Kynning á niðurstöðum rannsóknar á stöðu foreldra í háskólanámi
Næstkomandi þriðjudag mun Katrín Björk Kristjánsdóttir kynna niðurstöður rannsóknar sinnar um stöðu foreldra í háskólanámi. Kynningin verður kl. 17-18 í stofu HT - 101 á neðri hæð Háskólatorgs í Háskóla Íslands.
Síðastliðið sumar hlaut LÍS styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og réði í kjölfarið Katrínu Björk til þess að starfa við rannsóknina. Hún starfaði undir umsjá Ásdísar Arnald, forstöðukonu Félagsvísindastofnunar, og Guðnýjar Eydal, prófessors í félagsráðgjöf.
Rannsóknin skoðar stöðu foreldra í háskólanámi. Rannsóknin dregur fram hver lífskjör foreldra í námi eru samanborið við barnlausa stúdenta, sem og hvernig foreldrum í námi farnast í háskólanámi samanborið við barnlaust fólk. Markmiðið var að kortleggja upplifun af náminu, framfærslu og reynslu foreldra af stuðningi stjórnvalda við barnafjölskyldur svo hægt sé að vinna að úrbótum og skilja stöðu þessa stóra hóps betur.
Við hvetjum öll áhguasöm um að mæta en stór hluti stúdenta á Íslandi eru foreldrar og mikilvægt að vinna að hagsmunum þessa hóps.
Lífskjarakönnun stúdenta
Viðamiklar breytingar standa nú yfir í háskólum á Íslandi, svo sem sameiningarviðræður, endurskoðun á fjármögnunarlíkani háskóla, auk þess sem fyrirhugað er að gera breytingar á Menntasjóði námsmanna. Af því tilefni standa LÍS og BHM sameiginlega að lífskjarakönnun stúdenta. Þetta er í fyrsta skipti sem könnunin er lögð fyrir og er markmið hennar að kanna efnahags- og samfélagslega stöðu stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta erlendis.
Könnunin hefur verið send á skólanetföng allra stúdenta við íslenska háskóla og á félagatal Samband íslenskra námsmanna erlendis. Það tekur um 5-10 mínútur að svara könnuninni og munu 10 heppnir þáttakendur fá 25.000 kr. gjafabréf í Kringluna.
Því fleiri sem svara því betri innsýn fáum við í stöðu og hagi stúdenta í íslensku samfélagi. Að sjálfsögðu verður ekki hægt að rekja svör könnunarinnar til einstakra svarenda og farið er með öll gögn sem trúnaðarmál. Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna í pósti sem borist hefur nemendum.
Fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði
Á landsþingi LÍS fyrr í mánuðinum var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt um fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði. Stúdentar hafa um langa hríð bent á að háskólakerfið sé vanfjármagnað og gagnrýna stúdentar harðlega að leitað sé til fjöldatakmarkana sem lausnar við fjárskorti. Ályktunina má lesa hér sem og að neðan:
Háskólamenntun í raunverulegri hættu - Fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði
Í haust stóðu Landssamtök íslenskra stúdenta auk BHM fyrir herferðinni Mennt var máttur. Tilgangur herferðarinnar var að sýna fram á þá dystópísku mynd sem gæti blasað við íslensku samfélagi ef ekki verður gerð breyting á fjármagni til háskólakerfisins. Sú mynd gæti raungerst og herferðin sannspárri en LÍS hefði viljað. Meðal þeirra stétta sem herferðin snerti á voru mikilvægar heilbrigðisstéttir sem alvarlegt væri fyrir íslenskt samfélag ef ekki yrðu menntaðar hérlendis.
Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri óskaði eftir því að háskólaráð Háskólans á Akureyri fjallaði um fjöldatakmarkanir í starfsréttindanámi í iðjuþjálfunarfræði og liggur fyrir ráðinu að taka ákvörðun um það. Ákvörðun iðjuþjálfunarfræðideildar er tekin vegna þess að deildin er vanfjármögnuð og sér ekki fram á að geta tekið við fleiri stúdentum. Stúdentar hafa um langa hríð bent á að háskólakerfið sé vanfjármagnað og gagnrýna stúdentar harðlega að leitað sé til fjöldatakmarkana sem lausnar við fjárskorti.
Deildin er sú eina hérlendis sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði. Greinin er fremur ung hérlendis en hefur verið í örum vexti síðastliðin ár og er mikill áhugi á náminu. Einnig er töluverður skortur á iðjuþjálfurum í íslensku samfélagi innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins og því mikilvægt að útskrifa fleiri iðjuþjálfa hérlendis. Tilgangur háskólamenntunar er að skapa þekkingu og fjölga tækifærum með það að leiðarljósi að gera samfélagið öflugra og tryggja fjölbreytta þekkingu.
Það að þurfa að setja fjöldatakmarkanir í deildina á þessum tímapunkti vegna fjárskorts er sorglegt, ekki einungis fyrir stúdenta deildarinnar, starfsmenn og iðjuþjálfa heldur einnig fyrir stúdenta í heild því ákvörðunin varpar ljósi á það hvar háskólakerfið er statt í raun og veru.
Stúdentar ræða tilgang háskólamenntunar
Stúdentar fjölmenntu á landsþing LÍS síðastliðna helgi en um 50 stúdentar frá öllum háskólum landsins sóttu þingið. Þingið var haldið í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyrir og fór vel um okkar fólk í sveitarsælunni. Á þinginu var kjörið í framkvæmdastjórn komandi starfsárs og mun hún taka við 1. júní næstkomandi. Auk þess var lögð fyrir þingið ný fjölskyldustefna, lagabreytingar, endurskoðun á gæða- og jafnréttisstefnum LÍS og teknar fyrir ályktanir. Samþykkt þingskjöl verða birt á næstu dögum.
Tilgangur háskólamenntunar
Þema þingsins var: Tilgangur háskólamenntunar og voru haldinn fjögur erindi sem nálguðust þemað frá ólíkum áttum. Í kjölfarið tóku þingfulltrúar þátt í hópavinnu um efnið.
Skúla Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor Háskólans á Hólum fjallaði um hlutverk og gæðastarf háskóla andspænis þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir. Hann lagði áherslu á hvernig gott háskólastarf skiptir máli fyrir samfélagið, náttúruna og farsælt mannlíf. Hulda Birna Kjærnsted Baldursdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum iðnaðarins fjallaði um mannauðs- og færniþörf sem SI hefur greint og lagði áherslu á skort á sérfræðingum í STEAM greinum. Einar Hreinsson, konrektor MR, fjallaði um hlutverk háskólakennslu og bar upp vangaveltur um hvort hlutverk háskólakennslu hafi breyst í ljósi nýjustu breytinga á kostnað nemenda við háskólamenntun, fjármögnun kerfisins og niðurstöður helstu rannsókna á þróun framhaldsskólakerfisins og undirbúningi nemenda fyrir háskólanám. Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs RANNÍS hélt erindi um alþjóðavæðingu háskólastarfs og tækifæri á vegum RANNÍS. Hún lagði áherslu á mikilvægu grasrótarrannsókna og fjármönun þeirra.
Í kjölfarið tóku stúdentarnir þátt í spjali við hvern og einn fyrirlesara þar sem tækifæri gafst til þess að kafa á dýptina um hvert og eitt sjónarhorn. Að því loknu tók við hópavinna þar sem þingfulltrúar komu með sína sýn á efni þingsins.
Framkvæmdastjórn
Á þinginu var kosið í framkvæmdastjórn samtakanna fyrir starfsárið 2024-2025. Tekur hún við í byrjun júní en þangað til starfar núverandi framkvæmdastjórn. Lísa Margrét Gunnarsdóttir var kjörin forseti LÍS, Þóra Margrét Karlsdóttir hlaut kjör sem alþjóðafulltrúa, Lilja Margrét Óskarsdóttir var kjörn gæðastjóri og Íris Björk Ágústsdóttir hlaut kjör í stöðu jafnréttisfulltrúa. Við óskum þeim innilega til hamingju með kjörið og hlökku til þess að sjá þau starfa í þágu stúdenta á komandi starfsári.
Auk hefðbundinnar dagskrár voru ýmis mál tekin fyrir. Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar heimsótti þingið og ræddi við fulltrúa stúdenta um stöðuna í háskólamálum og svaraði krefjandi spurningum frá þinginu. Við þökkum henni kærlega fyrir að gefa sér tíma til þess að spjalla við stúdenta um hin ýmsu hagsmunamál.
Á milli stífra fundarhalda gerðu stúdentar sér glaðan dag. Við heimsóttum vísindafjósið á Hvanneyrir, fórum í sund og tókum þátt í skemmtisdagskrá.
Við þökkum öllum sem sóttu þingið kærlega fyrir þeirra framlag og sömuleiðis Landbúnaðarháskólanum fyrir gestrisnina!
Landsþing LÍS 2024
Nú líður brátt að Landsþingi LÍS 2024. Þingið verður haldið í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyrir 7. - 10. mars og munu þær mæta stúdentar frá öllum aðildarfélögum LÍS. Auk þingfulltrúa mæta framkvæmdastjórn og nefndarmeðlimir LÍS, frambjóðendur og aðrir gestir. Skráðir fulltrúar fá nánari upplýsingar um dagskrá og ferðatilhögun í tölvupósti.
Þema þingsins er: Tilgangur háskólamenntunar
Nú stendur yfir mikilvægur tím í málefnum háskóla. Breytingar á fjárveitingarlíkani háskólanna, sameiningaviðræður stakra skóla, endurskoðun á Menntasjóði námsmanna, uppstokkun á því ráðuneyti sem heldur utan um málefni háskólamenntunar og breytingar á lögum um háskóla hefur átt sér stað síðastliðin tvö ár.
Það er því tilefni fyrir stúdenta að setjast niður og ræða saman um tilgang og hlutverk háskólamenntunar. Við ætlum að leitast við að svara mikilvægum spurningum um t.d. samband háskólamenntunar og vinnumarkaðar. Ætti að skipuleggja málefni háskóla út frá forsendum stúdenta, háskólastofnana eða vinnumarkaðar? Eða jafnvel alls þriggja. Af hverju menntar fólk sig og af hverju ætti það að mennta sig? Hver er persónulegur og samfélagslegur ágóði af háskólamenntun? Auk þess verður umræða um aukið ákall um símenntun og endurmenntun og hvernig og hvort slíkt ákall hefur áhrif á tilgang háskólamenntunar.
Fyrirlesarar verða kynntir á næstu dögum.
Á þinginu verður einnig kosið í framkvæmdastjórn komandi starfsárs og því er til margs að hlakka