Rödd stúdenta til umbóta í háskólastarfi - Vinnustofa á vegum ráðgjafarnefndar gæðaráðs
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) tóku þátt í rafrænni vinnustofu á vegum Ráðgjafarnefndar Gæðaráðs miðvikudaginn 10. nóvember 2021. Þátttakendur vinnustofunnar voru gæðateymi, deildarforsetar, kennslunefndir, kennslustjórar (sviða/deilda), kennsluþróarar, stúdentar og aðrir hagsmunaaðilar og áhugasöm um kennsluþróun. Frá LÍS mættu Derek T. Allen forseti, Kolbrún Lára Kjartansdóttir, varaforseti og Björgvin Ægir Elisson, gæðastjóri samtakanna.
Fundarstjóri var Guðmunda Smáradóttir, gæða- og mannauðsstjóri, Landbúnaðarháskóla Íslands
Löng hefð er fyrir því innan háskólasamfélagsins að leita eftir viðhorfum stúdenta til náms og kennslu með kennslukönnunum, ýmist í lok misseris eða með miðmisseriskönnunum. Markmiðið með vinnustofunni var að ræða hvernig megi styrkja rödd stúdenta til umbóta í námi og kennslu með áherslu á hvernig megi bæta ábyrga þátttöku og virkni nemenda sem og endurgjöf frá starfsfólki til stúdenta um hvernig þeirra rödd raunverulega nýtist til úrbóta (e. feedback on feedback). Með umræðum sem fóru fram á vinnustofunum gafst þátttakendum tækifæri til þess að læra hvert af öðru og deila því sem vel er gert (e. best practices).
Byrjað var á stuttum erindum:
Nýjar leiðir til þess að virkja stúdenta til rýni og umbóta – Vaka Óttarsdóttir, gæða og mannauðsstjóri og Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, stúdent og forseti SHA, Háskólanum á Akureyri.
Reynsla við innleiðingu kennslukannanakerfis við Háskólann í Reykjavík – Rebekka Helga Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri, Háskólanum í Reykjavík
Kostir og gallar kennslukannana: hvernig getum við gert betur? – Ása Björk Stefánsdóttir, forstöðukona kennslusviðs Háskólans í Reykjavík og Selma Rún Friðbjörnsdóttir, stúdent og varaforseti SFHR
Eftirfylgni við kannanir meðal stúdenta – Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs HÍ
Ánægjukannanir: hvernig hafa þær nýst til umbóta og getum við gert betur? – Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Félagsvísindastofnun
Eftir erindin voru umræður og tækifæri fyrir spurningar en í öllum erindunum var lögð áhersla á endurgjöf á endurgjöf, þ.e. að kennarar ræði við stúdenta um endurjgöfina. Í umræðunum var rætt um leiðir til að virkja kennara í að virkja stúdenta. LÍS vill sérstaklega vekja athygli á erindum 1. og 3. þar sem leitað var leiða til að gera stúdenta að raunverulegum þátttakendum í ferlinu til umbóta.
Næst var þátttakendum vinnustofunnar skipt í umræðuhópa á vegum LÍS. Spurt var:
Hvaða tæki eru best til þess að koma skoðunum stúdenta um námið á framfæri?
Hvernig er best að bregðast við endurgjöf stúdenta á námið?
Að lokum sagði hver umræðustjóri stutta samantekt af umræðum hjá sínum hóp en það sem var sameiginlegt var að þátttakendur töldu nauðsynlegt að nota blandaðar aðferðir til að fá víðari sýn á kennslumat og að kynna tilgang kennslukannana fyrir stúdentum. Að lokum var lögð mikil áhersla á þátttöku stúdenta, leiðir fyrir kennara til að virkja stúdenta og að stúdentar ræði við aðra stúdenta um gæðamál en við í LÍS tökum hjartanlega undir þau orð og minnum á stefnu samtakanna um gæði í íslensku háskólasamfélagi sem má lesa hér. Stefnan er skrifuð af stúdentum fyrir stúdenta.
LÍS þakka ráðgjafanefnd gæðaráðs kærlega fyrir að hvetja til samtals um mikilvægi raddir stúdenta til umbóta í háskólastarfi en við munum svo sannarlega halda því áfram.