Umsögn LÍS vegna vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof,
Umsögn Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (afkomuöryggi, meðgönguorlof, vinnutímastytting foreldris).
Landssamtökum íslenskra stúdenta hefur borist til umsagnar frá Velferðarnefnd Alþingis frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í þessari umsögn verður snert á þeim atriðum er varða stúdenta.
16. grein frumvarps, breytingar á 38. grein laganna
LÍS fagna því að lögð er til hækkun á fæðingarstyrk námsmanna enda ljóst að núverandi upphæð dugar skammt til almennrar framfærslu. Samtökin hafa áður bent á að það skjóti skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.1 Samtökin fagna sömuleiðis þeirri viðbót sem merkt er c. í 16. grein frumvarpsins. Þar er þó er gerð athugasemd við skilyrði um fullt nám með vísan í þau sjónarmið sem eru rakin hér að neðan.
27. og 28. grein laga nr. 144/2020
Samtökin telja að mikilvægt sé að stíga skrefi lengra og hvetja þau til þess að sömuleiðis verði gerðar breytingar á 27. og 28. grein laga um fæðingar- og foreldraorlof er fjalla um skilyrði og undanþágur fyrir fæðingarstyrk námsmanna. Samkvæmt 27. grein laganna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrknum yfirhöfuð og skerðir ákvæðið aðgengi stúdenta að félagslegum réttindum. Setja má spurningarmerki við hvort slík krafa um námsframvindu sé í samræmi þau velferðarsjónarmið sem fæðingarorlofskerfið er byggt á. Hér skal ítrekað að lágmarksnámsframvinda mælir ekki ástundun í námi heldur það hvort stúdentar standist námskröfur námskeiða. Undanþágur fyrir skilyrði um fullt nám, sem fjallað er um í 28. grein laganna, eru of þröngar til þess að þær grípi alla þá sem á styrknum þurfa að halda. Sem dæmi má taka einstakling sem skráður er í 3 10 ECTS kúrsa (fullt nám) og fellur í einum þeirra. Sá hinn sami missir því allan rétt til fæðingarstyrks námsmanna og hlýtur þess í stað fæðingarstyrk fyrir einstakling utan vinnumarkaðar sem er töluvert lægri upphæð. Ákvæðið verður því að teljast ansi íþyngjandi og hafa bæði Landssamtök íslenskra
1 Ályktun á landsþingi LÍS 2023 um stöðu foreldra í námi
1
stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands bent á það2. Fyrirkomulagið er sömuleiðis líklegt til þess að auka kvíða og streitu í aðdraganda fæðingu barns.
Atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta er með því hæsta sem þekkist í samanburðarlöndum en í sjöundu könnun Eurostudent3 kemur fram að 71% íslenskra stúdenta vinna með námi, þar af 29% í yfir 20 tíma á viku. Auk þess kemur fram að 72% þeirra sem vinna fullyrða að án launaðrar vinnu hafi þau ekki efni á því að vera í námi. Í sömu könnun kemur fram að 25% stúdenta eiga í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Þegar litið er til þeirra sem vinna 20 tíma eða fleiri eiga rúmlega 50% í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Það er því ljóst að í núverandi kerfi hefur skortur á stuðningi við námsmenn áhrif á námsframvindu og þar með möguleika á því að hljóta fæðingarstyrk námsmanna.
13. grein frumvarps , breyting á 23. grein laganna
Það að tekjur undir 350.000 krónum séu óskertar er mikilvægt réttlætismál fyrir vinnandi stúdenta. Líkt og var rakið hér að ofan eru fjölmargir stúdentar í hlutastörfum með laun sem mega ekki við skerðingu. Kerfið þarf að taka tillit til raunverulegra aðstæðna stúdenta og í ljósi þess hversu hátt hlutfall stúdenta þurfa að vinna er ekki óeðlilegt að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess þegar stúdentar eru einnig í launaðri vinnu. Sem dæmi má nefna stúdent í 60% námi og 40% starfi og skal hér tekið fram að slíkur einstaklingur er ekki jaðartilvik. Viðkomandi er því samtals í 100% starfi ef náms- og starfshlutfallið er lagt saman. Viðkomandi myndi ekki fá fæðingarstyrk námsmanna en myndi í staðinn fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við 40% starfshlutfall en ljóst er að slíkar tekjur mega ekki við skerðingu. 13. grein frumvarpsins er því nauðsynleg fyrir vinnandi stúdenta. Hér skal þó tekið fram að einnig væri hægt að finna útfærslu þar sem fæðingarorlofsgreiðsla stúdenta er reiknuð út frá samanlögðu náms- og starfshlutfalli en það yrði efni í annað ákvæði.
Síðasta ljósmóðirin á Íslandi…
Grein eftir forseta LÍS sem birtist á vísir.is 7. oktbóer
…er í Smáralind. Þar standa Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) fyrir sýningunni Mennt var máttur um helgina.
Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland gæti stefnt ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna.
Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar námsgreinar í háskólum verið í útrýmingarhættu. Á sýningunni er stigið inn í þá framtíð sem blasir við ef ekkert verður gert. Stuðningur við stúdenta er ekki einkamál stúdenta enda hefur það hvernig okkur tekst til að mennta stúdenta nútímans bein áhrif á það hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar verður samansettur. Ísland er auðugt land með óvenju lágt menntunarstig en töluvert færri hafa lokið háskólamenntun á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.
Sjá nánar hér.
Hefur tilgangur námslánakerfisins gleymst?
Við þekkjum öll hina rómantísku ímynd af hinum fátæka stúdent sem þarf einfaldlega að harka á meðan námi stendur og svo þegar viðkomandi er kominn út á vinnumarkað getur sá hinn sami farið að lifa lífinu. Raunveruleiki íslenskra námsmanna er þó þvert á móti rómantískur enda ekkert rómantískt við það á Íslandi hafa 3% námsmanna þurft að neita sér matar yfir heilan dag vegna fjárskorts. Það er heldur ekkert rómantískt við þá staðreynd að Ísland á Evrópumet í fjölda stúdenta sem fullyrða að án launaðrar vinnu hefðu þau ekki efni á því að vera í námi.
Það virðist vera sem svo að það þurfi að vekja íslensk stjórnvöld og minna þau á tilgang námslánakerfisins. Námslánakerfið er jöfnunartól sem á að tryggja að hver og einn sem það kýs geti aflað sér menntunar óháð stöðu sinni eða fjárhagslegu baklandi.
Námslánakerfið er einnig fjárfestingartól. Það er verkfæri íslenskra stjórnvalda til þess að fjárfesta í mannauð sínum og menntun þjóðarinnar. Slík fjárfesting í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs ætti að vera sniðin að þörfum lántaka svo sem flestir eigi þess kost að sækja sér menntun við hæfi.
Fjárfesting í námi felur nefnilega í sér ábata fyrir samfélagið allt. Eins og sakir standa er eins og það hafi gleymst. Fjárframlög ríkisins til sjóðsins endurspegla í það minnsta ekki þessa staðreynd.
Nú þegar lántökum hjá Menntasjóði námsmanna fer sífækkandi þurfa stjórnvöld að staldra við og velta fyrir sér hvernig framtíð bíður okkar án stuðnings við námsmenn.
Síðasta ljósmóðirin er að sjálfsögðu ekki í alvörunni í Smáralind. Eða hvað? Ef fram fer sem horfir og stjórnvöld grípa ekki í taumana og fara að fjárfesta almennilega í menntun gæti sú framtíð verið nær okkur en við höldum.
Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS).
Mennt var máttur er sýning í Smáralind sem stendur yfir föstudaginn 6. október til sunnudagsins 8. október. LÍS og BHM hvetja almenning til þess að mæta og berja mögulega framtíð Íslands augum. Hægt er að lesa sér frekar til um sýninguna hér.
Mennt var máttur
Sýningin Mennt var máttur opnaði fyrir boðgestum í Safnahúsinu í gær. Sýningin er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna og framtíð menntunar á Íslandi.
Sýningin verður í kjölfarið opin almenningi í Smáralind dagana 6.-8. október. Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) standa fyrir sýningunni en henni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna, sem er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu, og framtíð menntunar á Íslandi.
Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland stefnir ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna. Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar greinar í háskólum verið í útrýmingarhættu og á sýningunni má segja að stigið sé inn í
þá framtíð. Samkvæmt tölum frá Menntasjóði námsmanna hefur orðið umtalsverð fækkun á þeim sem sækja um námslán á Íslandi, auk þess hafa töluvert færri ungmenni á Íslandi aflað sér háskólamenntunar samanborið við nágrannalöndin. Árin 2009 voru tæplega 12.400 háskólanemar á námslánum en 10 árum síðar voru þeir aðeins um 5.000 talsins. Ísland er einnig í efstu þrepum á evrópskum skala þegar kemur að fjölda námsmanna sem telja sig þurfa að vinna á meðan þeir stunda nám sitt. Auk þess eru 14% námsmanna sem kljást við fæðuóöryggi og 3% námsmanna hafa þurft að neita sér um mat vegna skorts á peningum.
Það var margt um manninn á sýningaropnuninni en hér að neðan má sjá nokkrar myndir.
Fulltrúaráðsfundur 2. okt
Mánudaginn 2. október kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.
Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn á 4. hæði í Borgartúni 6 (sal BHM). Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.
Fréttabréf LÍS 2023 tbl. 2
Nýr jafnréttisfulltrúi og framkvæmdastjóri ráðinn, yfirlýsing vegna umræðna um sameiningu háskóla, þátttaka stúdenta í Gleðigöngunni, gæðaráðsmál og fleira í örðu tölublaði fréttabréfs LÍS.
Við stefnum á að senda fréttabréfin út mánaðarlega að minnsta kosti að áramótum. Markmiðið með fréttabréfunum er að vekja athygli á starfsemi samtakanna og auka upplýsingaflæði til og milli aðildarfélaganna.
Þér er velkomið að senda á varaforseti@studentar.is ef þú ert með athugasemdir eða hefur efni í huga til að birta í næsta tölublaði!