Opið fyrir umsóknir í alþjóðanefnd LÍS
Hvað er alþjóðanefnd?
Alþjóðanefnd LÍS sinnir alþjóðlegum skuldbindingum LÍS, sækir fróðleik til alþjóðlegra stúdenta og færir þann fróðleik heim til Íslands. Nefndin sinnir undirbúningsvinnu og úrvinnslu í kringum alþjóðlega viðburði sem fulltrúar LÍS sækja, þá einna helst á vegum Evrópusamtaka stúdenta (ESU), ásamt því að endurskoða alþjóðastefnu LÍS. Með þátttöku í nefndinni munu meðlimir fá innsýn inn í starf LÍS og ekki síður inn í störf alþjóðlegra stúdentahreyfinga en nefndin sér um að kynna sér og vekja athygli á tækifærum til þátttöku stúdenta í alþjóðlegu stúdentasamstarfi. Nefndin mun í sameiningu móta starf vetrarins undir handleiðslu alþjóðafulltrúa. Laus sæti í nefndinni eru fjögur og leitumst við eftir fjölbreyttum hópi af áhugasömu fólki. Hvers kyns reynsla eða þekking á alþjóðlegri umhverfi er kostur en alls ekki krafa, einungis brennandi áhugi á því að læra nýja hluti!
Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Þóru Margréti Karlsdóttur, alþjóðafulltrúa LÍS. Netfang: thora@studentar.is.
Hæfniskröfur
Að umsækjandi sé í háskólanámi eða að ekki sé meira en ár liðið frá því að hann var stúdent.
Vilji til þess að fylgja stefnumálum og verklagi LÍS.
Vilji til þess að vinna með öðrum nefndarmeðlimum og til þess að leggja sitt af mörkum
Reynsla af starfi innan stúdentahreyfinga háskólanna er æskileg. Reynsla af félagsstarfi utan háskólanna er líka æskileg.
Hvernig sæki ég um?
Opið er fyrir umsóknir frá 27. janúar til og með 3. febrúar. Í umsókn skal koma fram: Nafn, menntun, reynsla af félagsstörfum og/eða önnur reynsla sem gæti nýst og stutt lýsing á ástæðu umsóknar. Við hvetjum einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um þær lausu stöður sem í boði eru. Umsóknir berast á varaforseti@studentar.is.
Hvað eru LÍS?
Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.
Umsóknir og upplýsingar má fá hjá S. Magga Snorrasyni varaforseta samtakanna með því að senda tölvupóst á varaforseti@studentar.is
Fulltrúaráðsfundur 29. janúar
Mánudaginn 29. janúar kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.
Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Listaháskóla Íslands, Skipholti 31. Fjórða hæð, fræðastofa 3. Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.
Ályktun LÍS um aðgengi fóttafólks að háskólanámi
Landssamtök íslenskra stúdenta fagna áherslu stjórnvalda á aukna alþjóðavæðingu í háskóla og vísindastarfi. Er þar vísað til aðgerðar 1.7: Aukin alþjóðavæðing í háskóla- og vísindastarfi í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 sem Alþingi samþykkti í desember síðastliðnum. Í tillögunni segir að gripið verði til aðgerða til að fjölga erlendum nemendum á Íslandi en LÍS telur að skýrari áætlanir skorti til þess að ná því markmiði.
Alþjóðavæðing hefur styrkt tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að auknum skilningi og hraðari samskiptum milli landa og menningarheima. Þar að auki ber Ísland ábyrgð í samfélagi þjóðanna og ættu stjórnvöld einnig að stefna að markmiði um fjölgun alþjóðlegra nemenda vegna mannúðarsjónarmiða en ljóst er að tækifæri til náms eru ólík eftir búsetu og ríkisfangi. Í því samhengi má sérstaklega nefna fólk á flótta en aldrei hafa fleiri verið á flótta en um þessar mundir en samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna eru nú um 110 milljónir einstaklinga á flótta á heimsvísu. Þessir einstaklingar eru af öllum þjóðfélagsstigum og þar á meðal háskólanemar en fjölmörg dæmi eru um að stúdentar hafa þurft að hætta eða fresta námi um langa hríð vegna þessa. Aðeins um 6% flóttamanna eru í háskólanámi á alþjóðavísu en það er langt undir meðaltali innritunar í háskóla meðal annarra en flóttamanna.
LÍS hvetur því stjórnvöld sérstaklega til þess að hefja samstarf við Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR) um viðbótarbrautir (e. Complementary Education pathways for refugees) til þess að koma háskólanemum á flótta inn í nám í öruggum ríkjum. Nú þegar eiga nokkur ríki í Evrópu í slíku samstarfi, t.d. Noregur og Litháen.
Slíkar viðbótarbrautir eru skilgreindar leiðir fyrir flóttafólk til þess að hefja nám í öruggu ríki og geta leitt til dvalar- og atvinnuleyfis í kjölfarið. Brautirnar tryggja samtímis tækifæri þessa viðkvæma hóps til náms sem og stuðlar að markmiði stjórnvalda um að fjölga erlendum nemum. Slíkar leiðir eru ekki síst mikilvægar fyrir Ísland enda mæta þær áskorunum um skort á sérfræðingum á Íslandi.
Fulltrúaráðsfundur 18. desember
Mánudaginn 18. desember kl 17:00 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.
Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Háskólanum í Reykjavík í stofu M306. Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.