Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Stúdentar á árlegri ráðstefnu Gæðamats háskóla

Árleg ráðstefna Gæðamats háskóla (IAQA) fór fram 17. september í Listaháskóla Íslands. Þar var meðal annars haldið pallborð þar sem stúdentar ræddu reynslu sína og áskoranir í háskólanámi. Gaga Gvenetadze, stjórnarmaður í Gæðamati háskólanna, leiddi pallborðið.

Íris Björk Ágústsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, lagði áherslu á andlega heilsu stúdenta, kulnun og mikilvægi þess að háskólar veiti stuðning til nemenda sem glíma við ýmsar áskoranir.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir, fyrrverandi forseti SÍNE, benti á réttindaleysi stúdenta til fæðingarorlofs og ósveigjanleiki í kerfinu gagnvart foreldrum í námi.

Silja Rún Friðriksdóttir, fyrrverandi forseti SHA, ræddi um mikilvægi sveigjanleika í námi svo að stúdentar geti skipulagt sig sem best með vinnu og félagslíf. Auk þess lagði hún áherslu á opið og traust samtal milli stúdenta og háskóla.

Anamarija Veic, formaður FEDON, fjallaði um stöðu alþjóðlegra stúdenta og mikilvægi þess að styrkja fræðslu til leiðbeinenda doktorsnema, þar sem velferð doktorsnema er ekki síður mikilvægur en fjármögnun rannsókna.

Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, undirstrikaði að háskólanám ætti að vera eins sveigjanlegt og einstaklingsmiðað og kostur er, til að tryggja sem best rétt stúdenta að stunda nám.

Ráðstefnan var vettvangur fyrir mikilvæga umræðu um hvernig háskólar geta betur mætt þörfum fjölbreytts hóps stúdenta og tryggt að rödd þeirra heyrist.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

LÍS, Q-félagið og ERGI lýsa yfir samstöðu með hinsegin stúdentum

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), Q–félag hinsegin stúdenta og ERGI – Félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi hafa sameinast um stuðningsyfirlýsingu við hinsegin stúdenta. Í yfirlýsingunni fordæma samtökin orðræðu og aðgerðir sem grafa undan tilvist, sjálfsvirðingu og öryggi trans og kynsegin fólks á Íslandi.

Að sögn samtakanna hefur hinsegin fólk á Íslandi, og þá sérstaklega trans og kynsegin einstaklingar, orðið vitni að aukinni andstöðu í samfélagsumræðu á undanförnum misserum. Þessi þróun birtist meðal annars í ummælum stjórnmálafólks, neikvæðri og takmarkaðri fjölmiðlaumfjöllun og auknum árásum á rétt trans og kynsegin fólks til að vera sýnilegt og njóta öruggs aðgengis að almannarýmum og þjónustu.

„Slíkt á ekki heima í samfélagi sem kennir sig við mannréttindi, jafnrétti og velferð allra,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin skora á háskóla, menntastofnanir og samfélagið allt að fordæma hatursorðræðu og fordóma, tryggja öruggt og aðgengilegt námsumhverfi fyrir öll, styðja við fræðslu og rannsóknir sem efla sýnileika og öryggi hinsegin stúdenta, og sýna skýra samstöðu með þeim sem standa veikt fyrir í opinberri umræðu.

„Fjölbreytileiki er styrkur hverrar þjóðar og það er hlutverk stúdenta og fræðafólks nú sem áður að standa vörð um upplýst og opið samfélag,“ segir í lok yfirlýsingarinnar sem undirrituð er af Lísu Margréti Gunnarsdóttur, forseta LÍS.

Lesa má stuðningsyfirlýsinguna í heild hér: STUÐNINGSYFIRLÝSING 15. SEPT. 2025

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Árleg ráðstefna Gæðamats háskóla 2025 // IAQA annual conference 2025

Gæðamat háskóla boðar til árlegrar ráðstefnu miðvikudaginn 17. september kl. 9–16 í Listaháskóla Íslands.
Yfirskriftin í ár er „Student centered Quality Assurance – Supporting the needs of all students“.

📑 Dagskrá og skráning: https://iaqa.is/events/annual-conference-2025

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Júlíus Andri Þórðarson ráðinn framkvæmdastjóri LÍS

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa ráðið Júlíus Andra Þórðarson í starf

framkvæmdastjóra samtakanna. Hann hefur þegar hafið störf og mun gegna embættinu

til 1. júní 2026.

Júlíus Andri er útskrifaður með BA-gráðu í miðlun og almannatengslum frá Háskólanum

á Bifröst. Hann hefur á síðustu árum aflað sér víðtækrar reynslu af hagsmunabaráttu,

stefnumótun og félagsstörfum, meðal annars sem varaforseti og hagsmunafulltrúi

Nemendafélags Háskólans á Bifröst. Þá hefur hann einnig setið í háskólaráði og

jafnréttisnefnd háskólans.

„Það er heiður að fá að starfa með LÍS á tímum þar sem raddir stúdenta skipta sköpum,“

segir Júlíus Andri. „Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að styrkja hagsmunabaráttu

stúdenta og efla sýnileika hennar, sem of oft hefur fengið takmarkaða athygli.“

Júlíus Andri hefur jafnframt reynslu af stjórnmálastarfi, kosningabaráttum og

almannatengslum.

Samkvæmt forseta LÍS er ráðning hans mikilvæg styrking fyrir

samtökin. „Við erum sannfærð um að fjölbreytt reynsla Júlíusar og þekking hans á bæði

hagsmunagæslu og miðlun muni efla starfsemi LÍS á næsta starfsári,“ segir Lísa Margrét

Gunnarsdóttir sem var endurkjörin forseti LÍS á landsþingi samtakanna s.l. vor.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Borgar sig að vanmeta menntun?

BHM boðar til málþings þriðjudaginn 9. september kl. 15:00–17:00 í Grósku. Húsið opnar 14:30, boðið verður upp á léttar veitingar. Tilefnið er útgáfa nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um virði háskólamenntunar.

Arðsemi háskólamenntunar á Íslandi er nú með því lægsta sem gerist í OECD-ríkjunum og hefur aldrei verið minni. Hlutfall ungs fólks með háskólapróf er undir meðaltali OECD og undir markmiðum Evrópusambandsins. Í samanburðarlöndunum er fjöldi útskrifaðra úr háskólum stöðugur og arðsemi háskólamenntunar er líka stöðug.

Ísland þarf háskólamenntað fólk til að uppfylla væntingar um þróað þekkingarsamfélag, byggja upp öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi og skapa ný verðmæti. Því er brýnt að eiga samtal um virði háskólamenntunar og þá stefnu sem líkleg er til að skila sem bestum árangri til framtíðar.

Málþinginu verður streymt.

📍 Dagskrá málþingsins:

Setning málþings
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM

Kynning á skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ
Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og einn af höfundum skýrslunnar

Virði háskólamenntunar – sjónarhorn BHM
Sigrún Brynjarsdóttir, hagfræðingur BHM

Háskólasamfélagið og virði menntunar
Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands

Menntun og atvinnulíf
María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar

Fundarstjórn
Katrín Jakobsdóttir, fv. ráðherra

Pallborðsumræður, þátttakendur:
• Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra
• Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka atvinnulífsins
• Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech og stjórnarmaður í HR
• Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM

Við hvetjum félagsfólk, háskólasamfélagið og aðra áhugasama til að mæta og taka þátt í þessu mikilvæga samtali um framtíð háskólamenntunar á Íslandi.

Read More