Menntun á umrótartímum

Annar dagur Landsþings einkenndist af mikilli fræðslu og umræðum um hagsmunamál stúdenta. Dagurinn hófst á kynningu frá Guðrúnu Geirdóttur um rannsókn á áhrifum heimsfaraldursins á kennsluaðferðir í háskólum. Næst var kynning frá Uliönu Furiv á alþjóðlegri rannsókn á sveigjanlegu háskólanámi. Í kjölfar kynninganna voru haldnar vinnustofur þar sem að þinggestir tóku saman þekkingu sína í umræðuhópum. Fyrsta vinnustofan fjallaði um gæði náms og kennslu þar sem að þinggestir ræddu hvernig stúdentar geta haft áhrif á gæði í sínu háskólanámi en þar voru samskiptum og tækifærum til að koma skoðunum sínum á framfæri gert hátt undir höfði.

Næst var horft á erindi frá Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu en kynningin var tekin upp fyrir þingið. Hrund og Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti LÍS, áttu samtal í upptökunni um hvaða hlutverki háskólasamfélagið gegnir í loftlagsmálum í kjölfar heimsfaraldurs. Í erindinu var stiklað á stóru um hlutverki stúdenta í að byggja upp sterkt og sjálfbært háskólasamfélag. Í kjölfar erindisins var haldin vinnustofa um sjálfbæra uppbyggingu.

Að lokum var farið yfir endurskoðun gæðastefnu og alþjóðastefnu samtakanna. Stefnurnar voru samþykktar í kjölfar breytingartillaga.

Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+ sem verkefni í flokknum fundir ungs fólks og ráðamanna. Styrkurinn er stúdentum gífurlega mikilvægur enda landsþing æðsta vald LÍS sem tekur stefnumótandi ákvarðanir í hagsmunabaráttu stúdenta.

Previous
Previous

Áttunda Landsþingi LÍS slitið

Next
Next

Fyrsti dagur Landsþings afkastamikill