóhönnu Ásgeirsdóttur, forseta LÍS, sem lagði mikla áherslu á að stúdentar nýti vettvanginn á Landsþingi til þess að deila reynslu, styðja hvort annað og sameinast í baráttu fyrir bættum kjörum stúdenta.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, flutti áhrifamikið ávarp um sögu Bifrastar og mikilvægi hagsmunabaráttu stúdenta með áherslu á það hvað hefur breyst þökk sé stúdentum. Ávarpinu fylgdu hvatningarorð til stúdenta um að halda áfram baráttunni.

Að loknu ávarpi rektors var farið yfir ýmis praktísk atriði. David Erik Mollberg var kjörinn fundarstjóri þingsins og Eygló María Björnsdóttir og Leifur Finnbogason voru kjörin ritarar þingsins. David tók við fundarstjórn og kynnti starfsemi og fundarsköp Landsþings ásamt hlutverki fundarstjóra, framkvæmdastjórnar og þinggesta. Einnig voru kynntar sóttvarnaraðgerðir. Fundarstjóri tilnefndi trúnaðarmenn þingsins, Derek T. Allen úr framkvæmdastjórn og Erlu Guðbjörgu Hallgrímsdóttur. Kosning fór fram og voru trúnaðarmenn þingsins samþykktir af þinggestum. Að lokum var kynnti kjörstjórn sig, tilkynnti framboð sem bárust fyrir umsóknarfrest og opnaði fyrir framboð í laus embætti. Framboðsferlið var útskýrt. Í kjörstjórn eru Freyja Ingadóttir, Júlíus Andri Þórðarson og Sylvía Lind Birkiland.

Næst hófst fyrirlestur Önnu Báru Unnarsdóttur og Ingibjörgu Magnúsdóttur um Líðan í Covid, tölfræði um námsmenn úr rannsókninni Líðan þjóðar á tímum Covid-19 á vegum Háskóla Íslands. Vinnustofa um áskoranir og lærdóma fyrir stúdenta fylgdi í kjölfar fyrirlestursins.

Eftir hádegishlé voru þingfundir þar sem að farið var yfir og kosið um ársskýrslu og verkáætlun framkvæmdastjórnar ásamt ársreikningi og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Einnig var ný velferðarstefna samtakanna kynnt, farið var yfir breytingartillögur og að lokum var stefna LÍS um velferð samþykkt. Í lok dagsins var ráðist í breytingar á lögum samtakanna en 7 breytingartillögur komu frá framkvæmdastjórn og 5 frá aðildafélögunum.

Dagurinn var einstaklega afkastamikill og framkvæmdastjórn LÍS er ánægð með að hægt var að halda Landsþing í persónu og við þökkum fundargestum fyrir góða mætingu.

Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+ sem verkefni í flokknum Fundir ungs fólks og ráðamanna.

Previous
Previous

Menntun á umrótartímum

Next
Next

Frambjóðendur til framkvæmdastjórnar LÍS // Candidates running for the Executive Committe of LÍS