Ályktun um stöðu foreldra í námi
Staða foreldra í námi var áherslumál landsþing LÍS 2023 og því voru fyrirlestrar og vinnustofur þingsins tileinkað því efni. Á lokadag þingsins. var eftirafarndi ályktun samþykkt einróma en í henni má finna fyrstu kröfur stúdenta er varða réttindi foreldra í námi. Á næstu mánuðum mun ítarlegri vinna um þetta mikilvæga mál eiga sér stað.
Ályktun á Landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta um stöðu foreldra í námi
Landssamtök íslenskra stúdenta ályktar að gera þurfi töluverðar breytingar á fyrirkomulagi fæðingarorlofs- og menntasjóðs til þess að tekið verði tillit til stöðu foreldra í námi en núverandi fyrirkomulag skerðir aðgengi að félagslegum réttindum stúdenta og er það óásættanlegt.
Þrátt fyrir að þriðjungur háskólanema á Íslandi séu foreldrar er aðgengi stúdenta að fæðingarorlofsskerfinu verulega skert. Til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns og er mánaðarleg upphæð 210.695 krónur. Til samanburðar er sama upphæð lágmarksgreiðsla fyrir einstakling í 50% starfi á vinnumarkaði. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk og krefjast stúdenta þess að einingaþröskuldur fyrir rétti til fæðingarstyrks verði lækkaður. Þá skýtur það skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.
Auk þess er það óréttlátt að fæðingarorlofskerfið geri ekki ráð fyrir því að stúdentar vinni með námi en skv. Eurostudent VII vinna 72% háskólanema á Íslandi með námi. Þannig falla t.a.m. stúdentar sem eru í 60% námi og 40% starfi á milli kerfa en í slíku tilviki á viðkomandi ekki rétt á fæðingarstyrki námsmanna og fær því einungis fæðingarorlofsgreiðslu með tilliti til 40% starfs. Því krefjast stúdentar að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess að stúdentar séu samtímis í vinnu og námi með því að fæðingarorlof verði metið út frá heildar starfsálagi stúdenta.
Þá ítreka samtökin fyrri kröfu um að stúdentar geti reitt sig á Menntasjóð námsmanna fyrir mannsæmandi framfærslu. Lág framfærsla er ein helsta ástæða þess að stúdentar vinni með námi og það að foreldar neyðast til þess að vinna með námi er með öllu óásættanleg staða enda skapar það mikla streitu innan heimila og hefur bein áhrif á tengslamyndun og vellíðan barna. Örugg fjárhagsstaða stúdenta er því grundvallaratriði í átt að fjölskylduvænu háskólaumhverfi.
Þá er mikilvægt að háskólasamfélagið sjálft verði fjölskylduvænna m.a. með því að fyrirkomulag náms og kennsluhættir taki tillit til stöðu foreldra. Auka þarf sveigjanleika námsins og námsmats, m.a. með bættum rafrænum kennsluháttum og aukins framboðs fjarnáms. Því markmiði má t.d. ná með upptöku fyrirlestra og með því að tryggja stúdentum viðeigandi frítíma, t.d. með því að halda ekki próf um helgar.
Að lokum ályktar landsþing að mikilvægt sé að kortleggja stöðu foreldra í háskólanámi og þá þarf sérstaklega að kanna kynjaáhrif þeirra vankanta sem hafa verið rakin hér að ofan.