Umsögn LÍS vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (launatekjur o.fl.)

Landssamtökum íslenskra stúdenta hefur borist til umsagnar frá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna er varðar launatekjur námsmanna og fyrningarfrest. LÍS telur umbætur á Menntasjóði námsmanna vera nauðsynlegar en leggur höfuðáherslu á að allar breytingar á lögum um menntasjóðinn séu til þess fallnar að uppfylla hlutverk sjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður.

Fyrsta grein frumvarpsins mælir fyrir því að við áætlun framfærslulána verði ekki tekið tillit til launatekna námsmanns eða fjölskyldu hans. Með öðrum orðum mælir greinin fyrir afnámi skerðingar vegna launatekna hjá Menntasjóði námsmanna. LÍS telur mikilvægt að samspil frítekjumarksins og grunnframfærslunnar sé vandlega skoðað og fundin sé leið til að koma í veg fyrir að frítekjumarkið hamli því að stúdentar nái eðlilegri framfærslu.

Framfærslulán á vegum Menntasjóði námsmanna hefur verið ófullnægjandi í of langan tíma og leiðir hún til mikillar atvinnuþátttöku stúdenta. Samkvæmt Eurostudent VII vinna 71% háskólanema á Íslandi með námi og er hlutfallið með því hæsta af þeim þjóðum sem taka þátt í könnuninni. Í sömu könnun kemur fram að 72% þeirra nema sem vinna með námi fullyrða að án vinnunnar gætu þau ekki verið í námi. Niðurstöður könnunarinnar eru áfellisdómur á námslánakerfið og dregur fram þann vanda sem ófullnægjandi framfærsla skapar. 

Það er með öllu ótækt að vera með kerfi sem ýtir undir atvinnuþátttöku og samtímis refsar fyrir hana.

Fyrirkomulagið skapar vítahring framfærslulána og frítekjumarks sem mikilvægt er að rjúfa. Í þessu samhengi má benda á að námslán eru (að jafnaði) veitt fyrir 9 mánuðum ársins en stúdentar þurfa að afla tekna til að standa undir hinum mánuðunum. Samkvæmt úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2022-2023 er frítekjumark námsmanns 1.483.000 í árstekjur og því algengt að námsmenn fullnýti frítekjumarkið með sumarvinnu.

Það er því nauðsynlegt að breytingar verði á frítekjumarki Menntasjóðs námsmanna en LÍS telur þó mikilvægt að stigið verði varlega til jarðar þegar kemur að því að afnema með öllu skerðingar vegna atvinnutekna en slík aðgerð gæti dregið úr hlutverki Menntasjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður. Því verður að ráðast í ítarlega greiningu á hækkun, afnámi, þrepaskiptingu sem og öðrum breytingum sem hægt er að gera á frítekjumarkinu. Þá má skoða útfærslu líkt og að tekjur utan anna verði undanskildar frítekjumarki.

Hér má sjá umsögnina í heild sinni.

Previous
Previous

Yfirlýsing LÍS vegna langvarandi fjársvelti háskólastigsins

Next
Next

Auglýst eftir umsóknum í ráðgjafanefnd til að auka nýliðun kennara // Open for applications for a post in an advisory committee to increase the recruitment of teachers.