Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta Fréttabréf Landssamtök íslenskra stúdenta

Fréttabréf LÍS 2023 tbl. 3

Herferðin Mennt var máttur, endurvakning Stúdentafélag Háskólans á Hólum, skrásetningargjöld HÍ, gervigreind í háskólanámi, 10 ára afmæli og fleira í þriðja tölublaði fréttabréfs LÍS.

Við stefnum á að senda fréttabréfin út mánaðarlega að minnsta kosti að áramótum. Markmiðið með fréttabréfunum er að vekja athygli á starfsemi samtakanna og auka upplýsingaflæði til og milli aðildarfélaganna.

Þér er velkomið að senda á varaforseti@studentar.is ef þú ert með athugasemdir eða hefur efni í huga til að birta í næsta tölublaði!

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Umsögn LÍS um reglur um fjárframlög til háskóla

Landssamtökum íslenskra stúdenta hafa borist til umsagnar frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu reglur um fjárframlög til háskóla. Samtökin fagna því að eftir áralanga vinnu skuli nýtt fjárveitingarlíkan brátt líta dagsins ljós enda hefur verið eftir því kallað í langan tíma.

Umsögnina í heild sinni má finna hér og að neðan er snert á nokkrum helstu atriðum:

Reiknilíkanið er stefnumótandi tól stjórnvalda í málefnum háskóla og því vilja stúdentar koma því tryggilega á framfæri að athygli vekur að ekki er lögð áhersla á jafnrétti til náms við val á hvötum í reglum þessum. Jafnrétti til náms er fyrsta stoðin af fimm sem Menntastefna stjórnvalda til ársins 2030 er byggð á. Samtökin taka fyllilega undir það markmið og telja að líkanið í heild sinni ætti að miða að því að tryggja jafnrétti til náms auk þess að tryggja innleiðingu hinna fjögurra stoðanna sem Menntastefnan byggir á.

Ljóst er að háskólasamfélagið í núverandi mynd endurspeglar ekki þverskurð samfélagsins og því þarf reiknilíkanið að stuðla að aukinni félagslegri vídd. Mikilvægt er að skoða þær hindranir sem koma í veg fyrir að einstaklingar stundi nám og  með hvaða hætti sé hægt að beita reiknilíkaninu til þess að tryggja jafnt aðgengi. Stúdentar telja það vera grundvallaratriði að reiknilíkanið stuðli að auknu aðgengi að námi og félagslegri vídd innan háskólasamfélagsins. Stúdentar hafa viðrað áhyggjur sínar af því að ef hvatarnir loknar einingar og brautskráningar, standi jafn veigamiklir og gert er ráð fyrir nú, geti það leitt til aukinna aðgangsstýringa en aðgangsstýringar geta dregið verulega úr aðgengi ýmissa hópa að háskólanámi

  Það hefur komið fram að markmið þessara reglna sé að skapa hvata fyrir skólana til þess að halda vel utan um nemendur sem ætti að leiða til hærra útskriftarhlutfalls. Í því samhengi hefur verið vísað til reynslu þessara hvata á Norðurlöndunum. Samtökin sjá því ástæðu til þess að minna á að þó þetta markmið sé af hinu góða þá er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að háskólar á Norðurlöndum hafa verið töluvert betur fjármagnaðir en hinir íslensku til margra ára og þ.a.l. betur í stakk búnir til þess að raunverulega nýta hvatana til þess að auka gæði og veita einstaklingsmiðaða nálgun í námi. Því er grundvallarforsenda fyrir þessum hvötum að skólarnir verði fjármagnaðir á par við meðaltal norðurlandanna svo að skólarnir geti raunverulega nýtt sér þá.

Í ljósi þess að jafnrétti til náms er helsta stoðin sem Menntastefna til ársins 2030 byggir á hvetja Landssamtökin íslenskra stúdenta ráðherra háskólamála til að huga sérstaklega að aðgengi að námi og aukinni félagslegri vídd við ákvörðun reglna um fjárframlög. Þá sjá samtökin sérstaka ástæðu til þess að taka fram að ekki er hægt að líta á aðgangsstýringar sem mögulega afleiðingu sem verður einungis í höndum háskólanna enda er reiknilíkanið stefnumótandi tól stjórnvalda og því þarf ráðuneytið að gera á því skýr skil hvernig má tryggja greiðan aðgang að háskólum landsins.

  Þá telja stúdentar að hætt sé við því að afleiðing þessara hvata, verði þeir í þessum hlutföllum, gangi gegn upphaflegum markmiðum um að stuðla að auknum gæðum háskólanáms. Ef meirihluti af fjármagni til háskólanna er háður því að nemendur ljúki námsmati getur það leitt til þess að skólarnir séu knúnir til þess að slá af kröfum til stúdenta með það að markmiði að ná nauðsynlegu fjármagni fyrir starfsemi skólanna. 

Að lokum taka samtökin undir með skýrsluhöfundum Grænbókar um fjárveitingar til háskóla, mál nr. 5/2020, um að hvatinn í núverandi reiknilíkani sé einsleitur og ýti undir áherslu á magn fremur en gæði. Í ljósi þessa, sem og ofangreinds, telja stúdentar að hverfa þurfi frá áformum um að 40% af heildarfjármagni fylgi loknum einingum og 20% fylgi brautskráningum. Þá yrðu samtals 60% af heildarfjármagni til háskólanna háð því að nemar standist námsmat og verður það að teljast stór partur af heildarfjármögnun háskólanna og hvatinn því orðinn einsleitur á ný. Þá er mikilvægt að huga að áhrifum hvatanna fyrir hvern skóla en á mynd 4 í greinargerð reglnanna má t.d. sjá að Háskólinn á Bifröst sækir 75% fjármagn sitt til kennsluhlutans og skólinn því orðinn verulega háður því að nemendur standist námsmat.

Í greinargerð kemur fram að flokkun námsgreina í reikniflokka er gerð m.t.t. kennsluaðferða, húsnæðisþarfa, sérhæfðum búnaði og áherslu stjórnvalda. Stúdentar taka undir þessa skiptingu að mestu leyti en telja þó að einnig þurfi að taka tillit til fámennra greina við skiptingu í reikniflokka.  Í þessu samhengi má til dæmis benda á tungumálanám sem er bóknám  og er staðsett í flokki A. Í tungumálanámi þarf þó að gera ráð fyrir færri nemendum á kennara og gagnvirku námi og því eðlilegt að við flokkun sé einnig tekið tillit til slíkra þátta. Stúdentar vilja einnig minna á mikilvægi þess að  líta til framþróunar í kennsluháttum en til þess þarf að vera svigrúm innan háskóla til að þróa mismunandi kennsluaðferðir. 


Umsögnina í heild sinni má finna hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Fulltrúaráðsfundur 7. nóvember

Mánudaginn 2. október kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.

Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.

Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Háskóla Íslands (stofa auglýst þegar nær dregur). Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.

Fundardagskrá er eftirfarandi:

  1. Fundargerð síðasta fundar

  2. Fréttir

  3. Gervigreind í háskólanámi

    1. Geir Finnsson, forseti LUF og framhaldsskólakennari, kemur og ræðir um gervigreind í námi.

    2. Umræður

  4. Landsþing LÍS 2024

    1. Tillaga SHA um dagsetningu

    2. Skipun landsþingsnefndar

  5. Umsögn um reiknilíkan háskólanna

  6. Ísrael-Palestína. Tillaga frá alþjóðanefnd

  7. Önnur mál

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Umsögn LÍS vegna vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof,

Umsögn Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (afkomuöryggi, meðgönguorlof, vinnutímastytting foreldris).

Landssamtökum íslenskra stúdenta hefur borist til umsagnar frá Velferðarnefnd Alþingis frumvarps til laga um um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Í þessari umsögn verður snert á þeim atriðum er varða stúdenta.

16. grein frumvarps, breytingar á 38. grein laganna

LÍS fagna því að lögð er til hækkun á fæðingarstyrk námsmanna enda ljóst að núverandi upphæð dugar skammt til almennrar framfærslu. Samtökin hafa áður bent á að það skjóti skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.1 Samtökin fagna sömuleiðis þeirri viðbót sem merkt er c. í 16. grein frumvarpsins. Þar er þó er gerð athugasemd við skilyrði um fullt nám með vísan í þau sjónarmið sem eru rakin hér að neðan.

27. og 28. grein laga nr. 144/2020

Samtökin telja að mikilvægt sé að stíga skrefi lengra og hvetja þau til þess að sömuleiðis verði gerðar breytingar á 27. og 28. grein laga um fæðingar- og foreldraorlof er fjalla um skilyrði og undanþágur fyrir fæðingarstyrk námsmanna. Samkvæmt 27. grein laganna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrknum yfirhöfuð og skerðir ákvæðið aðgengi stúdenta að félagslegum réttindum. Setja má spurningarmerki við hvort slík krafa um námsframvindu sé í samræmi þau velferðarsjónarmið sem fæðingarorlofskerfið er byggt á. Hér skal ítrekað að lágmarksnámsframvinda mælir ekki ástundun í námi heldur það hvort stúdentar standist námskröfur námskeiða. Undanþágur fyrir skilyrði um fullt nám, sem fjallað er um í 28. grein laganna, eru of þröngar til þess að þær grípi alla þá sem á styrknum þurfa að halda. Sem dæmi má taka einstakling sem skráður er í 3 10 ECTS kúrsa (fullt nám) og fellur í einum þeirra. Sá hinn sami missir því allan rétt til fæðingarstyrks námsmanna og hlýtur þess í stað fæðingarstyrk fyrir einstakling utan vinnumarkaðar sem er töluvert lægri upphæð. Ákvæðið verður því að teljast ansi íþyngjandi og hafa bæði Landssamtök íslenskra

1 Ályktun á landsþingi LÍS 2023 um stöðu foreldra í námi

1

stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands bent á það2. Fyrirkomulagið er sömuleiðis líklegt til þess að auka kvíða og streitu í aðdraganda fæðingu barns.

Atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta er með því hæsta sem þekkist í samanburðarlöndum en í sjöundu könnun Eurostudent3 kemur fram að 71% íslenskra stúdenta vinna með námi, þar af 29% í yfir 20 tíma á viku. Auk þess kemur fram að 72% þeirra sem vinna fullyrða að án launaðrar vinnu hafi þau ekki efni á því að vera í námi. Í sömu könnun kemur fram að 25% stúdenta eiga í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Þegar litið er til þeirra sem vinna 20 tíma eða fleiri eiga rúmlega 50% í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Það er því ljóst að í núverandi kerfi hefur skortur á stuðningi við námsmenn áhrif á námsframvindu og þar með möguleika á því að hljóta fæðingarstyrk námsmanna.

13. grein frumvarps , breyting á 23. grein laganna

Það að tekjur undir 350.000 krónum séu óskertar er mikilvægt réttlætismál fyrir vinnandi stúdenta. Líkt og var rakið hér að ofan eru fjölmargir stúdentar í hlutastörfum með laun sem mega ekki við skerðingu. Kerfið þarf að taka tillit til raunverulegra aðstæðna stúdenta og í ljósi þess hversu hátt hlutfall stúdenta þurfa að vinna er ekki óeðlilegt að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess þegar stúdentar eru einnig í launaðri vinnu. Sem dæmi má nefna stúdent í 60% námi og 40% starfi og skal hér tekið fram að slíkur einstaklingur er ekki jaðartilvik. Viðkomandi er því samtals í 100% starfi ef náms- og starfshlutfallið er lagt saman. Viðkomandi myndi ekki fá fæðingarstyrk námsmanna en myndi í staðinn fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði í samræmi við 40% starfshlutfall en ljóst er að slíkar tekjur mega ekki við skerðingu. 13. grein frumvarpsins er því nauðsynleg fyrir vinnandi stúdenta. Hér skal þó tekið fram að einnig væri hægt að finna útfærslu þar sem fæðingarorlofsgreiðsla stúdenta er reiknuð út frá samanlögðu náms- og starfshlutfalli en það yrði efni í annað ákvæði.

Umsögnina má finna hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Síðasta ljós­móðirin á Ís­landi…

Grein eftir forseta LÍS sem birtist á vísir.is 7. oktbóer

…er í Smáralind. Þar standa Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) fyrir sýningunni Mennt var máttur um helgina.

Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland gæti stefnt ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna.

Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar námsgreinar í háskólum verið í útrýmingarhættu. Á sýningunni er stigið inn í þá framtíð sem blasir við ef ekkert verður gert. Stuðningur við stúdenta er ekki einkamál stúdenta enda hefur það hvernig okkur tekst til að mennta stúdenta nútímans bein áhrif á það hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar verður samansettur. Ísland er auðugt land með óvenju lágt menntunarstig en töluvert færri hafa lokið háskólamenntun á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.

Sjá nánar hér.

Hefur tilgangur námslánakerfisins gleymst?

Við þekkjum öll hina rómantísku ímynd af hinum fátæka stúdent sem þarf einfaldlega að harka á meðan námi stendur og svo þegar viðkomandi er kominn út á vinnumarkað getur sá hinn sami farið að lifa lífinu. Raunveruleiki íslenskra námsmanna er þó þvert á móti rómantískur enda ekkert rómantískt við það á Íslandi hafa 3% námsmanna þurft að neita sér matar yfir heilan dag vegna fjárskorts. Það er heldur ekkert rómantískt við þá staðreynd að Ísland á Evrópumet í fjölda stúdenta sem fullyrða að án launaðrar vinnu hefðu þau ekki efni á því að vera í námi.

Það virðist vera sem svo að það þurfi að vekja íslensk stjórnvöld og minna þau á tilgang námslánakerfisins. Námslánakerfið er jöfnunartól sem á að tryggja að hver og einn sem það kýs geti aflað sér menntunar óháð stöðu sinni eða fjárhagslegu baklandi.

Námslánakerfið er einnig fjárfestingartól. Það er verkfæri íslenskra stjórnvalda til þess að fjárfesta í mannauð sínum og menntun þjóðarinnar. Slík fjárfesting í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs ætti að vera sniðin að þörfum lántaka svo sem flestir eigi þess kost að sækja sér menntun við hæfi.

Fjárfesting í námi felur nefnilega í sér ábata fyrir samfélagið allt. Eins og sakir standa er eins og það hafi gleymst. Fjárframlög ríkisins til sjóðsins endurspegla í það minnsta ekki þessa staðreynd.

Nú þegar lántökum hjá Menntasjóði námsmanna fer sífækkandi þurfa stjórnvöld að staldra við og velta fyrir sér hvernig framtíð bíður okkar án stuðnings við námsmenn.

Síðasta ljósmóðirin er að sjálfsögðu ekki í alvörunni í Smáralind. Eða hvað? Ef fram fer sem horfir og stjórnvöld grípa ekki í taumana og fara að fjárfesta almennilega í menntun gæti sú framtíð verið nær okkur en við höldum.

Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS).

Mennt var máttur er sýning í Smáralind sem stendur yfir föstudaginn 6. október til sunnudagsins 8. október. LÍS og BHM hvetja almenning til þess að mæta og berja mögulega framtíð Íslands augum. Hægt er að lesa sér frekar til um sýninguna hér.

Read More