
10 ára afmælisár LÍS!
Þann 3. nóvember 2023 mun LÍS fagna 10 ára afmæli samtakanna og því verður árið í ár sannkallað afmælisár. Þetta eru stór tímamót fyrir ungt félag en við erum stolt af því að hafa gegnt hlutverki okkar sem sameiginlegt hagsmunaafl stúdenta í næstum því áratug. Við munum halda upp á áfanginn með ýmsum hætti út árið en fögnuðurinn mun ná hámarki á afmælisdaginn sjálfan. Takk fyrir samstarfið í gegnum árin og mega þau verða miklu fleiri!
Í tilefni af afmælilnu sviptum við því hulinni af afmælislógói LÍS.
Málstofa á vegum Student Refugees Iceland og Spretts á jafnréttisdögum HÍ 2023
Verkefnin Student Refugees Iceland og Sprettur héldu saman málstofu á jafnréttisdögum HÍ. Málstofan bar nafnið Computer Says No: Experiences and Narratives of University Students with a Foreign Background og fjallaði um reynslu og upplifun erlendra nema af námi á Íslandi. Umræðuefnin voru þær áskoranir sem viðmælendur hafa upplifað á skólagöngu sinni. Eins voru ræddar lausnir varðandi inngildandi kennsluhætti og viðmót bæði kennara og samnemenda. Lykilhugtök sem lögð voru til grundvallar á þessum viðburði varða inngildingu, menningarnæmi og öráreiti sem nemendur með erlendan bakgrunn upplifa í námi sínu.
Málstofan hófst á kynningu á bæði SRI og Sprett. SRI er verkefni sem leitt er af Sigríði Helgu Kárdal Ásgeirsdóttur, alþjóðafulltrúa LÍS og sér SRI um að aðstoða flóttafólk að sækja nám hér á landi. Sprettur er verkefni á vegum HÍ sem styður og undirbýr nemendur með innflytjendabakgrunn til háskólanáms. Markmið Spretts er að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar. Sabrina frá Sprett kynnti verkefnið og samstarf milli Spretts og SRI. Á málstofunni var rætt við Marcello Milanezi (hann), Juan José Colorado Valencia (hann) og Karolina Monika Figlarska (hún) ræddu þau reynslu sína og upplifun af námi á Íslandi.
Málstofan var haldin á Litla torgi í HÍ og var einnig streymt á facebook. Þátttaka og mæting var góð og þakkar SRI kærlega fyrir sig.
Kynningarfundur á kröfum stúdenta
Landssamtök íslenskra stúdenta buðu til kynningarfundur á kröfum stúdenta vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Kröfur LÍS voru unnar í þéttu og góðu samráði og samvinnu aðildarfélaga LÍS en starfshópur LÍS um menntasjóðsmál héldu utan um vinnuna.
Alexandra Ýr van Erven (forseti LÍS), Jóna Þórey Pétursdóttir (lánasjóðsfulltrúi SÍNE) og María Sól Antonsdóttir (lánasjóðsfulltrúi SHÍ) kynnty kröfur stúdenta og svöruðu spurningum að því loknu. Fundurinn var haldinn fimmtudaginn 2. Febrúar á Litla Torgi í Háskóla Íslands.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 skal fara fram endurskoðun á lögunum innan þriggja ára frá því þau komu til framkvæmda og niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar eigi síðar en á haustþingi 2023. Í ljósi þess að ekki er kveðið á um reglulega endurskoðun þessara laga er ljóst að endurskoðun þessi veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi.
Í bráðabirgðaákvæði þessu er ekki kveðið nánar á um hvernig endurskoðunin skuli fara fram. Er það vilji stúdenta að þetta tækifæri verði nýtt til hins ítrasta og að kerfið í heild sinni verði tekið til ítarlegrar skoðunar og í kjölfarið verði lagt fram nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna á haustþingi 2023.
Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt.
Háskólanemar og önnur áhugasöm um námslánakerfið mættu á fundinn.
Fulltrúaráðsfundur 24. janúar
Þriðjudaginn 24. janúar kl 17:00 verður haldinn fundur hjá fulltrúaráði LÍS.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Haskólanum í Reykjavík í stofu V 102. Er það nýjung í starfsemi LÍS að halda fulltrúaráðsfundi í skólum aðildarfélaganna en er það gert til þess að styrkja sambönd þeirra félaga sem mynda LÍS.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (17:00-17:05)
Kynng frá Tór Marni Wihe á European Students Union (ESU). Tór er fulltrúi í framkvæmdastjórn ESU og fyrrverandi formaður MFS, systursamtaka LÍS í Færeyjum (17:05 - 17:20).
Fréttir frá aðildarfélögum (17:20-17:35)
Tilnefning LÍS í ráðgjafarnefnd á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytis vegna innleiðingar og eftirfylgni aðgerða til að auka nýliðun kennara. (17:35-17:40)
Herferð LÍS (17:35-17:55)
Fjármálaáætlun (17:55-18:15)
Landsþing LÍS (18:15-18:25)
Stytting framhaldsskóla (18:25-18:45)
Önnur mál (18:45-19:00).
Háskólamenntun í hættu
Aðsókn ungs fólks í háskólanám er mun minni á Íslandi en í löndum sem við berum okkur saman við. Í nýútgefinni skýrslu um virði menntunar kemur fram að 38% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð.
Samanburðurinn kallar á stórsókn í menntamálum og verða stjórnvöld að taka á málefnum háskólanna af festu. Ástæður fyrir lágri aðsókn ungmenna á Íslandi að háskólanámi á sér eflaust fleiri en eina rót en ein sú stærsta er tvímælalaust Menntasjóður námsmanna.
Menntasjóður námsmanna er verkfæri ætlað til þess að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Hlutverk sjóðsins er í raun einfalt þ.e. að veita nemum fjárhagslega aðstoð til að standa straum af skólagjöldum og almennum framfærslukostnaði en allir sem hafa tekið námslán síðustu ár vita þó að kerfið þarfnast verulegra úrbóta til þess að geta þjónað hlutverki sínu sem skyldi.
Ef við lítum á tölurnar sjáum við að fjöldi lántaka hjá menntasjóðnum hefur hríðfallið síðastliðinn áratug þ.e. að covid árunum undanskildum. Skólaárið 2009-2010 tóku 12.393 nemar námslán en tíu árum síðar voru þeir orðnir 4.979. Það er ekki hægt að sjá þessar tölur og draga aðra ályktun en þá að eitthvað er að klikka.
Stúdentar hafa bent á vankanta í mörg ár, framfærslulánin duga ekki fyrir útgjöldum hvers mánaðar og tæpur helmingur stúdenta eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Ljóst er að lág framfærsla skerðir aðgengi að menntun og er ein helsta ástæða þess að íslenskir stúdentar vinna mikið með námi. Samkvæmt Eurostudent VII vinna 71% háskólanema á Íslandi með námi og er hlutfallið með því hæsta af þeim þjóðum sem taka þátt í könnuninni. Í sömu könnun kemur fram að 72% þeirra nema sem vinna með námi fullyrða að án vinnunnar gætu þau ekki verið í námi. Niðurstöður könnunarinnar eru áfellisdómur yfir námslánakerfinu og dregur fram þann vanda sem ófullnægjandi framfærsla skapar.
Þar að auki býr fyrirkomulag frítekjumarksins til vítahring þar sem stúdentar neyðast til að vinna til geta framfleytt sér en við það skerðist námslánið svo þeir þurfa að vinna enn meira. Þannig er kerfið samtímis að ýta undir atvinnuþátttöku og refsa fyrir hana. Þá er ónefnt álagið sem fylgir því að vinna með námi en álagið leiðir í mörgum tilfellum til þess að stúdentar eru lengur með námið og í einhverjum tilfellum flosna upp úr því. Það að námsmenn taki ekki námslán bitnar beinlínis á námsframvindu og aðgengi að menntun og það er raunveruleikinn.
Þetta hafa stúdentar mælt fyrir daufum eyrum í mörg ár. En nú er ljóst að gallar námslánakerfisins bitna ekki einungis á háskólanemum heldur á menntunarstigi þjóðarinnar og það er kominn tími til að stjórnvöld hlusti. Íslenska menntakerfið á betra skilið en fjársvelta háskóla og stúdenta sem hafa varla tíma í lærdóm því þau þurfa að vinna svo mikið
Alexandra Ýr van Erven
Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta.
Grein birt á visir.is 17. janúar 2023.