Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Síðasta ljós­móðirin á Ís­landi…

Grein eftir forseta LÍS sem birtist á vísir.is 7. oktbóer

…er í Smáralind. Þar standa Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) fyrir sýningunni Mennt var máttur um helgina.

Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland gæti stefnt ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna.

Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar námsgreinar í háskólum verið í útrýmingarhættu. Á sýningunni er stigið inn í þá framtíð sem blasir við ef ekkert verður gert. Stuðningur við stúdenta er ekki einkamál stúdenta enda hefur það hvernig okkur tekst til að mennta stúdenta nútímans bein áhrif á það hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar verður samansettur. Ísland er auðugt land með óvenju lágt menntunarstig en töluvert færri hafa lokið háskólamenntun á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.

Sjá nánar hér.

Hefur tilgangur námslánakerfisins gleymst?

Við þekkjum öll hina rómantísku ímynd af hinum fátæka stúdent sem þarf einfaldlega að harka á meðan námi stendur og svo þegar viðkomandi er kominn út á vinnumarkað getur sá hinn sami farið að lifa lífinu. Raunveruleiki íslenskra námsmanna er þó þvert á móti rómantískur enda ekkert rómantískt við það á Íslandi hafa 3% námsmanna þurft að neita sér matar yfir heilan dag vegna fjárskorts. Það er heldur ekkert rómantískt við þá staðreynd að Ísland á Evrópumet í fjölda stúdenta sem fullyrða að án launaðrar vinnu hefðu þau ekki efni á því að vera í námi.

Það virðist vera sem svo að það þurfi að vekja íslensk stjórnvöld og minna þau á tilgang námslánakerfisins. Námslánakerfið er jöfnunartól sem á að tryggja að hver og einn sem það kýs geti aflað sér menntunar óháð stöðu sinni eða fjárhagslegu baklandi.

Námslánakerfið er einnig fjárfestingartól. Það er verkfæri íslenskra stjórnvalda til þess að fjárfesta í mannauð sínum og menntun þjóðarinnar. Slík fjárfesting í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs ætti að vera sniðin að þörfum lántaka svo sem flestir eigi þess kost að sækja sér menntun við hæfi.

Fjárfesting í námi felur nefnilega í sér ábata fyrir samfélagið allt. Eins og sakir standa er eins og það hafi gleymst. Fjárframlög ríkisins til sjóðsins endurspegla í það minnsta ekki þessa staðreynd.

Nú þegar lántökum hjá Menntasjóði námsmanna fer sífækkandi þurfa stjórnvöld að staldra við og velta fyrir sér hvernig framtíð bíður okkar án stuðnings við námsmenn.

Síðasta ljósmóðirin er að sjálfsögðu ekki í alvörunni í Smáralind. Eða hvað? Ef fram fer sem horfir og stjórnvöld grípa ekki í taumana og fara að fjárfesta almennilega í menntun gæti sú framtíð verið nær okkur en við höldum.

Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS).

Mennt var máttur er sýning í Smáralind sem stendur yfir föstudaginn 6. október til sunnudagsins 8. október. LÍS og BHM hvetja almenning til þess að mæta og berja mögulega framtíð Íslands augum. Hægt er að lesa sér frekar til um sýninguna hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Mennt var máttur

Sýningin Mennt var máttur opnaði fyrir boðgestum í Safnahúsinu í gær. Sýningin er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna og framtíð menntunar á Íslandi.


Sýningin verður í kjölfarið opin almenningi í Smáralind dagana 6.-8. október. Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) standa fyrir sýningunni en henni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna, sem er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu, og framtíð menntunar á Íslandi.


Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland stefnir ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna. Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar greinar í háskólum verið í útrýmingarhættu og á sýningunni má segja að stigið sé inn í

þá framtíð. Samkvæmt tölum frá Menntasjóði námsmanna hefur orðið umtalsverð fækkun á þeim sem sækja um námslán á Íslandi, auk þess hafa töluvert færri ungmenni á Íslandi aflað sér háskólamenntunar samanborið við nágrannalöndin. Árin 2009 voru tæplega 12.400 háskólanemar á námslánum en 10 árum síðar voru þeir aðeins um 5.000 talsins. Ísland er einnig í efstu þrepum á evrópskum skala þegar kemur að fjölda námsmanna sem telja sig þurfa að vinna á meðan þeir stunda nám sitt. Auk þess eru 14% námsmanna sem kljást við fæðuóöryggi og 3% námsmanna hafa þurft að neita sér um mat vegna skorts á peningum.

Það var margt um manninn á sýningaropnuninni en hér að neðan má sjá nokkrar myndir.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Fulltrúaráðsfundur 2. okt

Mánudaginn 2. október kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.

Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.

Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn á 4. hæði í Borgartúni 6 (sal BHM). Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar

2. Menntasjóður námsmanna, kynning og umræður.

3. Reiknilíkan háskólanna, kynning og umræður.

4. Ívilnanir námslána fyrir nema ákveðinna námsgreina.

5. Samráðsfundir ráðherra 

6. Önnur mál

Read More
Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta

Fréttabréf LÍS 2023 tbl. 2

Opna Fréttabréf
SKRÁ MIG Á PÓSTLISTA

Nýr jafnréttisfulltrúi og framkvæmdastjóri ráðinn, yfirlýsing vegna umræðna um sameiningu háskóla, þátttaka stúdenta í Gleðigöngunni, gæðaráðsmál og fleira í örðu tölublaði fréttabréfs LÍS.

Við stefnum á að senda fréttabréfin út mánaðarlega að minnsta kosti að áramótum. Markmiðið með fréttabréfunum er að vekja athygli á starfsemi samtakanna og auka upplýsingaflæði til og milli aðildarfélaganna.

Þér er velkomið að senda á varaforseti@studentar.is ef þú ert með athugasemdir eða hefur efni í huga til að birta í næsta tölublaði!

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Á fulltrúaráðsfundi LÍS var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt um sameiningu háskóla:

Yfirlýsing LÍS vegna viðræðna um sameiningu háskóla

Í ljósi viljayfirlýsingar um aukið samstarf og mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem og óformlegra viðræðna um mögulega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst senda Landssamtök íslenskra stúdenta frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Samtökin telja brýnt að ítreka fyrir stjórnvöldum að í allri umræðu um samstarf og sameiningu háskóla þarf að tryggja fullt samráð við stúdenta. Enn fremur þarf að tryggja að allt samstarf sé gert með hag nemenda að leiðarljósi. 

Landssamtök íslenskra stúdenta telja að markmið með auknu samstarfi eða mögulegri sameiningu þurfi að vera skýr. LÍS telja stjórnvöld þurfa að sýna fram á með óyggjandi hætti að markmið sameiningar sé að auka gæði náms, tryggja aðgengi stúdenta að stoðþjónustu og bæta aðgengi að námi. 

Það er ekki launungarmál að hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur verið fjársveltur um langt skeið og  er Ísland eftirbátur samanburðarþjóða sinna þegar kemur að fjárfestingu í háskólamenntun. Langvarandi fjársvelti háskólanna er afleiðing af stefnu stjórnvalda í menntamálum og vísa samtökin því á bug að sameining háskóla sé fýsileg lausn á hinum heimatilbúna vanda sem fjársveltið er. Hagræðing í ríkisrekstri má ekki vera forsenda fyrir jafn afdrifaríkum aðgerðum og þessar yrðu, taka þarf á menntamálum af meiri festu en svo.

Að lokum skýtur það skökku við að ekki hefur verið gerð greining á þeim kostum og göllum sem hljótast af því að hafa starfandi 7 háskóla á landinu. Slík greining hefði átt að fara fram áður en hvatt var til sameiningar og niðurstöður hennar ættu að liggja til grundvallar öllum viðræðum um mögulegar sameiningar. Hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur sína sérstöðu og ekki má vanmeta þá kosti sem það leiðir af sér. Þar má helst nefna fjölbreytni í námi og hvernig dregið hefur verið úr einsleitni í háskólakerfinu með stofnun nýrra háskóla. 

Read More