Samfélagsstyrkur Landsbankans fyrir SRI
LÍS hlaut á dögunum samfélagsstyrk Landsbankans fyrir verkefnið Student Refugees Iceland. SRI er eitt af verkefnum LÍS og eru Sigga, alþjóðafulltrúi LÍS, og Erna, jafnréttisfulltrúi LÍS, verkefnastjórar þesss. Ásamt þeim starfa fjöldi sjálfboðaliða innan verkefnisins.
Student Refugees Iceland er verkefni sem veitir flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi aðstoð við að sækja um háskólanám hér á landi. Verkefnið er byggt á þeirri hugmynd að menntun teljist til mannréttinda í sjálfu sér og þar af leiðandi eigi allir rétt á sama aðgengi að námi. Student Refugees reynir því að veita áhugasömum allar þær upplýsingar sem þau þurfa, ef þau hyggjast sækja nám í íslenskum háskólum. Einnig vill Student Refugees aðstoða flóttafólk við að komast yfir þær hindranir sem kunna að standa í vegi þegar verið er að sækja um nám.
Jafnt aðgengi allra að menntun er eitt af sautján Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir 2030. Stefnumótunin var samþykkt af stjórnvöldum aðildarríkja árið 2015. Þessi þróunarmarkmið eru alls sautján en hafa samtals 169 undirmarkmið. Hjá Student Refugees einbeitum við okkur að markmiði númer 4 er varðar menntun, að tryggja eigi jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að símenntun fyrir alla.
SRI gerir sér grein fyrir þeim hindrunum sem flóttafólk stendur frammi fyrir þegar kemur að aðgengi að háskólamenntun hér á landi, og að þeim hindrunum fer fjölgandi. Lög um hælisleitendur og flóttafólk breytast í sífellu sem getur gert fólki erfitt fyrir við að uppfylla skilyrði umsókna um nám. Student refugees stefnir að því að upplýsa hælisleitendur og flóttafólk um rétt sinn til náms og möguleikana sem til staðar eru hverju sinni, með því heildarmarkmiði að gera æðri menntun aðgengilegri fyrir alla.
Á vefsíðu Student refugees Iceland má finna frekari upplýsingar um verkefnið og m.a. finna upplýsingar um mánaðarlega umsóknarkaffi fyrir flóttafólk.
Á meðan við þökkum Landsbankanum kærlega fyrir þennan mikilvæga styrk sem verður nýttur í þágu flóttafólks á Íslandi viljum við nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum innan SRI, sjálfboðaliðium jafnt sem öðrum samstarfsfélögum.
Ef þú vilt verða sjálfboðaliði í SRI ekki hika við að hafa samband!