
Opið fyrir svör í EUROSTUDENT VII könnunina
EUROSTUDENT könnunin er yfirgripsmikil könnun sem er lögð fyrir stúdenta í 28 mismunandi löndum og nær til fjölda félagslegra þátta um stúdentahópinn. Ísland tók fyrst þátt í EUROSTUDENT VI en niðurstöður þess voru birtar í mars 2018. Það var í fyrsta skipti sem stúdentar, stjórnendur háskólanna og aðrir aðilar höfðu aðgengi að opinberum upplýsingum um stúdentahópinn.
EUROSTUDENT könnunin er yfirgripsmikil könnun sem er lögð fyrir stúdenta í 28 mismunandi löndum og nær til fjölda félagslegra þátta um stúdentahópinn. Ísland tók fyrst þátt í EUROSTUDENT VI en niðurstöður þess voru birtar í mars 2018. Það var í fyrsta skipti sem stúdentar, stjórnendur háskólanna og aðrir aðilar höfðu aðgengi að opinberum upplýsingum um stúdentahópinn.
Nú hefur EUROSTUDENT könnunin verið send út til stúdenta á nýjan leik. Eins og kemur fram í gæðastefnu LÍS eru haldbærar tölfræðiupplýsingar um stúdentahópinn lykilatriði til þess að mögulegt sé að móta heildstæða menntastefnu. Samkvæmt mennta- og menningarmálaráðherra er vinna að menntastefnu Íslands til 2030 hafin og ætti slík vinna tvímælalaust að byggjast á niðurstöðum fyrrnefndrar könnunnar. Svörun könnunarinnar liggur í höndum stúdenta, þess vegna hvetja LÍS alla stúdenta til þess að gefa sér tíma og svara henni. Sem stendur eru opinber tölfræði um samsetningu hópsins og framgang í námi eða aðrar almennar upplýsingar um stúdenta af skornum skammti. Safna þarf slíkum upplýsingum með sérstöku tilliti til félagslegrar víddar (e. Social Dimension) en upplýsingar af því tagi geta gert stjórnendum háskólanna og stjórnvöldum kleift að kortleggja þær hindranir sem liggja í vegi stúdenta innan háskólakerfisins og skapa skýra aðgengisáætlun fyrir háskólakerfið með upplýstum hætti.
Niðurstöður EUROSTUDENT VI má finna hér.
Sonja Björg Jóhannsdóttir kjörin nýr forseti LÍS á landsþingi
Helgina 29.-31. mars fór Landsþing landssamtaka íslenskra stúdenta - LÍS fram í háskólanum á Bifröst. Yfirskrift þingsins var Sjálfbærni og háskólasamfélagið - hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Þriðji og jafnframt síðasti dagur landsþings LÍS 2019 hófst á áframhaldandi vinnustofu um forgangsröðun á heimsmarkmiðum SÞ. Tilgangur vinnustofunnar var að draga saman áherslur þingfulltrúa úr fyrri vinnustofum. Ljóst er að heimsmarkmiðin ná yfir víðan völl en komu þingfulltrúar sér saman um undirmarkmið sem LÍS geta beitt sér fyrir. Niðurstöður vinnustofanna munu nýtast sem efniviður fyrir mótun á stefnu LÍS í sjálfbærni. Stefnan verður lögð fyrir landsþing LÍS á næsta starfsári.
Frá vinnustofum
Helgina 29.-31. mars fór Landsþing landssamtaka íslenskra stúdenta - LÍS fram í háskólanum á Bifröst. Yfirskrift þingsins var Sjálfbærni og háskólasamfélagið - hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Þriðji og jafnframt síðasti dagur landsþings LÍS 2019 hófst á áframhaldandi vinnustofu um forgangsröðun á heimsmarkmiðum SÞ. Tilgangur vinnustofunnar var að draga saman áherslur þingfulltrúa úr fyrri vinnustofum. Ljóst er að heimsmarkmiðin ná yfir víðan völl en komu þingfulltrúar sér saman um undirmarkmið sem LÍS geta beitt sér fyrir. Niðurstöður vinnustofanna munu nýtast sem efniviður fyrir mótun á stefnu LÍS í sjálfbærni. Stefnan verður lögð fyrir landsþing LÍS á næsta starfsári.
Ályktanir landsþings
Eftir vinnustofurnar voru borin upp þrjú önnur mál sem þingið tók afstöðu til. Í fyrsta lagi var ályktun LÍS um nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna - LÍN fyrir skólaárið 2019 - 2020 tekin fyrir. Lesa má nánar um ályktunina hér. Í öðru lagi lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands - SHÍ fram tillögu um að LÍS myndi fara fyrir hönd ráðsins með stuðningstillögu varðandi afstöðu SHÍ gegn tanngreiningum á hælisleitendum innan menntastofnanna á þing European Students Union - ESU í maí. Sömuleiðis óskaði SHÍ eftir því að þing ESU myndi taka til umfjöllunar afstöðu stúdenta í Evrópu gagnvart tanngreiningum innan menntastofnanna. Tillagan var samþykkt einróma. Það er ómetanlegt fyrir íslenska stúdenta að hafa aðgang að vettvangi eins og ESU þar sem hægt er að vekja alþjóðlega athygli á stöðu mála hér á landi sem og sækja stuðning frá stúdentum út um allan heim. Þetta er í fyrsta skipti sem aðildarfélag LÍS biður um að sótt sé eftir stuðningi á þennan máta. Í þriðja lagi barst tillaga frá Stúdentaráði Háskólans á Akureyri - SHA um að næsta landsþing LÍS færi fram á Akureyri. Sú tillaga var sömuleiðis samþykkt.
Kosningar til framkvæmdastjórnar
Í lok dags fóru fram kosninsgar til embætta innan framkvæmdastjórnar LÍS. Alls bárust átta framboð í embætti framkvæmdastjórnar, en að kosningum loknum var framkvæmdastjórn starfsársins 2019-2020 fullskipuð. Mörg spennandi verkefni bíða nýkjörinnar framkvæmdastjórnar, en nú kemur í hönd skiptatímabil þar sem fráfarandi og nýkjörin framkvæmdastjórn vinna saman að því að kynna verkefni embætta og stjórnar fyrir nýjum meðlimum.
Eftirfarandi eru meðlimir framkvæmdastjórnar LÍS starfsárið 2019 - 2020:
Forseti - Sonja Björg Jóhannsdóttir
Varaforseti - Sigrún Jónsdóttir
Alþjóðafulltrúi - Jóhanna Ásgeirsdóttir
Fjáröflunarstjóri - Aníta Eir Jakobsdóttir
Markaðstjóri - Polina Diljá Helgadóttir
Gæðastjóri - Eygló María Björnsdóttir
Jafnréttisfulltrúi - Anastasía Jónsdóttir
Ritari - Hjördís Sveinsdóttir
Nýkjörin framkvæmdastjórn
Efri röð frá vinstri: Eygló María, Sonja Björg og Anastasía
Neðri röð frá vinstri: Hjördís, Aníta Eir, Sigrún, Polina Diljá og Jóhanna
Landsþing LÍS ályktar um nýjar úthlutunarreglur LÍN
Landssamtök íslenskra stúdenta senda frá sér ályktun um nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna - LÍN fyrir skólaárið 2019-2020. Ályktun þessi var samþykkt einróma á landsþingi LÍS í dag þar sem tæplega 60 stúdentafulltrúar frá öllum háskólum á Íslandi sem og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis komu saman. Landsþing LÍS fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna.
Landssamtök íslenskra stúdenta senda frá sér ályktun um nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna - LÍN fyrir skólaárið 2019-2020. Ályktun þessi var samþykkt einróma á landsþingi LÍS í dag þar sem tæplega 60 stúdentafulltrúar frá öllum háskólum á Íslandi sem og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis komu saman. Landsþing LÍS fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna.
Í janúar síðastliðnum vöktu stúdentar athygli á kröfum sínum í herferð undir yfirskriftinni „Stúdentar mega ekki hafa það betra – stúdentar þurfa líka að lifa af laununum sínum“ þar sem lögð var megináhersla á hækkun grunnframfærslu og frítekjumarks við endurskoðun á úthlutunarreglum LÍN. Jafnframt hafa stúdentar ítrekað sett kröfur sínar fram og komið þeim áleiðis til stjórnvalda.
Í ályktuninni kemur meðal annars eftirfarandi fram:
Stúdentar fagna því að frítekjumarkið sé hækkað í 1.330.000 kr. úr 930.000 kr. Ljóst er að hækkun frítekjumarks í nýjum úthlutunarreglum er eðlileg og löngu tímabær.
Skerðingarhlutfall sem leggst á lán er tekjur lántakenda fara yfir frítekjumark var hækkað í 45% árið 2014. Það var gert svo hægt væri að hækka frítekjumarkið þrátt fyrir niðurskurðarkröfu sem þá lá á sjóðnum. Sú aðgerð átti að vera tímabundin til að bregðast við þáverandi ástandi og því með öllu óásættanlegt að fimm árum síðar sé ekki enn búið að lækka skerðingarhlutfallið aftur niður í 35%.
Alvarleg athugasemd er sett við það að framfærslan standi í stað í nýjum úthlutunarreglum og enn fremur að hún taki ekki mið af verðlagsbreytingum. Það er í raun ígildi lækkunar þar sem óbreytt krónutala á framfærslu felur í sér lækkun á kaupmætti. Stúdentar fara fram á það að endurskoðun á grunnframfærslu eigi sér stað með sérstöku tilliti til húsnæðisgrunns þar sem gert er ráð fyrir að allir lánþegar sæki og fái hámarkshúsnæðisbætur.
Vonbrigði eru að ekki hafi verið samþykkt að stúdentar í námi erlendis fái lánað fyrir ferðalögum fram og til baka einu sinni á hverju ári. Í núverandi reglum fá stúdentar erlendis aðeins lán fyrir einni ferð út og annarri ferð heim meðan á öllum námsferlinum stendur. Það setur stúdenta sem hafa ekki færi á að vinna í því landi sem þau stunda nám, í erfiða stöðu enda þurfa þeir þá að fljúga til Íslands í þeim tilgangi.
Stúdentar ítreka gerðar kröfur um að lækka lágmarksframvindukröfur LÍN úr 22 einingum í 18 einingar á önn, líkt og áður var. Jafnframt að lánshæfum einingum fjölgi úr 480 einingum í 600 einingar þar sem mikilvægt er að stúdentar njóti svigrúms til að stunda fjölbreytt nám.
Tilefni er til þess að árétta að munur er á annars vegar úthlutunarreglum og hins vegar lögum um LÍN sem eru í endurskoðun. Verði hugmyndir mennta- og menningarmálaráðherra um nýtt lánasjóðskerfi að veruleika, meðal annars um niðurfellingu á hluta lána að loknu námi, standa úthlutunarreglur þó óbreyttar þannig að kjör stúdenta á meðan námi stendur breytast ekki með nýju lánasjóðskerfi.
Ályktunina í heild sinni má nálgast hér.
Annar dagur landsþings LÍS 2019 - Stefna um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi samþykkt
Annar dagur landsþings hófst með tillögu framkvæmdastjórnar að verk- og fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2019-2020 þar sem farið var í gegnum breytingatillögur sem fengu einróma samþykki. Þrír fyrirlesarar fóru í framhaldinu með erindi. Það voru þær Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ, og Rakel Guðmundsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Annar dagur landsþings hófst með tillögu framkvæmdastjórnar að verk- og fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2019-2020 þar sem farið var í gegnum breytingatillögur sem fengu einróma samþykki. Þrír fyrirlesarar fóru í framhaldinu með erindi. Það voru þær Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ, og Rakel Guðmundsdóttir, stjórnmálafræðingur. Fanney lýsti framgangi vinnu innan forsætisráðuneytis um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig móttökur innan samfélagsins hafa verið. Lára flutti erindi þar sem hún fjallaði um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð þar sem sérstök áhersla var lögð á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og atvinnulífs með innsýn í það hvernig stúdentar og háskólasamfélagið geta stuðlað og beitt sér fyrir breytingum þar fyrir innan. Rakel fjallaði um vistvæna neysluhyggju sem takmarkaða lausn við loftslagsvandanum með sérstakri áherslu á sína eigin reynslu hvað varðar skort á tækifærum í námi um umhverfismál og persónuleg framtök til þess að stuðla að vistvænni neyslu. Innlegg hennar var mikilvæg og persónuleg innsýn í umfangsefnið og gaf einnig hugmynd um þá þætti sem hægt er að hafa áhrif á frá sjónarhorni stúdenta..
Einnig fóru fram vinnustofur þar sem unnið var út frá forgangsröðun stúdenta að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fór fram á fyrsta degi landsþings. Upp komu margar hugmyndir að efnivið sem verður nýttur til að móta stefnu LÍS um sjálfbærni á næsta starfsári
Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, kynnir stefnu samtakanna um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi.
Framkvæmdastjórn LÍS lagði fram nýja stefnu um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi. Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS kynnti stefnuna. Bæði framkvæmdastjórn LÍS og aðildarfélög sendu inn breytingatillögur að stefnunni og eftir samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og var jafnréttisstefna samþykkt einróma af fulltrúum stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta á erlendri grundu.
Þetta markar tímamót í sögu LÍS þar sem þetta er fyrsta jafnréttisstefnan sem íslenskir stúdentar hérlendis sem og íslenskir stúdentar á erlendri grundu koma að. Í jafnréttisstefnunni eru tekin fyrir helstu málefni er varða jafnréttismál stúdenta, m.a. jafnt aðgengi að námi, fjölbreytileiki innan háskólasamfélagsins, kennsla og heilsa stúdenta. Undirstaða jafnréttis er aðgengi en það er hugtak sem lýsir hve vel umhverfi þjónar þörfum hvers og eins einstaklings. Háskólanám á að vera opið öllum, óháð aldri, efnahag, félagslegum aðstæðum, búsetu, fötlun, litarhafti, kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, kynþætti, skoðunum, trú, uppruna, veikindum eða annarri stöðu. Jafnt aðgengi felst ekki einungis í því að tryggja aðgengi að námi, heldur einnig á meðan námi stendur. Háskólar á Íslandi eiga að fagna fjölbreytileika innan sinna veggja og sjá til þess að tækifæri allra til þátttöku séu tryggð. Jafnt aðgengi að námi er ekki raunverulega uppfyllt nema að stúdentahópurinn endurspegli samfélagið með fullnægjandi hætti. Hér má nálgast nýsamþykkta stefnu LÍS um jafnrétti í íslensku háskólasamfélagi.
Fyrsti dagur landsþings LÍS 2019 - Sjálfbærni og háskólasamfélagið
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, forseti LÍS, setti sjötta landsþing samtakanna í dag, þann 29. mars 2019, en í framhaldi fylgdu ávörp frá Elísabetu Brynjarsdóttur, forseta SHÍ, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. Landsþingið var skipulagt með SHÍ og ber yfirheitið Sjálfbærni og háskólasamfélagið - Hver er okkar samfélagslega ábyrgð?
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, forseti LÍS, setti sjötta landsþing samtakanna í dag, þann 29. mars 2019, en í framhaldi fylgdu ávörp frá Elísabetu Brynjarsdóttur, forseta SHÍ, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ. Landsþingið var skipulagt með SHÍ og ber yfirheitið Sjálfbærni og háskólasamfélagið - Hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Þingið fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna en þar koma saman fulltrúar frá öllum aðildarfélögum LÍS. Framkvæmdastjórn kynnti ársskýrslu samtakanna og fjármálastjóri LÍS bar ársreikning samtakanna upp til samþykktar í upphafi dags.
Þingfulltrúar við setningu landsþings.
Einnig lagði framkvæmdastjórn LÍS fram nýja stefnu um alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi. Salka Sigurðardóttir, alþjóðafulltrúi LÍS, kynnti stefnuna sem byggð er á alþjóðastefnu samtakanna frá 2016. Eftir samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og ný stefna var samþykkt einróma af fulltrúum stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta á erlendri grundu. Markviss stefna um alþjóðavæðingu íslensks háskólasamfélags er nauðsynlegt skref í átt að samkeppnishæfara menntakerfi, víðsýnna samfélagi, fjölbreyttara vinnuafli og öflugra fræðastarfi. Alþjóðavæðing hefur einfaldað tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að auknum og hraðari samskiptum. Til grundvallar þessarar stefnu liggur sú hugmynd að jöfn tækifæri til náms, jafnt innanlands sem erlendis, séu ein af undirstöðum farsæls samfélags. Í stefnunni er meðal annars fjallað um hreyfanleika stúdenta og akademísks starfsfólks og er lögð sérstök áhersla á hreyfanleika akademísks starfsfólks og kennarastéttar enda er alþjóðleg reynsla ein áhrifaríkasta leiðin til að auka fjölbreytni í námi og kennsluaðferðum. Sömuleiðis er fjallað um þær hindranir sem steðja annars vegar að íslenskum stúdentum sem stunda nám erlendis og hins vegar alþjóðlegum stúdentum hér á landi. Síðasti kafli stefnunnar snertir á aðgengi flóttafólks og innflytjenda að námi og mikilvægi þess að fyrrnefndir hópar fái fyrra nám viðurkennt á Íslandi. Hér má nálgast nýsamþykkta stefnu LÍS um alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt erindi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti fyrstu tillögur að nýju lánasjóðsfrumvarpi sem fer í opið samráð í júní. Í kjölfarið voru góðar umræður milli landsþingsfulltrúa og ráðherra um nýsamþykktar úthlutunarreglur, fjármálaáætlun og menntastefnu. Öflugt samtal ráðherra og stúdenta er mikilvægt og þá ekki síst á samráðsvettvangi líkt og landsþingi stúdenta.
Tveir fyrirlesarar fluttu erindi er sneru að yfirskrift landsþingsins í ár. Það voru þau Birgitta Stefánsdóttir, sem er sérfræðingur í teymi græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, og Jens Bonde Mikkelsen, sem sinnir stöðu þróunarráðgjafa innan landssamtaka danskra stúdenta. Birgitta starfar aðallega á sviði umhverfismerkja og úrgangs en einnig almennt í verkefnum tengdum neyslu. Erindi hennar bar heitið ,,Í átt að sjálfbærari framtíð”. Jens fjallaði um danskt sjónarhorn á sjálfbærni og hlutverk stúdenta í að efla sjálfbærni innan síns umhverfis. Eftir fyrirlestrana voru allir þátttakendur beðnir um að kjósa um þau atriði innan heimsmarkmiðanna sem þau telja að eigi að leggja áherslu á í þeim vinnustofum sem fram fara á öðrum degi landsþings.
Þingfulltrúar forgangsraða heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.
Lagabreytingar samtakanna fóru einnig fram á landsþingi með venjubundnum hætti. Breytingar voru gerðar á ársgjöldum aðildarfélaga LÍS sem og ákveðið að á næsta starfsári samtakanna yrði ráðinn inn framkvæmdastjóri LÍS. Með innkomu framkvæmdastjóra mun hlutverk fjármálastjóra breytast og þótti því eðlilegt að breyta heiti embættisins í fjáröflunarstjóri. Framkvæmdastjórn lagði einnig til að heiti embættis formanns yrði breytt í forseta og þar af leiðandi yrði varaformaður að varaforseta. Í ljósi þess að LÍS eru samtök sem berjast fyrir jafnrétti allra kynja þá gera samtökin sér grein fyrir kynjaðri hlutdrægni innan samfélagsins. Hluti af þessu er að viðurkenna kynjaða málnotkun og að brjóta hana niður til þess að tryggja jafnt aðgengi og vellíðan allra í starfi samtakanna. LÍS þurfa að gera sér grein fyrir stöðu sinni og hvaða áhrif þau orð sem nýtt eru í daglegu starfi hafa. Með því að taka skref í átt að ókynjaðara máli sendum við bæði þau skilaboð að við gerum okkur grein fyrir þessu og að við viljum taka skref í átt að opnari samtökum. Þetta er einnig fordæmisgefandi og vonast samtökin til þess að þetta verði til eftirbreytni í samfélaginu öllu. Þessi breyting er einnig í takt við ígildi þessarar stöðu í öðrum félagasamtökum og landssamtökum stúdenta á alþjóðavísu. Þá var einnig lögð fram sú tillaga að breyta heiti alþjóðaforseta í alþjóðafulltrúa til að samræma titla við önnur stúdentafélög, sem var samþykkt einróma af þinggestum landsþings.