Elsa Drífudóttir Elsa Drífudóttir

Vinnustofa á vegum Landssamtaka palestínskra stúdenta í Ramallah, Palestínu

Dagana 4.-5. desember sóttu fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, vinnustofu á vegum Landssamtaka palestínskra stúdenta (PSCF) í Ramallah í Palestínu. LÍS var boðið af PSCF og Landssamtökum stúdenta í Danmörku (DSF) að taka þátt í þessari vinnustofu ásamt öllum öðrum aðildarfélögum European Students’ Union (ESU), en stjórnarfundur ESU var haldinn í Jerúsalem í vikunni áður og lauk 3. desember.

Dagana 4.-5. desember sóttu fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, vinnustofu á vegum Landssamtaka palestínskra stúdenta (PSCF) í Ramallah í Palestínu. LÍS var boðið af PSCF og Landssamtökum stúdenta í Danmörku (DSF) að taka þátt í þessari vinnustofu ásamt öllum öðrum aðildarfélögum European Students’ Union (ESU), en stjórnarfundur ESU var haldinn í Jerúsalem í vikunni áður og lauk 3. desember.

Hópmynd af þeim sem sóttu vinnustofuna

Hópmynd af þeim sem sóttu vinnustofuna

Ásamt LÍS þá sóttu sex önnur landssamtök vinnustofuna, ásamt fulltrúum frá ESU, þar á meðal forseti ESU, Helge Schwitters, DSF og PSCF. Hafa DSF unnið með PSCF frá því árið 2013, fyrst að því að stofna PSCF og síðan að því að byggja samtökin upp. Var þessi vinnustofa síðan hugsuð sem ákveðin tímamót í sögu PSCF, þar sem tækifæri gæfist fyrir samtökin til að kynnast enn fleiri samtökum í Evrópu, læra af þeim og stofna til samtals. Það var einstaklega lærdómsríkt fyrir fulltrúa LÍS og annarra samtaka að eiga samtal við palestínska fulltrúa stúdenta, þar sem hernám Ísraels í Palestínu veldur því að baráttumál stúdenta þar eru af allt öðru eðli heldur en stúdentar í Evrópu eru yfirleitt kunnugir.

Fólust vinnustofur meðal annars í því að finna langtímalausnir til þess að tryggja PSCF fjármagn, en vegna hernámsins er mjög erfitt fyrir samtök að eiga nokkurt fjármagn. Eins var alþjóðavæðing rædd en það er risavaxið vandamál fólgið í ímynd Palestínu úti í heimi, sem og þeir erfiðleikar sem felast annars vegar í því fyrir palestínska stúdenta að ferðast erlendis og hins vegar fyrir erlenda gesti að koma til Palestínu. Reyndu vinnustofurnar því að ýmsu leyti á hæfileika þátttakenda til þess að hugsa í lausnum og undir allt öðrum kringumstæðum en hingað til. Mynduðust líflegar umræður og ýmsar aðferðir búnar til með það að takmarki að leysa þessi vandamál og mátti þegar sjá að hafði myndast vísir að áframhaldandi samtali á milli samtaka.

Emad Abu Kish, rektor Al-Quds háskóla, stærsta háskóla Palestínu, var með erindi sem bar yfirskriftina “the role of youth in fighting extremism”. Þar ræddi hann þau vandamál sem ungmenni standa frammi fyrir í Palestínu. Um 70% ungmenna í Palestínu skortir vinnu og eru 35 þúsund útskrifaðra stúdenta atvinnulausir. Er ísraelskt hernám landsins rót vandans, þar sem það gerir nær allar tilraunir til þess að rækta og efla eðlilegt samfélag vonlausar. Hefur Al-Quds háskólinn reynt að beita sér út fyrir háskólann með því að standa fyrir ýmsum samfélagslegum framtökum, líkt og arabísku bókasafni í gömlu borg Jerúsalem fyrir Palestínumenn sem þar búa. Eru 20% ársútgjalda háskólans fólgin í þessum framtökum.

Fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Sneru fulltrúar LÍS heim með nýja sýn á hlutverk stúdenta í samfélaginu og nýjan skilning á þeim aðstæðum sem stúdentar víðs vegar búa við. Daginn eftir að fulltrúar LÍS lentu á Íslandi fór svo að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti því yfir að Bandaríkin viðurkenndu Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Yfirlýsing sem olli því að það brothætta ástand sem ríkir á þessu landssvæði jók á reiðiskjálfi.

LÍS fordæmir afleiðingar hernámsins á stúdenta, og lýsir yfir stuðningi við palestínska stúdenta í baráttu sinni fyrir jöfnu aðgengi að námi og öryggi.

 

Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur

Read More
Elsa Drífudóttir Elsa Drífudóttir

73. stjórnarfundur ESU í Jerúsalem

Dagana 27. nóvember - 3. desember sóttu fulltrúar LÍS 73. stjórnarfund ESU (European Students´ Union) sem haldinn var í Ísrael af NUIS (Landssamtökum ísraelskra stúdenta). Stjórnarfundurinn og þriggja daga undirbúningsráðstefna voru haldin í Jerúsalem. Voru það Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður LÍS, og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, alþjóðaforseti, sem sóttu fundinn fyrir hönd LÍS.

Dagana 27. nóvember - 3. desember sóttu fulltrúar LÍS 73. stjórnarfund ESU (European Students´ Union) sem haldinn var í Ísrael af NUIS (Landssamtökum ísraelskra stúdenta). Stjórnarfundurinn og þriggja daga undirbúningsráðstefna voru haldin í Jerúsalem. Voru það Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður LÍS, og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, alþjóðaforseti, sem sóttu fundinn fyrir hönd LÍS.

DSC02187.JPG

Stjórnarfundir ESU eru haldnir tvisvar á ári og skiptast aðildarfélög á við að bjóða sig fram til þess að hýsa fundina. Eru kosningar haldnar á hverjum stjórnarfundi, þar sem staðsetning þarnæsta fundar er ákvörðuð. Var það því á 71. stjórnarfundi í Gdansk, Póllandi, sem kosið var um staðsetningu þessa fundar. Það var skýr afstaða LÍS að ekki væri viðeigandi að halda viðburð á vegum ESU í Ísrael, m.a. þar sem með því væri ESU að brjóta á mannréttindastefnu sinni, og kusu fulltrúar LÍS því gegn ákvörðuninni. Engu að síður fór atkvæðagreiðsla með því að fundurinn yrði haldinn í Ísrael.

Fylgdu fulltrúar LÍS atkvæði sínu eftir með því að fara með yfirlýsingu á næsta stjórnarfundi, sem haldinn var í Möltu í maí. Í yfirlýsingunni undirstrika LÍS það vandamál sem fylgir því að fundur á vegum ESU sé haldinn í Ísrael, sem og hvaða öðrum stað þar sem hætta er á að stefnum og gildum ESU sé ekki stætt. Þrátt fyrir mótmæli LÍS var ákvörðunin óafturkræf, og fundurinn skyldi haldinn í Jerúsalem af NUIS. Eftir þessa atburðarás veltu LÍS fyrir sér hvort það væri best að sækja fundinn, eða hvort betra væri að sleppa því að fara. Eftir langan umhugsunartíma og eftir að hafa rætt saman innan LÍS, við aðila innan ESU og annarra landssamtaka var sú ákvörðun tekin að LÍS myndi senda fulltrúa á stjórnarfundinn. Erfitt er að missa af heilum stjórnarfundi þar sem margar mikilvægar ákvarðanir eru teknar, og var það trú LÍS að sterkari leikur væri fólginn í því að koma skilaboðum og skoðunum LÍS á framfæri í persónu.

Forseti ESU. Helge Schwitters, heldur opnunarræðu fyrir ráðstefnugesti

Forseti ESU. Helge Schwitters, heldur opnunarræðu fyrir ráðstefnugesti

Á ráðstefnunni urðu falskar fréttagreinar, skrifaðar af ísraelskum fréttamiðlum, til þess að ESU gaf út fréttayfirlýsingu. Þar undirstrikaði Helge Schwitters, forseti ESU, meðal annars að viðburður ESU væri ekki til þess gerður að lýsa yfir afstöðu samtakanna gagnvart ástandinu á milli Ísrael og Palestínu, þar sem ESU hefur enga formlega afstöðu. Atvik sem þessi eru einmitt meðal ástæðna er lágu að baki atkvæðis LÍS og yfirlýsinga. Það er ótækt að stúdentafulltrúar víðsvegar frá í Evrópu sem eru samankomnir til að vinna að bættri menntun í Evrópu séu notaðir með þessum hætti í deilum sem eru á engan hátt í tengslum við tilgang heimsóknar þeirra í viðkomandi landi.

Á undirbúningsráðstefnunni sjálfri sóttu fulltrúar ýmsa fyrirlestra um starfsemi og framtök NUIS. NUIS eru mjög stór samtök með um það bil þrjátíu starfsmenn á sínum snærum og ýmsa samstarfshópa sem beita sér fyrir ýmsum verkefnum í samstarfi við samtökin. Má þar meðal annars nefna samtök LGBTQ+ stúdenta í Ísrael og framtak sem nefnist reLOD, sem er ætlað til þess að glæða mismunandi borgarhluta lífi með því móti að bjóða stúdentum húsnæði á lægra verði á þeim svæðum. Ásamt slíkum fyrirlestrum áttu sér einni stað undirbúningsfundir fyrir stjórnarfundinn sjálfan. Þar fá aðildarfélög ESU tækifæri til þess að spyrja framkvæmdarstjórn spurninga um það sem tekið verður fyrir á stjórnarfundi, ásamt því að geta átt samtal hvert við annað um þau málefni og breytingar sem þau vilja ná fram.  

Stjórnarfundur ESU átti sér stað dagana 1.-3. desember. Á stjórnarfundinum var tekið á ýmsum málum og fundarseta löng og ströng. Að þessu sinni var helst á dagskrá verkáætlun komandi árs (e. Plan of Work) og pólitískar áherslur næstu þriggja ára (e. Strategic Political Priorities). Þau skjöl voru unnin af framkvæmdarstjórn ESU, eftir að hafa haldið vinnustofur á ESC (European Students´ Convention) sem haldið var í Cardiff, Wales, fyrr um árið, þar sem aðildarfélögin fengu tækifæri til þess að tjá sig um það sem þau myndu vilja sjá í viðkomandi áætlunum.

Eins og fyrr segir eru pólitísku áherslurnar samdar til þriggja ára í senn, og eru því eins konar leiðbeining fyrir næstu þrjár framkvæmdarstjórnir ESU sem í framhaldi semja ýtarlegri verkáætlanir fyrir hvert ár fyrir sig. Það gefur að skilja að það getur verið erfitt að koma sér saman um forgangsröðun, enda mörg sjónarmið sem koma fram þegar saman eru komnir fulltrúar frá 38 löndum, og stóðu fundarhöld framyfir miðnætti og fram á nætur.

DSC02276.JPG

Endanleg útgáfa verkáætlunarinnar tekur meðal annars á jafnréttismálum háskóla, að ESU berjist fyrir stúdentamiðuðu námi (e. Student Centered Learning) og forgangsraða því sérstaklega að svokölluð NAPs (National Access Plans) verði gerð og sett í framkvæmd innan Evrópu. NAPs eru aðgerðaráætlanir sem gerðar eru innan landa til þess að auka jafnt aðgengi að námi fyrir alla, óháð bakgrunni, efnahag, kyni, þjóðerni o.s.fv.. Slík aðgerðaráætlun hefur til dæmis verið gerð á Írlandi og er það baráttumál LÍS að á Íslandi verði þannig áætlun gerð og er það því mikilvægt að hafa ESU sér að baki. Einnig tekur ESU á innri málum í verkáætluninni þar sem markmiðið er að gera ESU aðgengilegra og opnara umhverfi í samstarfi við aðildarfélögin og með því að gera það að markmiði að hjálpa aðildarfélögum sínum að efla sína eigin vinnu.

Samþykkt útgáfa pólitísku áherslanna inniheldur fyrst og fremst markmið sem lúta að því að gera háskólamenntun aðgengilega fyrir alla, að stúdentamiðað nám ryðji sér enn frekar til rúms, efla þátt stúdenta í allri stjórnsýslu og ákvarðanatöku hvað varðar háskólanám og háskólakerfið. Jafnfram að vinna stúdenta og háskólanám verði metin að verðleikum sínum. Hægt verður að nálgast endanlega útgáfu áherslanna á vef ESU um leið og þær verða birtar.

Ásamt verkáætluninni og áherslunum var einnig tekið á aðildarumsóknum, en tvær umsóknir voru á borðinu að þessu sinni. Landssamtök stúdenta í Kosovo höfðu sótt um umsóknar aðild (e. Candidate membership) og Landssamtök stúdenta í Moldavíu um fulla aðild (e. Full membership). Fóru atkvæði svo að Moldavía var kosin inn, en umsókn Kosovo var hafnað. Þó var það samþykkt undir lok fundar að Landssamtök stúdenta á Bretlandi (NUS-UK) myndu beita sér fyrir því að aðstoða stúdenta í Kosovo við að efla landssamtökin sín til þess að geta sótt um að nýju að ári liðnu.

Á fundinum flutti Aldís Mjöll Geirsdóttir yfirlýsingu fyrir hönd LÍS, sem varðaði þá staðreynd að fundurinn var haldinn í Ísrael, vandkvæði þess og alls ákvörðunarferlisins því að baki. Líkt og hefur verið sagt, þá er það mat LÍS að með því að halda stjórnarfundinn í Ísrael þá var ESU að brjóta eigin mannréttindastefnu. Sú staðreynd útaf fyrir sig  er grafalvarleg en einnig er það ekki ásættanlegt að samtök á borð við ESU gangi í gegnum allt það ferli sem nauðsynlegt er til að setja stefnur til þess eins og fara síðan gegn þeim. Auk þess er það mat LÍS að vandinn liggur að hluta til í því að ekki eru til staðar varaáætlanir um hvað skal gert ef til þess kemur að kosið er gegn því að stjórnarfundur sé haldinn á ákveðnum stað. Það er alvarleg staða fyrir ESU ef til þess kemur að ekkert félag býðst til þess að halda mikilvægasta viðburð allrar starfsemi samtakanna. Í yfirlýsingunni má m.a. lesa:

“LÍS is dissatisfied and concerned that when it comes to voting for hosting countries for future events and the Board is only presented with one option, there are no concrete measures to a backup plan in the case of the vote going against. With this statement we wish to raise awareness of that problem, the problem of NUSes feeling pressured to vote in favor of the only option available, because there seems to be no other option. This results in the vote feeling only symbolic rather than the democratic procedure it is supposed to be. This troubles LÍS greatly; it is a disgrace to democracy and disrespectful to the work conducted within ESU in order to construct documents such as the Human Rights and Solidarity Strategy, when they are ignored in situations where they should rightly be followed and implemented. It’s also troubling when we face the situation where there are no candidates for hosting events such as the BM76.”

Er það trú LÍS að ekki var talað fyrir daufum eyrum og einnig ætlun LÍS að fylgja þessari atburðarás eftir. Þennan galla í kerfinu verður að lagfæra og koma í veg fyrir að ESU lendi í þessum aðstæðum aftur.

Fulltrúar LÍS sneru aftur af fundinum, ánægðir með sitt framlag, það alþjóðastarf sem LÍS taka þátt í er ómetanlegt og mjög mikilvægt að hlúð sé að því með alúð og metnaði. Hlakka fulltrúar einnig til þess að hefjast þegar handa á þeim verkefnum sem þeir eru með í farteskinu fyrir seinni hluta starfsárs.

 

Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur

Read More
Guest User Guest User

Opið bréf til flokka er standa í ríkisstjórnarviðræðum

Kæru flokkar sem nú standið í ríkisstjórnarviðræðum, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð.

Kæru flokkar sem nú standið í ríkisstjórnarviðræðum, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð.

Þar sem þið vinnið að gerð stjórnarsáttmála er við hæfi að minna á og ítreka áherslur stúdenta. Óhætt er að fullyrða að fyrir kosningar hafi allir flokkar tekið undir að bæta þyrfti margt er varðar kjör stúdenta. Því leggjum við áherslu á að það verði sýnt í verki við skrif stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Við undirstrikum sérstaklega þörfina fyrir nýju lánasjóðskerfi þar sem að við smíð þess verði sterk aðkoma stúdenta frá upphafi. Ásamt því krefjumst við umbóta á húsnæðismálum en tryggja þarf nægt framboð á húsnæði fyrir stúdenta. Hér að neðan má lesa áherslur stúdenta í heild sinni fyrir Alþingiskosningar 2017.

LIS-Poster-kjóstumenntun.jpg

Reykjavík, 19. nóvember 2017

Virðingarfyllst,

Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta

Read More
Elsa Drífudóttir Elsa Drífudóttir

NOM72 í Litháen: Quality Assurance in Higher Education

Dagana 27. - 29. október sóttu fulltrúar LÍS NOM fund sem haldinn var af LSS, landssamtökum litháenskra stúdenta í Klaipéda, Litháen. NOM (Nordiskt Ordförande Møte) er samstarfsnet landssamtaka stúdenta á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum og eru reglubundnir fundir sem fulltrúar LÍS sækja tvisvar á ári.

Dagana 27. - 29. október sóttu fulltrúar LÍS NOM fund sem haldinn var af LSS, landssamtökum litháenskra stúdenta í Klaipéda, Litháen. NOM (Nordiskt Ordförande Møte) er samstarfsnet landssamtaka stúdenta á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum og eru reglubundnir fundir sem fulltrúar LÍS sækja tvisvar á ári.

Vaiva Kasiulynaité frá LSS býður ráðstefnugesti velkomna

Vaiva Kasiulynaité frá LSS býður ráðstefnugesti velkomna

Að þessu sinni var yfirskrift ráðstefnunnar “Quality Assurance in Higher Education” og tók á gæðakerfum í háskólum. Háskólakerfið í Litháen gengur nú í gegnum miklar breytingar þar sem unnið er að því að auka gæði háskólamenntunar sem og verið er að meta hvort eigi að fækka fjölda háskóla í landinu. Fengu ráðstefnugestir kynningu frá fulltrúa menntamálaráðuneytisins í Litháen sem hefur kynnt sér ólík kerfi sem byggð eru á mismunandi grunni, fyrst og fremst innan Evrópu og þá sérstaklega í Bretlandi, en einnig í Bandaríkjunum. Hægt var að finna að veigamiklar breytingar voru í aðsigi og einstaklega jákvætt að sjá að ríkisstjórn Litháen hefur lagt mikið upp úr samstarfi og samtali við litháenska stúdenta í gegnum LSS í þessu ferli og gerir sér grein fyrir því að tilraunir til bóta séu gagnslausar nema með sterkri aðkomu stúdenta.

Fulltrúi frá litháenska menntamálaráðuneytinu kynnir stöðu mála í háskólakerfi Litháens

Fulltrúi frá litháenska menntamálaráðuneytinu kynnir stöðu mála í háskólakerfi Litháens

Á ráðstefnunni fengu fulltrúar einnig kynningu á núverandi stöðu Bologna ferlisins frá Wenche Aasheim frá Noregi. Bologna ferlið snýr að því að skapa samevrópskt kerfi æðri menntunar (e. European Higher Education Area) en með tilvist slíks kerfis er hægt að tryggja að stúdentar viti að hverju þeir ganga í sínu námi. Það þýðir að námsgráður og gæðakerfi í háskólum standist samþykkta evrópska staðla samkvæmt Bologna. Þetta gerir stúdentum kleift að afla sér menntunar í mismunandi löndum án þeirra hindrana sem voru til staðar fyrir tilvist Bologna. Gott dæmi um mikilvægi Bologna ferlisins er samræmt einingakerfi milli landa sem við könnumst flest við sem ECTS einingar.  

Í maí 2018 verður haldinn ráðherrafundur í París (e. Ministerial Conference Paris 2018), þar sem samþykktar verða áherslur kerfisins fyrir næstu tvö árin. Í undirbúningi fyrir það eru tveir fundir haldnir af Bologna Follow Up Group (BFUG), þar sem formleg undirbúningsvinna fyrir þær samþykktir sem verða teknar fyrir á ráðherrafundinum er unnin. Ásamt því sendir European Students´ Union (ESU), út könnun til aðildarfélaga sinna fyrir útgáfu ritsins Bologna With Students´ Eyes (BWSE). BWSE er rit sem gefur yfirsýn á stöðu Bologna ferlisins út frá mati stúdenta frá þeim löndum sem taka þátt í ferlinu og getur nýst sem öflugt tæki til að stuðla að breytingum og úrbótum sem Bologna ferlið á að hafa í för með sér. Þar sem Bologna ferlið er mjög yfirgripsmikið og inniheldur marga enda sem halda þarf til haga. Var mjög gott að fá kynningu á stöðu mála og heyra hvernig önnur landssamtök stúdenta hyggjast undirbúa sig fyrir næstu mánuði vegna ráðherrafundarins. LÍS eru reiðubúin fyrir þessa vinnu næstu mánuði og munu gæta þess sem ætíð að halda uppi virku samtali við íslensk yfirvöld og aðra viðeigandi aðila. Stúdentar þátttökulanda í Bologna ferlinu eiga rétt á sæti í sendinefnd lands síns á ráðherrafundinn og hefur menntamálaráðuneyti staðfest sæti fulltrúa frá LÍS.

Fulltrúar LÍS á ráðstefnunni: Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og Eygló María Björnsdóttir

Fulltrúar LÍS á ráðstefnunni: Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og Eygló María Björnsdóttir

Fulltrúar LÍS eru sáttir með ráðstefnuna og þakka LSS fyrir allt utanumhald og undirbúningsvinnu sem fór í hana. Nú tekur við frekari undirbúningsvinna fyrir næsta alþjóðlega viðburð, sem er stjórnarfundur European Students´ Union í Jerúsalem, haldinn af Landssamtökum ísraelskra stúdenta. Sá fundur mun koma til með að vera áskorun fyrir LÍS, sem kusu upphaflega gegn staðsetningu fundarins og fóru með yfirlýsingu til þess að ítreka óánægju með þessa ákvörðun. Munu LÍS koma til með að láta frekar í sér heyra þegar að fundinum sjálfum kemur.

 

Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur

Read More
Guest User Guest User

Þitt atkvæði skiptir máli - Kjóstu menntun

Síðastliðnar tvær og hálfa viku hafa Landssamtök íslenskra stúdenta í samstarfi við aðildarfélög sín, eða hagsmunafélög íslenskra stúdenta, vakið athygli á stöðu háskólastigsins á Íslandi undir kassamerkinu #kjóstumenntun. Er nú á enda líklega eitt lengsta greinaskriftaátak sem sögur fara af þar sem reynt hefur verið að varpa ljósi á mismunandi fleti háskólastigsins á Íslandi. Einnig hafa verið haldnir opnir fundir með fulltrúum stjórnmálaflokka, bæði á Akureyri og í Reykjavík þar sem stúdentar sem og aðrir höfðu færi á að spyrja frambjóðendur um þeirra áherslur í málefnum stúdenta og ungs fólks á Íslandi.

Síðastliðnar tvær og hálfa viku hafa Landssamtök íslenskra stúdenta í samstarfi við aðildarfélög sín, eða hagsmunafélög íslenskra stúdenta, vakið athygli á stöðu háskólastigsins á Íslandi undir kassamerkinu #kjóstumenntun. Er nú á enda líklega eitt lengsta greinaskriftaátak sem sögur fara af þar sem reynt hefur verið að varpa ljósi á mismunandi fleti háskólastigsins á Íslandi. Einnig hafa verið haldnir opnir fundir með fulltrúum stjórnmálaflokka, bæði á Akureyri og í Reykjavík þar sem stúdentar sem og aðrir höfðu færi á að spyrja frambjóðendur um þeirra áherslur í málefnum stúdenta og ungs fólks á Íslandi.

Það spyrja sig eflaust einhverjir af hverju við erum að þessu. Svarið er einfalt. Málefni háskólanna á Íslandi og íslenskra stúdenta almennt hafa verið vanrækt lengi. Ár eftir ár hafa  rektorar, stúdentar og stúdentahreyfingar gagnrýnt fjármögnun háskólanna og stuðningskerfi stúdenta. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná til stjórnvalda og efnileg loforð stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga virðist ekki vera sannur vilji þegar til framkvæmda kemur.

Háskólar eru uppspretta nýrrar þekkingar, nýrra tækifæra og nýrra hugmynda. Menntun og gæði hennar eru forsenda samkeppnishæfni og verðmætasköpunar sem er grunnur góðra lífskjara og öflugs samfélags. Aukið aðgengi að menntun og hærra menntunarstig þjóða auka hagvöxt og hafa efnahagslega ávinninga fyrir samfélög. Auk þess hefur menntun áhrif á gildi, þekkingu, viðhorf og færni einstaklinga og hefur það áhrif á menningu samfélaga í heild sinni. Þá leiðir æðri menntun af sér aukna þátttöku einstaklinga í samfélaginu, minnkandi glæpatíðni, betri geðheilsu og bætta lýðheilsu almennt.

Menntunarstig þjóðarinnar hefur verið lægra en hinna Norðurlandanna en með aukinni aðsókn og auknu aðgengi að háskólanámi stöndum við nú nánast jafnfætis þeim. Fækkun nemenda er engin lausn á undirfjármögnun háskólanna til framtíðar heldur skref aftur á bak. Það gefur augaleið að hér á landi þarf að hlúa að aðgengi að menntun og gæði hennar með bættri fjármögnun.

Þá ber að athuga að aðgengi að námi snýst ekki eingöngu um aðgengi að háskólastofnunum. Það snýst um að þeir einstaklingar sem vilji afla sér menntunar hafi raunverulegt færi á að stunda það nám sem þeir hafa hug á. Það þýðir að stúdentar geti meðal annars komið þaki yfir höfuð sitt með viðhlítandi kostnaði, átt í sig og á, búið við góða geðheilsu og heilsu almennt og sinnt námi sínu af elju. Það er því nauðsyn að stúdentar, eins fjölbreyttur hópur sem þeir eru, fái viðeigandi stuðning til að þess óháð efnahag, bakgrunni, félagslegum aðstæðum og stöðu að öðru leyti.

Í 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) kemur fram að hlutverk sjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Líklega er óhætt að fullyrða að á meðal stúdenta sem og annarra sé hávær krafa um breyttan og endurbættan lánasjóð. Við endurskoðun á lögum um LÍN er aðkoma stúdenta algjörlega ómissandi því án stúdenta væri LÍN ekki til. Á sama hátt væri þverpólitísk samstaða æskileg þegar kemur að nýju lána- og styrkjakerfi fyrir stúdenta, enda snýst það ekki um stúdenta sem einangraðan hagsmunahóp heldur velferð þjóðarinnar allrar. Þá er brýnt að hlutverk LÍN – að allir óháð stöðu hafi tækifæri til náms – gleymist ekki.

Það er kominn tími á að stjórnvöld sýni hugrekki og hyggjuvit í verki og efni loforð sín. Bæti fjármögnun háskólanna, stuðningskerfi stúdenta og stöðu íslenskra stúdenta almennt. Þannig að hér á landi sé eftirsóknarvert og spennandi að vera stúdent sem og að lifa og starfa í framtíðinni.

Þann 28. október göngum við til kosninga enn á ný. Þitt atkvæði skiptir máli. Ég hvet þig til þess að mæta á kjörstað og kjósa menntun.

Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Greinin er hluti af átaki LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna fjármögnunar háskólastigsins í aðdraganda Alþingiskosninga 2017. Kassamerki átaksins er #kjóstumenntun. Við hvetjum þig til að nýta kosningaréttinn í Alþingiskosningum 2017.

 

Read More