Fulltrúaráðsfundur 15. maí
Mánudaginn 15. maí kl 17:00 verður haldinn fundur hjá fulltrúaráði LÍS.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta að sækja fundina. Að þessu sinni er fundurinn haldinn á 4. hæði í Borgartúni 6 (sali BHM). Fulltrúar í fulltrúaráði geta nálgast fundargögn á heimasvæði fundarins.
Dagksrá fundarins er eftirfarandi:
Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar
Fréttir
Aðildargjöld
Ályktun um flóttafólk í háskólanámi
Innritunargátt háskólanna
Landsþingsuppgjör
Menntasjóðsherferð
Herferð BHM og LÍS
Ráðning sumarstarfsmanns (eingöngu opið fyrir fulltrúa í fulltrúaráði)
Önnur mál (19:25-19:30)
Landssamtök íslenskra stúdenta auglýsa sumarstarf fyrir háskólanema // Summer job for a student at LÍS
Um er að ræða stöðu til þriggja mánaða með starfsaðstöðu á skrifstofu Landssamtakanna og möguleika á fjarvinnu. Starfið felst í að framkvæma rannsókn á högum foreldra í námi og verður unnið undir handleiðslu tveggja leiðbeinenda við Háskóla Íslands. Leitað er að háskólanema sem býr yfir þekkingu á tölfræði og framkvæmd rannsókna. Starfið hentar einkar vel fyrir nemendur í stjórnmálafræði, félagsfræði, sálfræði eða öðrum greinum þar sem lögð er stund á tölfræðirannsóknir.
Um verkefnið:
Verkefninu er ætlað að dýpka þekkingu og skilning á stöðu foreldra í háskólanámi. Niðurstöður evrópsku rannsóknarinnar, Eurostudent, benda til þess að um þriðjungur háskólanema á Íslandi eigi eitt eða fleiri börn, sem er mun hærra hlutfall en annars staðar í Evrópu. Brýnt er að afla upplýsinga um hvort stúdentar með börn búi við aðrar aðstæður til náms en stúdentar án barna, þar sem aukin þekking á stöðu mismunandi hópa stúdenta er forsenda vinnu við að tryggja jafnrétti til náms. Í verkefninu verða aðstæður stúdenta rannsakaðar með því að leggja spurningalista fyrir nemendur í öllum háskólum landsins. Ætlunin er að bera saman stúdenta með börn og stúdenta án barna, stúdenta utan af landi og stúdenta frá höfuðborgarsvæðinu og námsframvindu stúdenta með og án barna, svo fátt eitt sé nefnt.
Niðurstöðurnar munu nýast við gerð stefnu stúdenta í fjölskyldumálum, en þau eru þema starfsársins 2022-2023. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og mun því vera mikilvæg viðbót við þekkingu á stöðu barnafjölskyldna og stúdenta á Íslandi. Töluvert hefur verið ritað um stuðning norrænna velferðarkerfa við barnafjölskyldur en nær ekkert hefur verið birt um hvers kyns stuðningur stendur foreldrum í námi til boða og hvernig þeim gengur að samþætta nám og foreldrahlutverkið.
Helstu verkefni:
Samning spurningalista
Samskipti við aðildarfélög samtakanna
Samantekt og úrvinnsla gagna
Gerð skýrslu og kynning á helstu niðurstöðum á málþingi
Hæfniskröfur:
Haldgóð þekking á tölfræði
Reynsla af tölfræðivinnslu
Sjálfstæð og öguð vinnubrögð
Góð samskiptahæfni
Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi
Góð þekking á bæði íslensku og ensku
Laun eru í samræmi við úthlutun frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Umsóknir berast á netfangið lis@studentar.is með kynningarbréfi auki ferilskrár. Umsóknarfrestur er til 30. apríl.
Frekari upplýsingar veitir Emilía Björt Írisardóttir Bachmann, framkvæmdastjóri LÍS, emilia@studentar.is eða í síma 771-3088.
Umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál í íslenskum háskólum
Umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál í íslenskum háskólum
Þann 16. maí verður haldinn umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál. Markmið vettvangsins er að skapa samtal milli stúdentafulltrúa um hvernig Gæðaráð íslenskra háskóla getur eflt samstarf við stúdenta í gæðaúttektum háskólanna. Á viðburðinum verða tveir fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS.
Staður og stund
Umræðuvettvangurinn mun fara fram í Háskólanum í Reykjavík þann 16. Maí kl. 10:15 - 12:00. LÍS hefur umsjón með fundinum en er hann óformlegur hluti af árlegri ráðstefnu Gæðaráðs íslenskra háskóla sem verður haldinn sama dag í HR.
Stúdentafulltrúarnir fá greiddan ferðakostnað og boðið verður upp á hádegismat. Að fundinum loknum sitja fulltrúarnir árlega ráðstefnu Gæðaráðs frá kl. 13:00 til 16:00. Ráðstefnan sjálf er opin öllum stúdentum en einungis fulltrúarnir á umræðuvettvangnum fá greiddan ferðakostnað. Skráningarskjal á ráðstefnuna má finna hér.
Umræðuefni
Á fundinum verður snert á umræðuefnum um hvernig má efla samtal og samstarf á milli stúdenta og háskóla þegar kemur að gæðastarfi háskólanna. Á fundinum verður rætt um reynslu stúdenta og leitað að leiðum til að efla þátttöku stúdenta í ferli gæðaúttekta ásamt því að styrkja stöðu stúdenta sem taka þátt í gæðastarfi sinna háskóla.
Ályktun um framtíði háskólastigsins
Á landsþingi LÍS lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um framtíð háskólastigsins. Tillagan var samþykkt einróma á þinginu og snertir hún á veigamiklum baráttumálum stúdenta, þar á meðal fjármögnun háskólastigsins og stuðning við námsmenn.
Tillöguna má sjá hér að neðan í fullri lengd:
Ályktun landsþings Landssamtaka íslenskra stúdenta um framtíð háskólastigsins
Háskólar gegna lykilhlutverki í mótun og framþróun hvers samfélags og er nauðsynlegt að fjárveitingar til háskólastigsins og stuðningur við námsmenn endurspegli mikilvægi þeirra. Háskólastigið stendur á tímamótum hvað varðar fyrirkomulag fjárveitinga sem og stuðningskerfi námsmanna, en endurskoðun á hvoru tveggja stendur nú yfir í ráðuneyti háskólamála. Ljóst er að áralöng undirfjármögnun hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á starfsemi háskólanna og stöðu stúdenta sem hafa búið við ófullnægjandi stuðningskerfi um árabil. Stjórnvöld eru í dauðafæri til þess að snúa við blaðinu og fjárfesta í menntun, sem er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.
Landssamtök íslenskra stúdenta fagna því að verið sé að endurskoða fjárveitingar til háskólanna og telja áform um að fjölga þeim þáttum sem koma til skoðunar við fjárveitingar háskóla vera af hinu góða. Samtökin telja ástæðu til að minna á mikilvægi þess að vandað sé til verka við útfærslu á hvötum við fjárveitingar til háskólanna því markmið þeirra er fyrst og fremst að stuðla að auknum gæðum náms og rannsókna. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að háskólasamfélagið sé í góðum tengslum við atvinnulífið en hlutverk háskólanna má ekki einskorðast við þarfir þess. Hlutverk háskóla er að skila þekkingu út í samfélagið og markaðsöflin ættu því ekki að stjórna því hvaða þekking verður til í samfélaginu. Ef háskólanám er sniðið eftir því að snúa hjólum atvinnulífsins verður námið einhæft, tækifærum fækkar og samfélagið staðnar. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja traustar fjárveitingar til allra greina.
Grundvallarforsenda þess að fjölga hér háskólamenntuðum og tryggja jafnt aðgengi að námi er að til staðar sé fullnægjandi stuðningskerfi fyrir stúdenta. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur, en sú er ekki raunin í núverandi kerfi. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leyti, en þörf er á talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að svo sé. Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast þess að endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir verði nýtt í að stórbæta stuðning við námsfólk, enda er það fjárfesting til framtíðar og þar með ávinningur fyrir samfélagið.
Landssamtök íslenskra stúdenta fagna áherslum stjórnvalda á mikilvægi háskólanna en árétta að til þess að sú sýn geti orðið að veruleika verður að stórauka fjárframlög til íslenskra háskóla og auka stuðning við stúdenta til þess að stunda sitt nám. Þá er nauðsynlegt að samráð verði haft við hlutaðeigandi aðila og eru stúdentar þar stór hagsmunaaðili.
Ályktun um stöðu foreldra í námi
Staða foreldra í námi var áherslumál landsþing LÍS 2023 og því voru fyrirlestrar og vinnustofur þingsins tileinkað því efni. Á lokadag þingsins. var eftirafarndi ályktun samþykkt einróma en í henni má finna fyrstu kröfur stúdenta er varða réttindi foreldra í námi. Á næstu mánuðum mun ítarlegri vinna um þetta mikilvæga mál eiga sér stað.
Ályktun á Landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta um stöðu foreldra í námi
Landssamtök íslenskra stúdenta ályktar að gera þurfi töluverðar breytingar á fyrirkomulagi fæðingarorlofs- og menntasjóðs til þess að tekið verði tillit til stöðu foreldra í námi en núverandi fyrirkomulag skerðir aðgengi að félagslegum réttindum stúdenta og er það óásættanlegt.
Þrátt fyrir að þriðjungur háskólanema á Íslandi séu foreldrar er aðgengi stúdenta að fæðingarorlofsskerfinu verulega skert. Til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns og er mánaðarleg upphæð 210.695 krónur. Til samanburðar er sama upphæð lágmarksgreiðsla fyrir einstakling í 50% starfi á vinnumarkaði. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk og krefjast stúdenta þess að einingaþröskuldur fyrir rétti til fæðingarstyrks verði lækkaður. Þá skýtur það skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.
Auk þess er það óréttlátt að fæðingarorlofskerfið geri ekki ráð fyrir því að stúdentar vinni með námi en skv. Eurostudent VII vinna 72% háskólanema á Íslandi með námi. Þannig falla t.a.m. stúdentar sem eru í 60% námi og 40% starfi á milli kerfa en í slíku tilviki á viðkomandi ekki rétt á fæðingarstyrki námsmanna og fær því einungis fæðingarorlofsgreiðslu með tilliti til 40% starfs. Því krefjast stúdentar að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess að stúdentar séu samtímis í vinnu og námi með því að fæðingarorlof verði metið út frá heildar starfsálagi stúdenta.
Þá ítreka samtökin fyrri kröfu um að stúdentar geti reitt sig á Menntasjóð námsmanna fyrir mannsæmandi framfærslu. Lág framfærsla er ein helsta ástæða þess að stúdentar vinni með námi og það að foreldar neyðast til þess að vinna með námi er með öllu óásættanleg staða enda skapar það mikla streitu innan heimila og hefur bein áhrif á tengslamyndun og vellíðan barna. Örugg fjárhagsstaða stúdenta er því grundvallaratriði í átt að fjölskylduvænu háskólaumhverfi.
Þá er mikilvægt að háskólasamfélagið sjálft verði fjölskylduvænna m.a. með því að fyrirkomulag náms og kennsluhættir taki tillit til stöðu foreldra. Auka þarf sveigjanleika námsins og námsmats, m.a. með bættum rafrænum kennsluháttum og aukins framboðs fjarnáms. Því markmiði má t.d. ná með upptöku fyrirlestra og með því að tryggja stúdentum viðeigandi frítíma, t.d. með því að halda ekki próf um helgar.
Að lokum ályktar landsþing að mikilvægt sé að kortleggja stöðu foreldra í háskólanámi og þá þarf sérstaklega að kanna kynjaáhrif þeirra vankanta sem hafa verið rakin hér að ofan.