Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Mennt var máttur

Sýningin Mennt var máttur opnaði fyrir boðgestum í Safnahúsinu í gær. Sýningin er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna og framtíð menntunar á Íslandi.


Sýningin verður í kjölfarið opin almenningi í Smáralind dagana 6.-8. október. Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) standa fyrir sýningunni en henni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna, sem er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu, og framtíð menntunar á Íslandi.


Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland stefnir ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna. Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar greinar í háskólum verið í útrýmingarhættu og á sýningunni má segja að stigið sé inn í

þá framtíð. Samkvæmt tölum frá Menntasjóði námsmanna hefur orðið umtalsverð fækkun á þeim sem sækja um námslán á Íslandi, auk þess hafa töluvert færri ungmenni á Íslandi aflað sér háskólamenntunar samanborið við nágrannalöndin. Árin 2009 voru tæplega 12.400 háskólanemar á námslánum en 10 árum síðar voru þeir aðeins um 5.000 talsins. Ísland er einnig í efstu þrepum á evrópskum skala þegar kemur að fjölda námsmanna sem telja sig þurfa að vinna á meðan þeir stunda nám sitt. Auk þess eru 14% námsmanna sem kljást við fæðuóöryggi og 3% námsmanna hafa þurft að neita sér um mat vegna skorts á peningum.

Það var margt um manninn á sýningaropnuninni en hér að neðan má sjá nokkrar myndir.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Fulltrúaráðsfundur 2. okt

Mánudaginn 2. október kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.

Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.

Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn á 4. hæði í Borgartúni 6 (sal BHM). Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar

2. Menntasjóður námsmanna, kynning og umræður.

3. Reiknilíkan háskólanna, kynning og umræður.

4. Ívilnanir námslána fyrir nema ákveðinna námsgreina.

5. Samráðsfundir ráðherra 

6. Önnur mál

Read More
Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta

Fréttabréf LÍS 2023 tbl. 2

Nýr jafnréttisfulltrúi og framkvæmdastjóri ráðinn, yfirlýsing vegna umræðna um sameiningu háskóla, þátttaka stúdenta í Gleðigöngunni, gæðaráðsmál og fleira í örðu tölublaði fréttabréfs LÍS.

Við stefnum á að senda fréttabréfin út mánaðarlega að minnsta kosti að áramótum. Markmiðið með fréttabréfunum er að vekja athygli á starfsemi samtakanna og auka upplýsingaflæði til og milli aðildarfélaganna.

Þér er velkomið að senda á varaforseti@studentar.is ef þú ert með athugasemdir eða hefur efni í huga til að birta í næsta tölublaði!

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Á fulltrúaráðsfundi LÍS var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt um sameiningu háskóla:

Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Í ljósi viljayfirlýsingar um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem og óformlegra viðræðna um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst senda Landssamtök íslenskra stúdenta frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Samtökin telja brýnt að ítreka fyrir stjórnvöldum að í allri umræðu um samstarf og sameiningu háskóla þarf að tryggja fullt samráð við stúdenta. Enn fremur þarf að tryggja að allt samstarf sé gert með hag nemenda að leiðarljósi. 

Landssamtök íslenskra stúdenta telja að markmið með auknu samstarfi eða mögulegri sameiningu þurfi að vera skýr. LÍS telja stjórnvöld þurfa að sýna fram á með óyggjandi hætti að markmið sameiningar sé að auka gæði náms, tryggja aðgengi stúdenta að stoðþjónustu og bæta aðgengi að námi. 

Það er ekki launungarmál að hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur verið fjársveltur um langt skeið og  er Ísland eftirbátur samanburðarþjóða sinna þegar kemur að fjárfestingu í háskólamenntun. Langvarandi fjársvelti háskólanna er afleiðing af stefnu stjórnvalda í menntamálum og vísa samtökin því á bug að sameining háskóla sé fýsileg lausn á hinum heimatilbúna vanda sem fjársveltið er. Hagræðing í ríkisrekstri má ekki vera forsenda fyrir jafn afdrifaríkum aðgerðum og þessar yrðu, taka þarf á menntamálum af meiri festu en svo.

Að lokum skýtur það skökku við að ekki hefur verið gerð greining á þeim kostum og göllum sem hljótast af því að hafa starfandi 7 háskóla á landinu. Slík greining hefði átt að fara fram áður en hvatt var til sameiningar og niðurstöður hennar ættu að liggja til grundvallar öllum viðræðum um mögulegar sameiningar. Hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur sína sérstöðu og ekki má vanmeta þá kosti sem það leiðir af sér. Þar má helst nefna fjölbreytni í námi og hvernig dregið hefur verið úr einsleitni í háskólakerfinu með stofnun nýrra háskóla. 

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Taktu þátt! Opið fyrir umsóknir í nefndir LÍS

Hefur þú áhuga á félagsstörfum? Brennur þú kannski fyrir hagsmunabaráttu stúdenta? Langar þig til að hafa áhrif? Viltu starfa með stúdentum frá öllum háskólum landsins? 

Landssamtök íslenskra stúdenta auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum í nefndir samtakanna en þær eru gæðanefnd, lagabreytinganefnd, fjármálanefnd, alþjóðanefnd, markaðsnefnd og jafnréttisnefnd. 

HVAÐ ERU LÍS?

Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.

Lesa má meira um samtökin hér

HVERNIG SÆKI ÉG UM? 

Opið er fyrir umsóknir frá 4. september til og með 24. september. Í umsókn skal koma fram: Hvaða nefnd þú sækir um í, nafn, menntun, reynsla af félagsstörfum og/eða önnur reynsla sem gæti nýst og stutt lýsing á ástæðu umsóknar. Við hvetjum einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um þær lausu stöður sem í boði eru. Umsóknir berast á varaforseti@studentar.is 


Nánar um hverja nefnd:

GÆÐANEFND

Brennur þú fyrir eflingu íslensks háskólaumhverfis? Þá er gæðanefndin fyrir þig. Nefndin starfar náið með fjölbreyttum einstaklingum og stofnunum á landsvísu sem vinna að eflingu gæða háskólanáms svo sem Rannís og Gæðaráði íslenskra háskóla. Skemmtileg verkefni eru á döfinni starfsárið sem öll hafa það að markmiði að auka þekkingu á gæðamálum meðal íslenskra stúdenta sem og að efla þátttöku þeirra í gæðastarfi háskólanna. Um er að ræða einstakt tækifæri til að efla gæði háskólanáms á Íslandi. Við óskum eftir þremur metnaðarfullum og vinnusömum einstaklingum í nefndina.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Lilju Margréti Óskarsdóttur gæðastjóra LÍS. Netfang: lilja@studentar.is 

FJÁRMÁLANEFND

Fjármálanefnd sér um utanumhald fjármála LÍS auk fjáröflunar samtakanna og helstu viðburða. Það vinnur náið með Markaðsnefndinni við skipulagningu og framkvæmd viðburða sambandsins. Nefndin sér um að byggja upp og viðhalda samstarfi LÍS og fyrirtækja með þjónustusamningum eða styrkjum auk þess að vinna að styrkumsóknum innan stærri stofnana. Fyrir utan að öðlast færni í styrkumsóknum er það líka frábært tækifæri til að hitta annað fólk og vinna saman sem teymi. Leitað er að þremur áhugasömum aðilum til að sitja í fjármálanefnd auk framkvæmdastjóra.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Egill Hermannsson, Framkvæmdastjóra LÍS. Netfang: egill@studentar.is 

ALÞJÓÐANEFND

Alþjóðanefnd LÍS sinnir alþjóðlegum skuldbindingum LÍS, sækir fróðleik til alþjóðlegra stúdenta og færir þann fróðleik heim til Íslands. Nefndin sinnir undirbúningsvinnu og úrvinnslu í kringum alþjóðlega viðburði sem fulltrúar LÍS sækja, þá einna helst á vegum Evrópusamtaka stúdenta (ESU), ásamt því að endurskoða alþjóðastefnu LÍS. Með þátttöku í nefndinni munu meðlimir fá innsýn inn í starf LÍS og ekki síður inn í störf alþjóðlegra stúdentahreyfinga en nefndin sér um að kynna sér og vekja athygli á tækifærum til þátttöku stúdenta í alþjóðlegu stúdentasamstarfi. Nefndin mun í sameiningu móta starf vetrarins undir handleiðslu alþjóðafulltrúa. Laus sæti í nefndinni eru fjögur og leitumst við eftir fjölbreyttum hópi af áhugasömu fólki. Hvers kyns reynsla eða þekking á alþjóðlegri umhverfi er kostur en alls ekki krafa, einungis brennandi áhugi á því að læra nýja hluti!

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Emil Trausta Smyrilsson, alþjóðafulltrúa LÍS. Netfang: emil@studentar.is 

MARKAÐSNEFND

Markaðsnefndin miðar að því að efla sýnileika samtakanna innan íslensks samfélags og sérstaklega háskólasamfélagsins. Nefndin heldur utan um vefsíðu samtakanna, samfélagsmiðla og hlaðvarpi, í samvinnu við önnur embætti og nefndir varðandi innihald. Nefndin skipuleggur og framkvæmir tvær markaðsherferðir á hverju ári til þess að vekja athygli á réttindabaráttu stúdenta og er einnig ábyrg fyrir skipulagningu viðburða samtakanna ásamt fjármálanefnd. Reynsla og/eða þekking á grafískri hönnun, ritun og/eða samfélagsmiðlum er kostur. Laus sæti í nefndinni eru þrjú.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Egil Hermansson, framkvæmdastjóra LÍS. Netfang: egill@studentar.is 

JAFNRÉTTISNEFND

Jafnréttisnefnd heldur utan um verkefni og viðburði LÍS sem tengjast jafnréttismálum. Nefndin ber ábyrgð á því að jafnrétti sé framfylgt í öllum málum og skal vera framkvæmdarstjórn LÍS til ráðgjafar í störfum og málefnum stjórnar. Nefndin mun eiga í samráði við jafnréttisnefndir háskólanna og taka þátt í öðrum verkefnum. Laus sæti í nefndinni eru þrjú.

Ef þú vilt fleiri upplýsingar getur þú haft samband við Anítu Sóley Scheving Þórðardóttur, jafnréttisfulltrúa LÍS. Netfang: jafnrettisfulltrui@studentar.is  

LAGABREYTINGANEFND

Lagabreytinganefnd LÍS sér um endurskoðun á lögum og verklagi á hverju ári. Tryggja þarf að lögin séu í samræmi við starf samtakanna og að samtökin fylgi þeim í hvívetna. Lagabreytinganefnd sér um gerð á breytingartilögum sem lagðar eru fyrir fulltrúarráð LÍS. Séu tilögurnar samþykktar þar fara þær fyrir Landsþing LÍS sem er æðsta ákvörðunarvald samtakanna. Möguleikarnir til þess að bæta skilvirkni og starf samtakanna eru því miklir með þátttöku í lagabreytinganefnd. Óskað er eftir einstaklingum sem hafa áhuga á lögum og lagabreytingum. Lögfræðiþekking er ekki skilyrði en þó kostur. Laus sæti í nefndinni eru fjögur.

Umsóknir og upplýsingar má fá hjá S. Magga Snorrason varaforseta samtakanna með því að senda tölvupóst á varaforseti@studentar.is

Read More