Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Evrópska ungmennavikan

Evrópska ungmennavikan var haldin dagana 12. - 19. apríl. Íslensk sendinefnd landsskrifstofu Erasmus+ sótti opnunarviðburð hátíðarinnar sem var haldinn í Evrópuþinginu í Brussel þann 12. apríl. Alexandra Ýr, forseti LÍS, var einn þátttakandi sendinefndarinnar auk þeirra Helgu Júlíu og Rebekku Nótt úr stjórn Samfés+, Ingibjörgu Ástu sjálfboðaliða Rauða Krossins, Sayed sem hefur starfað með Amnesty International og Guðmundi Ara sérfræðingi á landsskrifstofu Erasmus+.

Ungmennavikan er haldin annað hvert ár um alla Evrópu þar sem vakin er athygli á margskonar tækifærum sem eru í boði fyrir ungt fólk til að hafa áhrif og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.  Lifandi lýðræði var yfirskrift vikunnar í ár en þátttaka í lýðræðissamfélagi er eitt af áhersluatriðum Erasmus+ og European Solidarity Corps. LÍS hefur sótt í styrki Erasmus+ síðastliðin ár m.a. fyrir fjármögnun á Landsþingi LÍS en landsþingið er stærsti sameiginlegi vettvangur stúdenta á Íslandi fyrri stefnumótun og lýðræðislega umræðu um menntamál.

Á opnunarviðburðinum gafst einstakt tækifæri til þess að ræða mennta- og æskulýðsmál við fulltrúa Evrópuþingsins. Alexandra tók m.a. þátt í málstofu um sameiginlega evróska háskólagráðu sem er nýr stefnurammi fyrir háskólastigið og hvers markmið er að efla samvinnu milli háskóla í Evrópu. Hún sótti einnig málstofu um húsnæðismál stúdenta sem hafði það að markmiði að leita lausna við þeim mikla húsnæðisvanda sem blasir við háskólanemum um alla Evrópu.

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Hádegismálþing gæðanefndar LÍS

Hádegismálþing gæðanefndar LÍS var haldið 6 apríl síðastliðinn. Þar voru flutt þrjú ólík erindi um framtíð lærdómssamfélagsins og hægt er að horfa á upptöku af því hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Fulltrúaráðsfundur 9. apríl

Þriðjudaginn 9. apríl kl. 17:00-19:30 verður fundur hjá fulltrúaráði LÍS.

Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.

Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Háskóla Íslands í stofu HT - 101, neðri hæð Háskólatorgs. Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.

Dagskrá fundarins er hér að neðan. Athygli er vakin á því að fundurinn hefst á kynningu frá Katrínu Björk Kristjánsdóttur en hún vann að rannsókn um stöðu foreldra í námi sl. sumar og mun fara yfir helstu niðurstöður sínar.

  1. Kynning á niðurstöðu rannsóknar um stöðu foreldra í námi

  2. Fundargerðir síðustu funda borin upp til samþykktar

  3. Fréttir frá aðildarfélögum

  4. Yfirferð landsþings

  5. Herferð LÍS

  6. Ályktun til stuðnings háskólakennurum

  7. Ályktun um úthlutunarreglur

  8. Önnur mál

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Umsögn LÍS og BHM um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna

BHM og Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) furða sig á metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar eftir tveggja ára samráð um bætt námslánakerfi. Segja þau óbreytt styrkjakerfi auka ójöfnuð milli ungs fólks og eldri kynslóða sem nutu vaxtaniðurgreiðslu. Á sama tíma setja íslenskir námsmenn Evrópumet í atvinnuþátttöku.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri umsögn LÍS og BHM vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Í ljósi langs aðdraganda, yfirgripsmikilla athugasemda frá hagaðilum og þeim vanköntum sem reifaðir eru í skýrslu ráðherra um endurskoðun á Menntasjóðnum furða BHM og LÍS sig á takmörkuðu umfangi þeirra aðgerða sem boðaðar eru í frumvarpinu. Ljóst er að tilefni er til mun viðameiri aðgerða og ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem framundan eru í kjarasamningum háskólamenntaðra á opinbera markaðnum. BHM og LÍS hvetja stjórnvöld til að stíga metnaðarfyllri skref til skamms tíma og stefna að endurskoðun á námslánakerfinu á breiðum grunni til lengri tíma. Skilvirkt námslánakerfi vinnur með markmiðum stjórnvalda um mannauðsdrifið hagkerfi til framtíðar.

Samtökin telja of skammt gengið í breytingu á styrkjafyrirkomulagi og benda á að núverandi styrkjakerfi hafi aukið ójafnræði og ójöfnuð milli kynslóðanna. Þá fagna BHM og LÍS þeirri löngu tímabæru aðgerð að afnema ábyrgðarmannakerfið að fullu. Aftur á móti gagnrýna samtökin harðlega breytingu á lögunum sem leiðir til að "ótryggir lántakar" muni ekki hafa aðgang að námslánakerfinu framvegis. Menntasjóðurinn er félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggja á tækifæri til náms án tillits til efnahagslegrar stöðu.

Umsögnina í heild sinni má finna hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Fara stúdentar til tannlæknis?

Spurningin er ein þeirra sem leitast er við að svara í lífskjararannsókn stúdenta sem Landssamtök íslenskra stúdenta og Bandalag háskólamanna leggja nú fyrir háskólanema.

Það er gömul saga og ný að stúdentar lifa við bág kjör og hafa þeir hrópað sig hása um ófullnægjandi framfærslu og óöruggt stuðningskerfi í áraraðir. Í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir yfirstandandi skólaár kemur fram að einstæður stúdent á leigumarkaði fær 237.214 kr. til framfærslu á mánuði. Það er óþarft að fara í málalengingar um áhrif verðbólgu á útgjöld en ef ske kynni að stjórnvöld búi í öðrum heimi en stúdentar þá skal því komið hér tryggilega til skila að 237.214 kr. duga skammt fyrir leigu, mat og öðru hefðbundnu uppihaldi á Íslandi í dag.

Það sem við vitum aftur á móti ekki er hvaða áhrif þessi kjör hafa á líf stúdenta og aðgengi þeirra að námi. Í hvað fara tekjur stúdenta? Og í hvað duga þær ekki? Geta stúdentar borðað eina staðgóða máltíð á dag og geta þau farið til sálfræðings ef þau þurfa? Af hverju vinna íslenskir stúdenta svona mikið? Tengist vaxandi aðsókn í fjarnám þessari atvinnuþátttöku? Þetta eru spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við svo hægt sé að krefja stjórnvöld um að bregðast við með viðeigandi hætti.

Mikilvægt að líta til stóru myndarinnar

Önnur aðkallandi spurning sem við verðum að leita allra leiða til að svara varðar aðgengi að námi í íslensku samfélagi. Skortur á stuðningi við námsmenn er ávísun á stéttskipt samfélag þar sem einstaklingar úr efnameiri fjölskyldum eiga betri möguleika á stunda nám. Þetta eru áhyggjur sem stúdentar hafa viðrað um nokkurt skeið og verður að taka alvarlega.

Töluvert færri ungmenni hafa lokið háskólamenntun á Íslandi samanborið við Norðurlöndin og mikilvægt er að við finnum ástæðuna en getum ekki í eyðurnar. Er samhengi á milli stöðu og stéttar foreldra og því hvort afkvæmin fara í háskólanám? Með öðrum orðum er íslenskt samfélag að verða af menntun einstaklinga sem myndi gjarnan vilja mennta sig en geta það ekki?

Staðreyndin er sú að stuðningur við stúdenta hefur víðtækari áhrif en innan háskólasamfélagsins. Skortur á stuðningi hefur bein áhrif á þekkingarsköpun þjóðarinnar og mönnun mikilvægra starfsstétta.

Lífskjararannsókn stúdenta

Það er af þessum ástæðum sem Landssamtök íslenskra stúdenta og Bandalag háskólamanna leggja fyrir lífskjararannsókn stúdenta. Þetta er í fyrsta skipti sem könnunin er lögð fyrir og er markmið hennar að kanna efnahags- og samfélagslega stöðu stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta erlendis. Því fleiri sem svara því betri innsýn fáum við í stöðu og hagi stúdenta í íslensku samfélagi.

Undirrituð hvetur alla háskólanema að taka könnunina en hana má finna á skólanetföngum allra nemenda við íslenska háskóla sem og þeirra sem skráð eru í Samband íslenskra námsmanna erlendis.

Ég væri að minnsta kosti til í að vita hvort stúdentar hafa tök á því að fara til tannlæknis.

Höfundur er Alexandra Ýr van Erven, forseti LÍS

Greinin birtist á visir.is 8. apríl og var til umræðu á Bylgjunni 9. apríl.

Read More