Elsa María Guðlaugs Drífudóttir kjörin formaður á Landsþingi LÍS
Síðasti dagskrárliður sunnudagsins, og þar með landsþingsins sjálfs, var kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta samtakanna. Tvö framboð bárust í embætti formanns, tvö framboð bárust í embætti alþjóðaforseta og eitt framboð barst í embætti gæðastjóra. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir var kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta.
Síðastliðna helgi, 23.-25. mars, fór Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) fram í húsakynnum Háskólans á Bifröst. Landsþingið bar yfirskriftina Jafnrétti til náms – hvað er jafnt aðgengi að námi og hvernig tryggjum við það? Þingið er æðsta vald samtakanna og þar koma saman fulltrúar úr öllum aðildarfélögum LÍS.
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir flytur framboðsræðu sína
Síðasti dagskrárliður sunnudagsins, og þar með landsþingsins sjálfs, var kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta samtakanna. Tvö framboð bárust í embætti formanns, tvö framboð bárust í embætti alþjóðaforseta og eitt framboð barst í embætti gæðastjóra.
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir var kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta. Hún er 23 ára og lauk B.A. gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún hefur setið í framkvæmdarstjórn LÍS síðastliðin tvö ár, sinnt stöðu jafnréttisfulltrúa og starfað sem alþjóðaforseti samtakanna. Í ræðu sinni lagði Elsa ríka áherslu á mikilvægi þess að stúdentar láti ójafnrétti og aðgengisskort ekki líðast og að sett verði markmið innan samtakanna þar sem krafist er heildstæðrar menntastefnu frá yfirvöldum með sérstakri aðgengisáætlun fyrir háskólakerfið. Mikilvægt er að stúdentar standi sameinaðir í að gæta þess að þeirra hlutur sitji ekki eftir.
Nýkjörinn gæðastjóri, alþjóðaforseti og formaður
Aldís Mjöll Geirsdóttir var kjörin gæðastjóri. Hún er sitjandi formaður samtakanna og hefur komið mjög mikið að gæðastarfi þeirra. Aldís hefur meðal annars sinnt skrifum nýrrar gæðastefnu ásamt sitjandi gæðastjóra og verður fulltrúi íslenskra stúdenta á ráðherrafundi um Bologna ferlið sem tekur sér stað í París í maí. Aldís er 23 ára laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands.
Nýkjörinn alþjóðaforseti LÍS er Salka Sigurðardóttir. Salka er 23 ára og hefur sinnt starfi upplýsingafulltrúa í Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík síðastliðið ár. Hún er þriðja árs nemi í sálfræði við sama skóla.
Stefnumótun
Ásamt hefðbundnum þingstörfum var helgin nýtt í vinnustofur um jafnréttismál. Afrakstur vinnu helgarinnar mun koma til með að vera nýttur við gerð nýrrar jafnréttisstefnu samtakanna á komandi starfsári sem jafnréttisfulltrúi LÍS ber ábyrgð á. Þá var ný gæðastefna samtakanna samþykkt á þinginu en hafa skrif hennar staðið yfir á síðastliðnu starfsári. Umfjöllun um hana má finna í fréttatilkynningu hér.
Ályktanir þingsins
Tvær ályktanir voru lagðar fyrir þingið, þar sem óskað var eftir stuðningi aðildarfélaga LÍS. Sú fyrri kom frá Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri og snýr að yfirvofandi kennaraskorti. Sólveig María Árnadóttir, formaður SHA og kennaranemi óskaði eftir stuðningi aðildarfélaganna þar sem um er að ræða málefni sem snertir allt samfélagið.
Yfirvofandi kennaraskortur hér á landi hefur verið töluvert til umræðu síðastliðin tvö ár. Ár hvert sækja færri nemendur í kennaranám og er meðalaldur starfandi kennara kominn hátt í fimmtugt. Þá er talið að um einungis 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara starfi í leik- og grunnskólum landsins. Því bendir þetta til að bæði þurfi að auka nýliðun og bæta starfsaðstæður kennara til muna, til þess að menntaðir kennarar sjái hvata og tilgang í því að fara í kennslu. (Úr ályktun)
Sigrún Jónsdóttir bar upp seinni ályktunina, fyrir hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og greindi frá stöðu alþjóðlegra stúdenta á íslenskri grundu.
Landsþing LÍS 2018 krefst þess að bæta þurfi afgreiðslu umsókna námsmanna á háskólastigi um dvalarleyfi hér á landi. Mörg dæmi eru til um misræmi á milli upplýsinga sem Háskóli Íslands veitir annars vegar og Útlendingastofnun hins vegar sem hefur áhrif á umsóknir námsmanna um dvalarleyfi. LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta telja jafnframt að háskólastofnanir eigi að standa vörð um réttindi nemenda sinna. (Úr ályktun)
Báðar ályktanirnar hlutu einróma samþykki um stuðning og verður því eitt af hlutverkum LÍS á komandi starfsári að koma þessum málum betur á framfæri í samráði við aðildarfélög.
Heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra
Lilja Alfreðsdóttir svara fyrirspurnum þingfulltrúa.
Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, kom einnig og heimsótti þingið á sunnudeginum. Hélt Lilja erindi þar sem hún sagði frá þeim störfum sem hafa átt sér stað innan Mennta- og menningarmálaráðuneytis frá því hún tók við embætti. Talaði hún einnig um niðurstöður Eurostudent könnunarinnar, sem er yfirgripsmikil könnun um hagi stúdenta í 28 Evrópulöndum. Niðurstöður könnunarinnar komu út fyrr í mánuðinum en taka LÍS þátt í úrvinnslu hennar ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneyti þessa dagana. Lagði hún ríka áherslu á samvinnu við stúdenta í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Tók Lilja einnig við spurningum þinggesta, þar sem hún var innt eftir svörum um ýmsa hluti, þar á meðal starfshóp um endurskoðun Lánasjóðsins, reglugerðir um starfsnám og drög að heildstæðri menntastefnu.
Framkvæmdarstjórn LÍS og þingfulltrúar aðildarfélaga.
Landsþing LÍS er veigamikill vettvangur fyrir fulltrúa íslenskra stúdenta, þar sem þeir fá tækifæri til þess að koma saman yfir heila helgi og ráða ráðum sínum. Á Landsþinginu er framkvæmdastjórn gefið færi á að sýna afrakstur starfsársins og eru fulltrúar sammála um að vel hefur tekist til. LÍS hlakka til komandi starfsárs og þeirra verkefna sem eru fyrir höndum og óska nýkjörnum embættisaðilum innilega til hamingju.
Allar ljósmyndir eru teknar af Reyni Þrastarsyni
Fyrsti dagur Landsþings LÍS árið 2018 – Stefna LÍS um gæði í íslensku háskólasamfélagi samþykkt
Þann 23. mars á Landsþinginu lagði framkvæmdastjórn LÍS fram stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi. David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnti stefnuna sem byggð er á vinnustofum Landsþings ársins 2017 þar sem yfirskriftin var Hvers virði er mín menntun – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna. Eftir miklar samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og ný stefna samþykkt einróma af fulltrúum háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskir stúdentar marka sameiginlega stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi.
Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS, var sett þann 23. mars 2018. Þetta er fimmta landsþing samtakanna og er dagskrá þess einkar metnaðarfull í ár. Landsþingið ber yfirskriftina Jafnrétti til náms – hvað er jafnt aðgengi að námi og hvernig tryggjum við það? Þingið fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna en þar koma saman fulltrúar frá öllum aðildarfélögum LÍS.
Þann 23. mars á Landsþinginu lagði framkvæmdastjórn LÍS fram stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi. David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnti stefnuna sem byggð er á vinnustofum Landsþings ársins 2017 þar sem yfirskriftin var Hvers virði er mín menntun – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna. Eftir miklar samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og ný stefna var samþykkt einróma af fulltrúum háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskir stúdentar marka sameiginlega stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi.
David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnir stefnuna.
Í stefnunni er snert á mörgum flötum en meðal annars að mennta- og menningarmálaráðuneyti marki heildstæða menntastefnu en sér í lagi stefnu fyrir háskólastigið. Þá þarf að afla upplýsinga um samsetningu þess breiða hóps stúdenta sem stunda nám við háskóla á Íslandi og erlendis. Safna þarf slíkum upplýsingum með sérstöku tilliti til félagslegrar víddar (e. Social Dimension) en á meðan stúdentar endurspegla ekki þverskurð þjóðarinnar hefur jafnt aðgengi að menntun ekki verið fyllilega tryggt.
Hlúa þarf að aðgengi að menntun og gæðum hennar með bættri fjármögnun ásamt þróaðri og bættum kennsluháttum. Þar að auki ber að gæta þess að aðgangsstýringar vegi ekki að jafnrétti til náms.
Háskólar landsins eiga að bjóða upp á nemendamiðað nám með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti og námsmat. Leggja skal ríka áherslu á virka þátttöku stúdenta, raunhæf verkefni og tengsl við atvinnulíf. Einnig þarf að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, efla sköpunarhæfni og hvetja til sjálfstæðra vinnubragða með siðferðisleg gildi að leiðarljósi.
Aukin fjármögnun háskólakerfisins er nauðsynleg til þess að mögulegt sé að auka gæði náms og er því skýr krafa LÍS að markmiðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé framfylgt en þar segir að fjárframlög til háskólastigsins skulu ná meðaltali OECD - ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025.
Innleiðing gæðastefnunnar marka tímamót í sögu samtakanna en stefnan styrkir sameinaða rödd stúdenta í hagsmunabaráttu sinni til muna. LÍS fagna þessum framúrskarandi áfanga og hlakka til að kynna stefnuna og beita sér fyrir því að henni verði fylgt eftir.
Nálgast má stefnuna hér.
Landsþing LÍS 2018 Jafnrétti til náms. Hvað er jafnrétti til náms og hvernig tryggjum við það?
Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Jafnrétti til náms“ í hinum víðasta skilningi. Snert verður á sem flestum flötum er varða jafnrétti til náms í háskólakerfinu a Íslandi, hvar stöndum við framarlega og hvar getum við gert betur. Á þinginnu er stefnt að því að leggja grunninn að jafnréttisstefnu LÍS sem síðan verður unnin í framhaldi af þinginu og sá efniviður sem hlýst þar nýttur sem undirstaðan.
Landsþing LÍS verður haldið nú um helgina 23. – 25. mars í Háskólanum á Bifröst og sáu aðildarfélögin NFHB, NLBHÍ, NLHÍ, SH og SÍNE um skipulagningu þetta árið.
Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Jafnrétti til náms“ í hinum víðasta skilningi. Snert verður á sem flestum flötum er varða jafnrétti til náms í háskólakerfinu a Íslandi, hvar stöndum við framarlega og hvar getum við gert betur. Á þinginnu er stefnt að því að leggja grunninn að jafnréttisstefnu LÍS sem síðan verður unnin í framhaldi af þinginu og sá efniviður sem hlýst þar nýttur sem undirstaðan. Jafnrétti til náms er eitthvað sem allir stúdentar eiga að láta sig varða því það er hagur okkar allra að allir þeir sem hafa metnað og elju til þess að sækja sér menntun hafi til þess tækifæri án hindrana.
Ásamt því að vinna að jafnréttisstefnu í vinnustofum, fá fyrirlestra frá sérfræðingum í jafnréttismálum innan háskólanna og almennra aðalfundastarfa þá verður einnig kynnt fyrir þinginu ný gæðastefna sem grunnurinn var lagður að á síðasta landsþingi. Hún verður borin upp fyrir þingið og gefst aðildarfélögum tækifæri til að ræða stefnuna og leggja fram breytingartillögur. Hún verður síðan borin upp til samþykktar sem opinber gæðastefna LÍS.
Mennta- og menningarmálaráðherra mun einnig ávarpa þingið, fjalla um jafnrétti til náms sem og stöðuna almennt í háskólamálum á Íslandi. Að erindi hennar loknu munu stúdentar í sal geta borið upp spurningar við ráðherra til að efla hið mikilvæga samtal sem þarf að eiga sér stað á milli stúdenta og ráðamanna.
Hér má finna handbók þingsins en þar má sjá lista yfir alla fyrirlesara þingsins, dagskrá og aðrar upplýsingar.
Mikil tilhlökkun ríkir innan framkvæmdastjórnar LÍS fyrir þinginu enda skapast jafnan fjörugar umræður um hin ýmsu mál, en þó með eitt megin markmið, að efla hagsmunabaráttu stúdenta á öllum sviðum!
Mikil samstaða, vinnusemi og gleði var á Landsþingi LÍS 2017 sem haldið var í Háskóla Akureyrar.
Fundur með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra
Við fórum á fund með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, síðastliðinn föstudag þar sem ræddar voru fyrirhugaðar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Eins og greint var frá fyrir viku samþykkti framkvæmdastjórn LÍS áherslur vegna breytinganna en fengum við tækifæri á fundinum til að fara ítarlega yfir þær.
Við fórum á fund með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, síðastliðinn föstudag þar sem ræddar voru fyrirhugaðar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Eins og greint var frá fyrir viku samþykkti framkvæmdastjórn LÍS áherslur vegna breytinganna en fengum við tækifæri á fundinum til að fara ítarlega yfir þær.
Á fundinum staðfesti ráðherra ósk stúdenta um sæti tveggja fulltrúa þeirra í starfshóp þann er kemur til með að endurskoða LÍN.
“Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri öflugu og metnaðarfullu hagsmunagæslu sem LÍS stendur fyrir. Ég hef lagt áherslu á að námsmenn verði með í ráðum þegar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna verða útfærðar. Fulltrúar námsmanna munu fá fulltrúa í verkefnahóp um endurskoðun á námslánakerfinu. Við ætlum að klára endurskoðunina á þessu kjörtímabili og bæta kjör námsmanna. Ég hlakka til að starfa með námsmannahreyfingunni á þeirri vegferð,”
Við þökkum fyrir góðan fund og hlökkum til samstarfsins.
Áherslur LÍS vegna breytinga á Lánasjóði íslenskra námsmanna
Í kvöld samþykkti framkvæmdastjórn LÍS áherslur vegna breytinga á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Þá er um að ræða ákveðin tímamót í sögu samtakanna en LÍS hafa aldrei ályktað um LÍN fyrr en nú.
Í kvöld samþykkti framkvæmdastjórn LÍS áherslur vegna breytinga á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Þá er um að ræða ákveðin tímamót í sögu samtakanna en LÍS hafa aldrei ályktað um LÍN fyrr en nú.
Þá eru þær ákall um breytingar meðal annars til þess fallandi að efla jöfnunarhlutverk sjóðsins með ríku samráði við stúdenta. LÍS krefjast þess að við fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnar á LÍN verði skipaðir að minnsta kosti tveir fulltrúar stúdenta. LÍN er til fyrir tilstilli stúdenta og því gríðarlega mikilvægt að rödd þeirra sé sterk við endurskoðun og almenna stjórnun sjóðsins. Stúdentar eru fjölbreyttur hópur einstaklinga sem ekki verður talað fyrir með einungis einum fulltrúa.
Áherslurnar eru hugsaðar til þess að ýta á eftir breytingum sem eru stúdentum í hag en einnig til að fulltrúar stúdenta í starfshóp, er falið verður að endurskoða lög um LÍN, hafi skýrar áherslur til að vinna eftir.
LÍS kalla eftir því að hópurinn taki til starfa sem fyrst enda brýnt að rétta hag stúdenta.
Við erum tilbúin. En ríkisstjórnin?
Áherslurnar í heild sinni má nálgast hér að neðan.