BM79 - Fulltrúar LÍS á Evrópuþingi stúdenta
Síðastliðinn októbermánuð sóttu fulltrúar LÍS aðalþing (e. Board Meeting) Evrópusambands Stúdenta (European Students’ Union - ESU) en þar fer almennt fram tvisvar á ári, að vori og aftur að hausti. Í ljósi aðstæðna var þingið haldið rafrænt en viðburðarhald var í höndum Landssamtaka Stúdenta í Ungverjalandi, HÖOK, ásamt stjórn ESU. Viðmót fundarins takmarkaði fjölda þátttakenda við tvo fulltrúa frá hverju aðildarfélagi en þess ber að nefna að LÍS senda að jafnaði þrjá fulltrúa á þing samtakanna. Í þetta skipti sóttu þingið alþjóðafulltrúi LÍS, Sylvía Lind Birkiland, og forseti samtakanna, Jóhanna Ásgeirsdóttir.
Þingið sjálft stóð yfir í þrjá daga en undanfari þeirra voru tveir dagar af málstofum og fyrirlestrum þar sem kafað var í ýmis viðfangsefni þingfundarins. Einnig fóru fram þá daga framboðsræður til nýrrar stjórnar ESU sem var í þetta skipti kosin til sex mánaða eða fram að næsta vorþingi, enda fara kosningar almennt fram að vori.
Auk kosningar nýrrar stjórnar voru tekin fyrir fjölda málefna á þingfundinum sjálfum. Valdar stefnur og skjöl samtakanna voru tekin til endurskoðanir ásamt því að ný skjöl voru innleidd: Sáttmáli um stefnu ESU í geðheilbrigðismálum stúdenta sem og yfirlýsing samtakanna um húsnæðis- og samgöngumálefni stúdenta sem fellur undir stefnu um félagslega vídd. LÍS fagnar tilkomu beggja skala en þó sérstaklega þess fyrrnefnda sem miðar að því að þrýsta á úrræði tengd geðheilbrigðismálum en LÍS hafa unnið hart að því að beita sér fyrir málefninu, meðal annars með herferðinni „Geðveikt álag“.
LÍS hefur undanfarin misseri átt í nánum samskiptum við MFS, Landsamtökum Færeyskra stúdenta, sem nú standa í umsóknarferli þar sem þau sækjast eftir að aðild að ESU. Kosið var um aðildarumsókn þeirra og samþykkti þingið að veita MFS svokallaða kandídatsaðild sem er aðild án kosningarétts. Í kjölfarið mun teymi fulltrúa frá ESU heimsækja samtökin og kynna sér þeirra starfsemi en niðurstöður teymisins verða bornar upp við þingið að ári liðnu sem svo kýs hvort veita skuli MFS fulla aðild.
Þess ber að nefna að alþjóðafulltrúi LÍS mun eiga sæti í heimsóknarteymi ásamt fulltrúum frá landssamtökum stúdenta í Ungverjalandi og Þýskalandi en val fulltrúa fór fram á þinginu í kjölfar aðildarkosningarinnar. LÍS óskar MFS innilega til hamingju með árangurinn sem er afrakstur áralangs undirbúnings og hafa fulltrúar LÍS tröllatrú á nágrönnum okkar en ekki er óralangt síðan LÍS stóðu í svipuðum sporum. Samtökin fengu kandídatsaðild árið 2015 og urðu fullgildur meðlimur ári seinna en þau tóku þar með við keflinu af Stúdentaráði Háskóla Íslands sem þar til hafði átt sæti í stjórn ESU fyrir hönd íslenskra stúdenta.
Á þingum samtakanna tíðkast gjarnan að aðildarfélög kalli eftir stuðningi annarra meðlima við málefni sem varðar aðstæður í þeirra heimalandi en um er að ræða málefni sem snerta stúdenta að einhverju leiti, beint eða óbeint. Að þessu sinni var kallað eftir stuðningi þingsins varðandi tvö málefni en bæði snerta þau á réttindum almennra borgara og þar með stúdenta. Þingið samþykkti einróma samstöðu með stúdentum í Belarus en þess ber að nefna að LÍS sendi frá sér yfirlýsingu þess strax í kjölfarið og ásamt því að falast eftir stuðningi Mennta- og menningarmálaráðherra við sameiginlega yfirlýsingu ráðherra Evrópska háskólasvæðisins (e. EHEA) þessa efnis. Einnig sýndu meðlimir ESU samstöðu með mótmælendum í póllandi vegna frumvarps á Pólska þinginu sem miðar að því að þrengja til munar lög um þungunarrof þar í landi.