Guest User Guest User

Stjórnarfundur ESU á Möltu

Síðan á mánudag hafa fjórir fulltrúar LÍS sótt viðburðaríkan stjórnarfund ESU eða European Students' Union, sem eru regnhlífarsamtök landssamtaka stúdenta í Evrópu. Stjórnarfundurinn er æðsta ákvörðunarvald ESU þar sem meðal annars er kosið í stjórn samtakanna og um nýjar stefnur og áætlanir.

Síðan á mánudag hafa fjórir fulltrúar LÍS sótt viðburðaríkan stjórnarfund ESU eða European Students' Union, sem eru regnhlífarsamtök landssamtaka stúdenta í Evrópu. Stjórnarfundurinn er æðsta ákvörðunarvald ESU þar sem meðal annars er kosið í stjórn samtakanna og um nýjar stefnur og áætlanir.

Sunna Mjöll Sverrisdóttir, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Þórður Jóhannsson og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fulltrúar LÍS á BM72

Sunna Mjöll Sverrisdóttir, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Þórður Jóhannsson og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fulltrúar LÍS á BM72

Í dag var meðal annars kosið um og innleidd stefna um málefni LGBT+ sem eru sannkölluð tímamót í sögu samtakanna! Stefnan var skrifuð af lokuðum hópi einstaklinga innan ESU sem samsvara sig við LGBT+. Það er gríðarlega mikilvægt að samtök á við ESU eigi sér skýra og framsýna stefnu í málefnum LGBT+ og fagnar LÍS því einlæglega að í dag hafi það gengið eftir.

Einnig voru teknar fyrir breytingar á gæðastefnu ESU. Undirbúningsvinna LÍS hefur staðið yfir síðastliðinn mánuð og þá sérstaklega síðustu daga enda er um að ræða yfirgripsmiklar breytingar sem ræddar voru í marga klukkutíma.

Næsti stjórnarfundur (BM73) verður haldinn í Ísrael en það er að mati LÍS þvert á mannréttindastefnu ESU. Vegna þess bárum við upp yfirlýsingu þar sem bent var á mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og að ESU fylgi stefnum sínum eftir. 

LÍS lagði fram yfirlýsingu og óskaði eftir stuðningi frá ESU þar sem vakin er athygli á og fjallað um langvarandi undirfjármögnun íslenskra háskóla og kallað eftir úrbótum á þessari höllu stöðu. Það eru mikil gleðitíðindi að tilkynna að yfirlýsing okkar var samþykkt einróma en við vonum að stuðningurinn muni efla baráttu okkar fyrir auknum fjárveitingum til háskólakerfisins á Íslandi.

Við höfum sýnt og sagt frá fundinum á twitter og snapchat en þar finnið þið okkur undir nafninu lisnemar.

ESU er í forsvari fyrir fimmtán milljónir stúdenta og er mikilvægt að geta talað máli íslenskra stúdenta með þátttöku í starfi samtakanna og mikill heiður fyrir LÍS að fá að njóta þess að tala fyrir hönd íslenskra stúdenta á eins stórum vettvangi og þessum. Sterkt alþjóðastarf leikur lykilhlutverk í hæfum samtökum, þar sem við getum lært, miðlað af reynslu okkar, eflt alþjóðamilliríkjasamstarf og nýtt það svo til þess að efla sameinaða rödd íslenskra stúdenta.

Sendinefnd LÍS ásamt Helgu Lind Mar, fyrrum alþjóðaforseta LÍS og núverandi meðlimi framkvæmdastjórnar ESU

Sendinefnd LÍS ásamt Helgu Lind Mar, fyrrum alþjóðaforseta LÍS og núverandi meðlimi framkvæmdastjórnar ESU

Read More
Guest User Guest User

NUS National Conference í Brighton

Aldís Mjöll Geirsdóttir og Sunna Mjöll Sverrisdóttir, fóru fyrir hönd LÍS til Brighton á mánudaginn til þess að fylgjast með og taka þátt á landsþingi landssamtaka breskra stúdenta (NUS-UK).

Aldís Mjöll Geirsdóttir og Sunna Mjöll Sverrisdóttir, fóru fyrir hönd LÍS til Brighton á mánudaginn til þess að fylgjast með og taka þátt á landsþingi landssamtaka breskra stúdenta (NUS-UK).

IMG_5522.JPG

Samtökin buðu okkur að koma á ráðstefnuna til að fylgjast með hvernig hún fer fram og hvernig þau nálgast ýmis deilumál, en samtökin eru í forsvari fyrir 7 milljónir nemenda. Þau vildu einnig að við myndum varpa ljósi á það hvað það þýðir fyrir stúdenta að vera utan ESB og þess vegna tókum við þátt í panel um Brexit. Brexit og komandi kosningar í Bretlandi voru tíðrædd á ráðstefnunni og mjög áhugavert er að heyra hvað stúdentum finnst um stöðuna í landinu.

Við erum að sýna frá ráðstefnunni á snapchat-aðgangi Háskóla Íslands og aðgangi LÍS (lisnemar)! Fylgist með okkur og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið spurningar.

Hér má lesa umfjöllun mbl.is um stöðu stúdenta vegna Brexit út frá umræðum sem áttu sér stað í pallborði sem við tókum þátt í en tekið var viðtal við Aldísi. Enn ríkir mikil óvissa um framhaldið en ljóst er að hagsmunabarátta NUS-UK (National Union of Students) verður lituð af Brexit næstu ár.

Al­dís seg­ir að umræður hafi ekki ein­göngu verið nei­kvæðar en úr­slit þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar í Bretlandi í fyrra hafi vakið mikla at­hygli meðal ungs fólks. „Ungt fólk er að átta sig á mik­il­vægi þess að kjósa og kynna sér mál­efn­in. Þetta eru mál­efni sem hafa áhrif á framtíð ungs fólks, það er verið að kjósa um framtíð ungs fólks.
— http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/04/27/hver_verda_ahrif_brexit_a_nemendur/
Read More
Guest User Guest User

Byggjum á bjargi

Undirfjármögnun háskólanna er risavaxið vandamál sem hefur verið viðvarandi í of langan tíma enda staða háskólanna nú orðin grafalvarleg. Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, eru uggandi yfir bágri stöðu háskólanna og þeim óumflýjanlegu afleiðingum sem langvarandi niðurskurður hefur í för með sér. 

Á sandi byggði heimskur maður hús,
og þá kom steypiregn.
Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx,
og húsið á sandinum féll.

Einu sinni byggði heimskur maður hús á sandi. Við vitum ekki hvaða maður þetta var en vitum öll hver örlög hans voru. Húsið var byggt á veikum grunnstoðum, réði ekki við íslensku veðráttuna og féll.

Undirfjármögnun háskólanna er risavaxið vandamál sem hefur verið viðvarandi í of langan tíma enda staða háskólanna nú orðin grafalvarleg. Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, eru uggandi yfir bágri stöðu háskólanna og þeim óumflýjanlegu afleiðingum sem langvarandi niðurskurður hefur í för með sér. 

Baráttan gegn undirfjármögnun háskólanna er langþreytt. Við höfum lesið sömu fyrirsagnir frétta ár eftir ár um alvarleika stöðunnar en ekkert breytist. Rektorar háskólanna á Íslandi, stúdentahreyfingar og stúdentar hafa ítrekað kallað eftir breytingum. Þá tóku fulltrúar allra flokka á Alþingi undir áhyggjurnar á fundi sem haldinn var í Háskóla Íslands fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Frambjóðendur sammældust um mikilvægi þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna í fjárframlögum til háskólanna, á kjörtímabilinu. Í aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs var sett fram það markmið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún yrði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016 og Norðurlanda árið 2020. Af skýrslu OECD fyrir árið 2016, Education at a glance, má sjá að Ísland er enn undir meðaltali OECD-ríkjanna og á langt í land með að ná meðaltali Norðurlandanna.

Árið er 2017 og við höfum ekki enn náð markmiðum Vísinda- og tækniráðs en verði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar samþykkt gengur hún enn frekar í berhögg við stefnu og loforð stjórnmálamanna.

Þess vegna veldur fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mér miklum vonbrigðum og áhyggjum. Þar er ekki gert ráð fyrir leiðréttingu á bágri stöðu háskólanna en á sama tíma lýsa stjórnmálamenn ríkisstjórnarinnar yfir að nú séu tímar efnahagslegs uppgangs í samfélagi okkar.

Enginn vafi leikur á gríðarlegu mikilvægi þess að á Íslandi sé gætt að því að framþróun sé í samfélaginu og að samkeppnishæfni sé haldið við í alþjóðlegu samhengi á sem flestum sviðum. Uppbygging og varsla um háskólamenntun á landinu er forsenda þess að þetta gangi eftir en ef við bregðumst er hætta á að það samfélag sem hér er að finna hrörni og nái ekki að halda í við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. 

Það virðist hafa skapast sú menning að háskólarnir eigi að vera undirfjármagnaðir. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnmálamönnum þyki eðlilegt að háskólarnir starfi við þessar kringumstæður og ætli sér ekki að leiðrétta það. Stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við vandann og kallar LÍS því eftir því að stjórnvöld séu hyggin og styrki stoðir háskólanna. Ætlum við að leyfa háskólunum að byggjast upp og blómstra eða láta þá falla í næsta óveðri?

Við vitum öll hvernig sagan endar. Ef við höldum áfram að byggja á sandi í staðinn fyrir að fjárfesta í sterkum grunni mun húsið á endanum falla. Þegar öllu er á botninn hvolft verður enduruppbygging dýrari samanborið við trygga og stöðuga fjármögnun háskólakerfisins. 

Á bjargi byggði hygginn maður hús,
og þá kom steypiregn.
Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx,
og húsið á bjarginu stóð fast.

Verum hyggin, byggjum á bjargi og húsið mun standa.

Landssamtök stúdenta á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum tóku undir þær miklu áhyggjur sem LÍS hefur á stöðu mála. Á nýliðnum fundi NOM, Nordisk Ordförande Möte, sem er bandalag landssamtaka stúdenta í þessum löndum, var yfirlýsing þess efnis tekin fyrir og samþykkt einróma. Aðildarfélögin átta sem sóttu fundinn voru öll hneyksluð yfir aðstæðum hérlendis og lýsa því yfir fordæmingu og krefja íslensk stjórnvöld um úrbætur á því óásættanlega ástandi sem hér ríkir.

Höfundur er Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Þessi grein er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta um undirfjármögnun háskólanna í ljósi tillögu að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.

Read More
Guest User Guest User

Umræður á landsþingi LÍS um húsnæðismál Listaháskóla Íslands

Á Landsþingi LÍS óskaði Nemendaráð Listaháskólans eftir því að tekin yrði til umræðu þingsályktunartillaga sem liggur nú fyrir. Þingsályktunartillagan hvetur til þess að húsnæðismál Listaháskólans verði sett í forgang á komandi tíð og að einhvers konar endanlegt fyrirkomulag verði fundið.

Á landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta sem var haldið í Háskólanum á Akureyri helgina 17. - 19. mars var ýtarlega fjallað um gæðamál háskólanna. Um hvað þau snerust, hvernig farið er að þeim og það tekið til umræðu hvaða mál ætti að leggja áherslu á út frá sjónarhóli stúdenta.

Það var því mjög viðeigandi, eftir heila helgi af slíkum umræðum og hugarflugi, að nemendaráð Listaháskólans óskaði eftir því að tekin yrði til umræðu þingsályktunartillaga sem liggur nú fyrir. Þingsályktunartillagan, sem lögð er fram af hópi þingmanna úr þremur mismunandi flokkum, hvetur til þess að húsnæðismál Listaháskólans verði sett í forgang á komandi tíð og að einhvers konar endanlegt fyrirkomulag verði fundið.

Screen Shot 2017-03-26 at 16.11.04.png

Eins og staðan er í dag þá er Listaháskólinn niðurkominn í fjórum mismunandi húsnæðum í misgóðu ástandi. Til dæmis um það má nefna að tvö húsnæðanna búa yfir engu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og í einu þeirra er núna vænst staðfestingar á því að þar megi finna myglusvepp, en kennarar og nemendur, sem hafa lýst því að finna fyrir áhrifum myglusvepps, hafa tekið upp á því að flýja húsnæðið og leitað í aðstöður utan skólans til þess að geta haldið störfum sínum áfram. Þær deildir sem eru staðsettar í því húsnæði munu koma til með að vera húsnæðislausar þegar staðfesting á myglusvepp hefur borist.

Húsnæði tónlistar- og sviðlistabrautar Listaháskólans er staðsett á Sölvhólsgötu. Beðið er eftir staðfestingu á því að í húsinu, sem er fimm hæða og lyftulaust, sé myglusveppur. – Mynd: visir.is

Húsnæði tónlistar- og sviðlistabrautar Listaháskólans er staðsett á Sölvhólsgötu. Beðið er eftir staðfestingu á því að í húsinu, sem er fimm hæða og lyftulaust, sé myglusveppur. – Mynd: visir.is

Sandra Rún Jónsdóttir, formaður NLHÍ, gerir grein fyrir umsögn NLHÍ um þingsályktunartillöguna – Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Sandra Rún Jónsdóttir, formaður NLHÍ, gerir grein fyrir umsögn NLHÍ um þingsályktunartillöguna – Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Nemendaráð Listaháskólans las upp umsögn sína um þingsályktunartillöguna þar sem rök voru færð fyrir nauðsyn þessa máls og óskaði eftir stuðningi við umsögnina frá hinum aðildarfélögum LÍS. Bón NLHÍ var tekið af hinum aðildarfélögunum með eindæma hvatningu og vilja til stuðnings. Þau hvöttu NLHÍ til þess að láta í sér heyra og fögnuðu því að NLHÍ vekti athygli á þessu, undirstrikuðu þörfina á umfjöllun og tjáðu sig um það að LÍS ætti að beita sér sem þrýstiafl í þessu máli. Afrakstur umræðnanna fólst í því að öll aðildarfélögin hyggðust skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við umsögn nemendaráðs Listaháskóla Íslands og að í framhaldi af því myndi LÍS beita sér fyrir þessu.

NLHÍ er þakklátt fyrir þær móttökur sem það fékk við umleitan sinni, en viðtökur sem þessar eru tákn um einstakan hóp einstaklinga sem sitja í forsvari fyrir stúdenta landsins, þar sem ekki er leitað eftir því að kljúfa í fylkingar, heldur sameinast í baráttumálum sínum og gæta hagsmuna hvers annars.

Þessar umræður voru byltingakenndar að mörgu leyti, og þá mögulega fyrst og fremst að því að þarna var komið veigamikið mál sem LÍS gæti beitt sér fyrir með öllum sínum mætti, sem sameinuð rödd stúdenta.

Húsnæði myndlistardeildar er staðsett á Laugarnesi. Húsið er fyrrum sláturhús SS. Listaháskólinn nýtir einungis hluta húsnæðisins, en restin er nýtt í geymslurými fyrir ríkisstarfsmenn og þjóðleikhúsið. Pípulagnir hússins eru að mestu leyti handónýt…

Húsnæði myndlistardeildar er staðsett á Laugarnesi. Húsið er fyrrum sláturhús SS. Listaháskólinn nýtir einungis hluta húsnæðisins, en restin er nýtt í geymslurými fyrir ríkisstarfsmenn og þjóðleikhúsið. Pípulagnir hússins eru að mestu leyti handónýtar svo að skólplykt hefur legið í húsinu ásamt því að eina lyftan sem stendur til boða er vörulyfta. Húsið hefur ekki gengið í gegnum viðunandi breytingar til þess að geta þjónað sem almennilegt skólarými. – Mynd: lhi.is

 

Hér má finna þingsályktunartillöguna, umræður um hana í þingsal og upplýsingar um hvernig skila má inn umsögn, en það er öllum frjálst að skila inn umsögnum, hvort sem það eru einstaklingar eða hópar.


Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, fulltrúa NLHÍ í framkvæmdastjórn LÍS

 
Read More
David Erik David Erik

Mikil samstaða og baráttuhugur einkenndi Landsþing LÍS 2017 – Samantekt frá þinginu

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta var haldið í Háskólanum á Akureyri um helgina, 17. - 19. mars. Yfirskrift þingsins var Hvers virði er mín menntun? – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna.

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta var haldið í Háskólanum á Akureyri um helgina, 17. - 19. mars. Yfirskrift þingsins var Hvers virði er mín menntun? – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna.

Landsþing LÍS hefur æðsta vald í öllum málum samtakanna og vinnur framkvæmdastjórn eftir stefnum þingsins í sínum daglegu störfum. Á hverju landsþingi er ákveðið þema og dagskrá í samræmi við það.

Á föstudeginum byrjaði dagskráin á erindi frá Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri. Hann brýndi fyrir þinggestum þá ábyrgð sem lægi á herðum þeirra sem berjast fyrir hagsmunum stúdenta og mikilvægi þess að íslenskir stúdentar, hvaðan af landinu sem þeir kæmu, stæðu saman í baráttunni. Hann minnti einnig á að íslenskir stúdentar væru, þrátt fyrir að vera að landfræðilega einangraðir, partur af alþjóðasamfélagi og ættu að taka virkan þátt í mótun þess. 

Hefðbundin mál voru einnig á dagskrá á þinginu. Ársskýrsla stjórnar var kynnt, reikningar samtakanna bornir upp til samþykktar og árgjöld aðildarfélaganna rædd.

Myndir: Elín Dóra Birgisdóttir

Myndir: Elín Dóra Birgisdóttir

 

Stefnumótun: Efling stúdenta í gæðastarfi

Á laugardeginum var fjallað um ólíka fleti í gæðastarfi og mikilvægi þátttöku stúdenta í starfinu. Í upphafi dags flutti Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, erindi um virðisauka háskólamenntunar á Íslands. Þórunn sýndi að við lok prófgráðu stöndum við á Íslandi höllum fæti í samanburði við nágrannalönd. Það er samfélaginu til hagsbóta að hafa hátt menntunarstig í landinu en aftur á móti vantar hvata til að sækja sér menntun á háskólastigi þar sem í því felst lítil virðisaukning þegar kemur að launakjörum.

Þinggestir fengu síðan að hlýða á áhugaverða fyrirlestra um gæðastarf í háskólasamfélaginu frá sérfræðingum á því sviði og nemendum sem hafa unnið ötullega að gæðastarfi í sínum háskóla. Sigurður Óli Sigurðsson og María Kristín Gylfadóttir, frá Rannís, fjölluðu um gæðastarf og gerðu þinggestum grein fyrir stöðu gæðamála á Íslandi. Þá fjölluðu þau sérstaklega um QEF (Quality Enhancement Framework), sem er rammaáætlun um ytri og innri gæðaúttektir íslenskra háskóla. Fyrsti hluti QEF fór fram á árunum 2010-2015 en nú í haust mun annar hluti gæðaúttektanna fara af stað og standa til ársins 2024. Í ferlinu munu allir íslenskir háskólar fara í gegnum innri og ytri gæðaúttektir sem stýrt verður af erlendum sérfræðingum. Skólunum verður að lokum gefin einkunn þar sem kemur fram hvort þeir hafi staðist úttektirnar að fullu, að hluta til eða ekki staðist þær.

Einar Hreinsson, forstöðumaður kennslusviðs í HR, tók svo til máls. Einar sagði frá nýju gæðakerfi sem hefur verið í þróun hjá skólanum. Hann fjallaði sérstaklega um mikilvægi þátttöku nemenda í gæðastarfi og sagði að samstarf við nemendur væri nauðsynlegur hlekkur til að þróa og innleiða gæðakerfi.

Því næst fengu þinggestir að hlýða á erindi frá Ernu Sigurðardóttur, meistaranema í lögfræði við HR. Erna er hagsmunafulltrúi SFHR og hefur unnið með Einari að þróun nýs gæðakerfis. Hún fjallaði um mikilvægi þátttöku stúdenta í ferlinu og sagði þar sérstaklega mikilvægt að auka þátttöku nemenda í kennslukönnunum.

Að lokum var erindi frá heimamanni, Arnheiði Eyþórsdóttur, sem er starfandi gæðastjóri HA. Arnheiður fjallaði um gæðakerfi Háskólans á Akureyri, en HA hefur verið framarlega í þátttöku stúdenta í gæðastarfi sínu.

Seinni hluti laugardags fór í stefnumótunarvinnu um gæðamál, en María Kristín og Sigurður Óli frá Rannís stýrðu vinnustofum þess efnis. Þar komu meðal annars fram helstu áskoranir sem fylgja gæðastarfi. Augljóst er að háskólanemendur eru uggandi yfir undirfjármögnun háskólakerfisins og telja það vera mikla hindrun í eflingu gæða í háskólunum. Aðrar áskoranir sem þinggestir sammældust um voru skortur á upplýsingum og sýnileika árangurs, en þetta kemur til dæmis oft fyrir í úrvinnslu kennslukannana. Einnig kom fram að mikilvægt er að stofnanaminni glatist ekki í hagsmunabaráttu stúdenta, en þinggestir bentu á að hröð endurnýjun fulltrúa stúdenta ásamt tímaleysi á meðan námi stendur sé eitthvað sem þarf að leysa til að tryggja öfluga þátttöku stúdenta í gæðastarfi.

Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Þinggestir voru á einu máli um mikilvægi þess að stúdentar taki þátt í gæðastarfi í háskólunum. Þetta hefur þó oft verið erfitt að innleiða sökum áskorana sem bent hefur verið á og mikið rými til úrbóta. Í stefnumótunarvinnunni kom meðal annars fram að þátttaka stúdenta tryggir fjölbreyttara og jafnara háskólasamfélag. Það er öllum til hagsbóta að mikið samtal sé milli nemenda og starfsfólks háskólanna þar sem það auðveldar alla innleiðingu á breytingum. Úr nægu efni er að  vinna eftir öflugar vinnustofur og hlakkar framkvæmdastjórn LÍS til að skoða það nánar við  gerð stefnu samtakanna í gæðamálum.

Eftir að vinnustofum dagsins lauk voru breytingar á lögum samtakanna teknar fyrir. Lagabreytingarnar tóku tæpa fimm klukkustundir. Framkvæmdastjórn LÍS var ánægð með hvernig allt fór fram en vel tókst að vinna úr  öllum minniháttar ágreiningsmálum sem upp komu og þær farsælur málamiðlanir sem mynduðust styrkja stoðir samtakanna. Út frá ýmsum lagabreytingum sköpuðust oft áhugaverðar umræður um ákveðna fleti starfsemi samtakanna sem munu koma til með að vera leiðbeinandi og til hagsbóta fyrir framkvæmdastjórn næsta starfsárs.

Stefnumótunarvinna um sameiginleg hagsmunamál stúdenta. Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Stefnumótunarvinna um sameiginleg hagsmunamál stúdenta. Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Það sem stóð upp úr á sunnudeginum var vinnustofan sem framkvæmdastjórn LÍS sá um en þar veltu þingfulltrúar því fyrir sér hver stærstu sameiginlegu hagsmunamál stúdenta væru og af hverju. Í framhaldi var það rætt sérstaklega hvernig LÍS gæti beitt sér fyrir þeim hagsmunamálum er þingfulltrúar töldu vera í forgangi. Þau hagsmunamál sem augljóst er að brenna hvað mest á stúdentum er undirfjármögnun háskólakerfisins, lánasjóður íslenskra námsmanna og aðgengi að námi.

IMG_7548.JPG
 

Aldís Mjöll kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta

Aldís Mjöll Geirsdóttir lagði áherslu á mikilvægi samstöðu stúdenta í hagsmunabárattu þeirra í framboðsræðunni sinni. - Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Aldís Mjöll Geirsdóttir lagði áherslu á mikilvægi samstöðu stúdenta í hagsmunabárattu þeirra í framboðsræðunni sinni. - Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Síðasti dagskrárliður sunnudagsins, og þar með landsþingsins sjálfs, var kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta samtakanna en samkvæmt lögum LÍS er kosið um þau embætti á landsþingi. Aldís Mjöll Geirsdóttir hlaut kjör sem formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta en hún er 22 ára laganemi á öðru ári við Háskóla Íslands. Aldís hefur setið í framkvæmdastjórn samtakanna síðastliðin tvö ár og þar af sinnt stöðu gjaldkera og varaformanns. Í ræðu sinni lagði hún áherslu á að stúdentar yrðu að standa saman í hagsmunabaráttunni en kominn væri tími á að styrkja rödd stúdenta í samfélaginu. Sameinuð rödd stúdenta væri besta þrýstiaflið.

Í embætti gæðastjóra LÍS var David Erik Mollberg kosinn en hann er sitjandi formaður samtakanna og hefur tekið drjúgan þátt í gæðastarfi samtakanna á árinu. David er 22 ára rekstrarverkfræðinemi á þriðja ári í Háskólanum í Reykjavík. Nýkjörinn alþjóðaforseti LÍS er Elsa María Guðlaugs Drífudóttir en síðastliðið starfsár hefur hún sinnt stöðu jafnréttisfulltrúa. Elsa er nemi á þriðja ári í myndlist við Listaháskóla Íslands.

 

Tilnefningar í framkvæmdastjórn LÍS

Í lok þings var einnig tekið á móti tilnefningum í framkvæmdastjórn LÍS fyrir komandi starfsár.

Aðildarfélögin tilnefna einn einstakling á hverju ári til setu í framkvæmdastjórn í tvö ár. Þannig er það tryggt að reynsla haldist innan samtakanna. Sum félög báðu um undanþágu til tilnefningar og hafa þau til skiptafundar til að tilnefna í stjórnina.

Framkvæmdatjórn LÍS fyrir starfsárið 2017 - 2018 verður svo hljóðandi:

Frá Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri

Varamenn:

Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir

Björn Auðun Ólafsson

Fulltrúar:

Anna Sif Guðmundsdóttir

Lísa Margrét Rúnarsdóttir

Frá Nemendafélagi Háskólans á Bifröst

Varamaður:

Þórarinn Halldór Óðinsson

Fulltrúar:

Guðrún Marisibil heimisdóttir

Teitur Erlingsson

Frá Nemendafélagi Landbúnaðarháskóla Íslands

Fulltrúi:

Ísfold Líf Ágústdóttir

Frá Nemendaráði Listaháskóla Íslands

Fulltrúar:

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir

Frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík

Varamenn:

Íris Björk Snorradóttir

Salka Sigurðardóttir

Fulltrúar:

Kristín Sólveig Kormáksdóttir

Eygló María Björnsdóttir

Frá Stúdentaráði Háskóla Íslands

Varamenn:

Kristrún Helga Jóhannsdóttir

Sandra Silfá ragnarsdóttir

Fulltrúi:

Ágústa Björg Kettler Kristjánsdóttir

 

Frá Stúdentafélagi Hólaskóla

Varamaður:

Fríða Hansen

Fulltrúi:

Brynjar Darri Sigurðsson Kjerúlf

Samband íslenskra námsmanna erlendis bað um undanþágu til skiptafundar.

Ný stjórn tekur formlega við á skiptafundi samtakanna sem haldinn verður í maí.


Þessi helgi sýndi það og sannaði hversu mikilvægur góður samráðs- og samskiptavettvangur er íslenskum stúdentum. Aðildarfélög mega vera gríðarlega stolt af sínum þingfulltrúum sem voru algjörlega til fyrirmyndar í vinnu sinni og framkomu. Nálgun þeirra á þau málefni sem voru til umræðu var bæði fagleg og lausnamiðuð. Viljinn til skilnings og samstarfs var sterkur og hvetjandi. Það var því framkvæmdarstjórn snemma ljóst að þrátt fyrir að koma úr ólíkum áttum þá er samstaða á milli stúdenta mikil. Allir þingfulltrúar höfðu miklar áhyggjur af undirfjármögnun íslenska menntakerfisins og mikilvægi þess að endurskoða fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmamma með hlutverk hans í huga. Þá voru allir sammála um mikilvægi þess að tryggja gæði náms og var stórt skref tekið í þá átt á þinginu með mikilvægu innleggi þingfulltrúa.

Mörg krefjandi verkefni bíða komandi framkvæmdarstjórnar. Ásamt því að tryggja að íslenskir stúdentar séu sameinaðir í baráttu sinni um öll hagsmunamál og halda áfram að rækta sambönd sín við landssamtök stúdenta erlendis verður hafin mótun stefnu í gæðamálum sem byggir á framlagi þingfulltrúanna þessa helgi. Þó að verkefnin séu krefjandi má framkvæmdarstjórn vera bjartsýn því ef andinn á landsþinginu, sem einkenndist af vilja, virðingu og vináttu, er einhver fyrirboði þá er samstaða íslenskra stúdenta mikil. Rödd íslenskra stúdenta er sameinuð undir Landssamtökum íslenskra stúdenta!

LÍS þakkar öllum þeim sem tók þátt á þinginu og komu að skipulagningunni kærlega fyrir.

Myndir: Elín Dóra Birgisdóttir

Read More