Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Ættu konur að fara í háskólanám?

Konur á Íslandi mennta sig meira en nokkru sinni fyrr, en fá samt minnst út úr menntun sinni.

Ávinningur af háskólanámi hefur aldrei verið minni, og það er sérstaklega áberandi hjá ungum konum.

Samkvæmt nýjustu gögnum BHM og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þéna háskólamenntaðar konur að jafnaði á við karla með stúdentspróf. Árið 2022 fengu konur að meðaltali 83 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem karlar fengu. Launamunurinn byrjar snemma og eykst með aldrinum, úr 16% hjá ungu fólki í 26% þegar líður á starfsævina. Þetta hefur bein áhrif á lífsgæði, lífeyrisréttindi og efnahagslegt sjálfstæði kvenna.

Á sama tíma hefur ávinningur af háskólanámi dregist saman um nær 40% á síðustu fimmtán árum. Fyrir yngstu hópana, 25–34 ára, hefur hann minnkað úr 48% niður í 21%. Það þýðir að unga kynslóðin fær nú aðeins helming þess ávinnings sem foreldrar þeirra nutu á sínum tíma.

Þó hlutfallslegur ávinningur virðist hærri hjá konum (28%) en körlum (19%), er það blekking. Hann endurspeglar ekki raunverulegan launamun heldur lágar tekjur kvenna almennt. Háskólamenntaðar konur eru í raun með svipuð laun og karlar sem hafa aðeins lokið framhaldsskóla. Í stuttu máli: konur mennta sig mest, en virði menntunar þeirra er minnst.

Þær eru í miklum meirihluta háskólanema (58% á móti 31% körlum) og bera uppi störf sem halda samfélaginu gangandi – í heilbrigðisþjónustu, kennslu og umönnun – en fá samt sífellt minna greitt fyrir meiri ábyrgð og menntun.

Þróunin er ekki aðeins óréttlát, hún er hættuleg. Hún sendir skýr skilaboð til ungra kvenna: að fjárfesting í eigin menntun borgi sig síður en áður. Að samfélagið umbuni hvorki vinnu þeirra né þekkingu. Þegar konur eru í meirihluta í háskólum, í velferðarkerfinu og í opinbera geiranum lækkar ávinningurinn. Það er ekki vegna þess að menntun er minna virði, heldur vegna þess að samfélagið metur kvennastörf minna.

Til þess er Kvennaverkfall. Ekki vegna þess að við erum að krefjast sætis við borðið - við erum með sæti við borðið þökk sé skörungunum sem ruddu veginn fyrir fimmtíu árum síðan. Í ár förum við í kvennaverkfall því við krefjumst þess að vinnandi konur búi ekki við kynjaðan launamismun og að menntun þeirra sé ekki gjaldfelld. Við krefjumst þess að mikilvægi kvenna sem vinnandi samfélagsþegna sjáist hvað launakjör varðar, og að lykilgreinar sem nú einkennast af meirihluta kvenna séu ekki gjaldfelldar. Við krefjumst þess að konur þurfi ekki að veigra sér við háskólanámi fyrir dæmigerð kvennastörf því þær vita að launin þeirra muni ekki endurspegla ólaunaða starfnámið, álagið sem fylgdi láglaunastarfinu sem þær vinna til að eiga efni á námi sínu og jafnvel móðir, eða ábyrgðina sem fylgir sérfræðimenntun þeirra og starfi að námi loknu.

Við krefjumst þess að fólkið sem kennir börnunum okkar, unglingunum okkar og stúdentunum sem vilja verða sérfræðingar á sínu sviði fái vinnuframlag sitt, sérfræðiþekkingu og ábyrgð metna að verðleikum. Við krefjumst þess að fólkið sem hjúkrar sjúklingum og axlar ábyrgð langt umfram vinnuskyldu á deildum spítala fái sanngjörn laun fyrir það mikilvæga starf sem það vinnur í þágu velferðarsamfélags okkar. Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir lykilstörf sem sinnt er af miklum meirihluta af konum í samfélaginu okkar, en meginstefið er: Við krefjumst þess að svokallaðar kvennastéttir fái raunverulegt virði framlags síns metið. Ekki bara með fögrum þakkarorðum og loforðum heldur með beinhörðum peningum.

Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Íris Björk Ágústsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 24. október 2025

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?

Lísa Margrét, forseti LÍS, flutti ávarp á málþingi sem fjórir íslenskir háskólar stóðu fyrir 14. október undir yfirskriftinni „Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?“. Málþingið var haldið í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.

Á málþinginu var rætt um ávinning og áskoranir þátttöku íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum, áhrif þeirra á nemendur, starfsfólk og samfélagið, auk umræðu um framtíð slíks samstarfs.

Í ávarpi sínu lagði Lísa Margrét áherslu á að kjarninn í evrópskum háskólanetum séu samfélögin innan háskólanna - nemendur, kennarar og fræðafólk - en ekki stofnanirnar einar og sér. Hún benti á að þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til náms og samstarfs innan Evrópu viti færri en fjórðungur íslenskra stúdenta af þeim möguleikum sem standa til boða.

Lísa Margrét ræddi einnig mikilvægi þess að tryggja einfalt og aðgengilegt ferli fyrir stúdenta, auk sveigjanlegra námsleiða og sjálfvirkrar viðurkenningar náms milli landa. Þá undirstrikaði hún að íslenskir háskólar þurfi að viðhalda virku samstarfi og samtali við stúdentahreyfinguna við þróun evrópskra háskólaneta og að rödd og reynsla stúdenta endurspeglist í þeirri vinnu.

LÍS fagnar virku alþjóðasamstarfi íslenskra háskóla sem stuðlar að aukinni tengingu milli fræðasamfélaga, eflir menntun og styrkir fjölbreytt og alþjóðlegt háskólasamfélag á Íslandi.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

LÍS mótmælir fyrirhuguðum hækkunum á skrásetningargjöldum háskóla

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) harma ákvörðun stjórnvalda um að heimila opinberum háskólum að hækka skrásetningargjald úr 75.000 kr. í allt að 100.000 kr. Samtökin minna á að árið 2023 var gjaldið úrskurðað ólögmætt og enn er beðið niðurstöðu áfrýjunarnefndar í endurupptöku málsins.

„Þessi ákvörðun er ekki aðeins ósanngjörn heldur stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands,“ segir Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og vísar til 13. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þar sem kveðið er á um að æðri menntun skuli vera öllum aðgengileg og þróunin stefna að því að hún verði ókeypis.

Hækkun leysir ekki undirfjármögnun háskólanna

LÍS bendir á að hækkun skrásetningargjalda nægi ekki til að rétta af viðvarandi undirfjármögnun háskólakerfisins. Á sama tíma felur hækkunin í sér verulega aukningu útgjalda fyrir hinn almenna stúdent.

Samkvæmt nýjustu könnun Eurostudent glímir yfir 30% íslenskra háskólanema við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda. Fjárhagsáhyggjur stúdenta eru hvergi meiri á Norðurlöndunum. Þá hefur kaupmáttur ungs fólks staðið í stað í tvo áratugi og arðsemi háskólamenntunar aldrei verið minni, samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir BHM.

Stúdentar bera þegar þungar byrðar

„Það skýtur skökku við að draga úr hvata til náms með því að auka fjárhagsbyrðar stúdenta á þessum tíma,“ segir Lísa Margrét. Hún bendir á að 74% háskólanema á vinnumarkaði starfi með námi til að eiga efni á námi sínu og að meira en þriðjungur íslenskra stúdenta séu foreldrar í námi.

Krafa LÍS til stjórnvalda

Í ljósi nýútgefinnar skýrslu OECD krefjast LÍS þess að stjórnvöld bregðist við rót vandans með því að tryggja grunnfjármögnun háskólastigsins til jafns við meðaltal OECD-ríkja, í stað þess að velta kostnaði yfir á stúdenta sem þegar búa við efnahagslegt óöryggi og ófullnægjandi námslánakerfi.

Lesa má nánar yfirlýsinguna í heild hér.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Stúdentar á árlegri ráðstefnu Gæðamats háskóla

Árleg ráðstefna Gæðamats háskóla (IAQA) fór fram 17. september í Listaháskóla Íslands. Þar var meðal annars haldið pallborð þar sem stúdentar ræddu reynslu sína og áskoranir í háskólanámi. Gaga Gvenetadze, stjórnarmaður í Gæðamati háskólanna, leiddi pallborðið.

Íris Björk Ágústsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, lagði áherslu á andlega heilsu stúdenta, kulnun og mikilvægi þess að háskólar veiti stuðning til nemenda sem glíma við ýmsar áskoranir.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir, fyrrverandi forseti SÍNE, benti á réttindaleysi stúdenta til fæðingarorlofs og ósveigjanleiki í kerfinu gagnvart foreldrum í námi.

Silja Rún Friðriksdóttir, fyrrverandi forseti SHA, ræddi um mikilvægi sveigjanleika í námi svo að stúdentar geti skipulagt sig sem best með vinnu og félagslíf. Auk þess lagði hún áherslu á opið og traust samtal milli stúdenta og háskóla.

Anamarija Veic, formaður FEDON, fjallaði um stöðu alþjóðlegra stúdenta og mikilvægi þess að styrkja fræðslu til leiðbeinenda doktorsnema, þar sem velferð doktorsnema er ekki síður mikilvægur en fjármögnun rannsókna.

Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, undirstrikaði að háskólanám ætti að vera eins sveigjanlegt og einstaklingsmiðað og kostur er, til að tryggja sem best rétt stúdenta að stunda nám.

Ráðstefnan var vettvangur fyrir mikilvæga umræðu um hvernig háskólar geta betur mætt þörfum fjölbreytts hóps stúdenta og tryggt að rödd þeirra heyrist.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

LÍS, Q-félagið og ERGI lýsa yfir samstöðu með hinsegin stúdentum

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), Q–félag hinsegin stúdenta og ERGI – Félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi hafa sameinast um stuðningsyfirlýsingu við hinsegin stúdenta. Í yfirlýsingunni fordæma samtökin orðræðu og aðgerðir sem grafa undan tilvist, sjálfsvirðingu og öryggi trans og kynsegin fólks á Íslandi.

Að sögn samtakanna hefur hinsegin fólk á Íslandi, og þá sérstaklega trans og kynsegin einstaklingar, orðið vitni að aukinni andstöðu í samfélagsumræðu á undanförnum misserum. Þessi þróun birtist meðal annars í ummælum stjórnmálafólks, neikvæðri og takmarkaðri fjölmiðlaumfjöllun og auknum árásum á rétt trans og kynsegin fólks til að vera sýnilegt og njóta öruggs aðgengis að almannarýmum og þjónustu.

„Slíkt á ekki heima í samfélagi sem kennir sig við mannréttindi, jafnrétti og velferð allra,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin skora á háskóla, menntastofnanir og samfélagið allt að fordæma hatursorðræðu og fordóma, tryggja öruggt og aðgengilegt námsumhverfi fyrir öll, styðja við fræðslu og rannsóknir sem efla sýnileika og öryggi hinsegin stúdenta, og sýna skýra samstöðu með þeim sem standa veikt fyrir í opinberri umræðu.

„Fjölbreytileiki er styrkur hverrar þjóðar og það er hlutverk stúdenta og fræðafólks nú sem áður að standa vörð um upplýst og opið samfélag,“ segir í lok yfirlýsingarinnar sem undirrituð er af Lísu Margréti Gunnarsdóttur, forseta LÍS.

Lesa má stuðningsyfirlýsinguna í heild hér: STUÐNINGSYFIRLÝSING 15. SEPT. 2025

Read More