Ályktun um framtíði háskólastigsins
Á landsþingi LÍS lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um framtíð háskólastigsins. Tillagan var samþykkt einróma á þinginu og snertir hún á veigamiklum baráttumálum stúdenta, þar á meðal fjármögnun háskólastigsins og stuðning við námsmenn.
Tillöguna má sjá hér að neðan í fullri lengd:
Ályktun landsþings Landssamtaka íslenskra stúdenta um framtíð háskólastigsins
Háskólar gegna lykilhlutverki í mótun og framþróun hvers samfélags og er nauðsynlegt að fjárveitingar til háskólastigsins og stuðningur við námsmenn endurspegli mikilvægi þeirra. Háskólastigið stendur á tímamótum hvað varðar fyrirkomulag fjárveitinga sem og stuðningskerfi námsmanna, en endurskoðun á hvoru tveggja stendur nú yfir í ráðuneyti háskólamála. Ljóst er að áralöng undirfjármögnun hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á starfsemi háskólanna og stöðu stúdenta sem hafa búið við ófullnægjandi stuðningskerfi um árabil. Stjórnvöld eru í dauðafæri til þess að snúa við blaðinu og fjárfesta í menntun, sem er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.
Landssamtök íslenskra stúdenta fagna því að verið sé að endurskoða fjárveitingar til háskólanna og telja áform um að fjölga þeim þáttum sem koma til skoðunar við fjárveitingar háskóla vera af hinu góða. Samtökin telja ástæðu til að minna á mikilvægi þess að vandað sé til verka við útfærslu á hvötum við fjárveitingar til háskólanna því markmið þeirra er fyrst og fremst að stuðla að auknum gæðum náms og rannsókna. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að háskólasamfélagið sé í góðum tengslum við atvinnulífið en hlutverk háskólanna má ekki einskorðast við þarfir þess. Hlutverk háskóla er að skila þekkingu út í samfélagið og markaðsöflin ættu því ekki að stjórna því hvaða þekking verður til í samfélaginu. Ef háskólanám er sniðið eftir því að snúa hjólum atvinnulífsins verður námið einhæft, tækifærum fækkar og samfélagið staðnar. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja traustar fjárveitingar til allra greina.
Grundvallarforsenda þess að fjölga hér háskólamenntuðum og tryggja jafnt aðgengi að námi er að til staðar sé fullnægjandi stuðningskerfi fyrir stúdenta. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur, en sú er ekki raunin í núverandi kerfi. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leyti, en þörf er á talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að svo sé. Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast þess að endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir verði nýtt í að stórbæta stuðning við námsfólk, enda er það fjárfesting til framtíðar og þar með ávinningur fyrir samfélagið.
Landssamtök íslenskra stúdenta fagna áherslum stjórnvalda á mikilvægi háskólanna en árétta að til þess að sú sýn geti orðið að veruleika verður að stórauka fjárframlög til íslenskra háskóla og auka stuðning við stúdenta til þess að stunda sitt nám. Þá er nauðsynlegt að samráð verði haft við hlutaðeigandi aðila og eru stúdentar þar stór hagsmunaaðili.