Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál í íslenskum háskólum

Umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál í íslenskum háskólum

Þann 16. maí verður haldinn umræðuvettvangur stúdenta um gæðamál. Markmið vettvangsins er að skapa samtal milli stúdentafulltrúa um hvernig Gæðaráð íslenskra háskóla getur eflt samstarf við stúdenta í gæðaúttektum háskólanna. Á viðburðinum verða tveir fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. 

Staður og stund

Umræðuvettvangurinn mun fara fram í Háskólanum í Reykjavík þann 16. Maí kl. 10:15 - 12:00. LÍS hefur umsjón með fundinum en er hann óformlegur hluti af árlegri ráðstefnu Gæðaráðs íslenskra háskóla sem verður haldinn sama dag í HR. 

Stúdentafulltrúarnir fá greiddan ferðakostnað og boðið verður upp á hádegismat. Að fundinum loknum sitja fulltrúarnir árlega ráðstefnu Gæðaráðs frá kl. 13:00 til 16:00. Ráðstefnan sjálf er opin öllum stúdentum en einungis fulltrúarnir á umræðuvettvangnum fá greiddan ferðakostnað. Skráningarskjal á ráðstefnuna má finna hér.

Umræðuefni

Á fundinum verður snert á umræðuefnum um hvernig má efla samtal og samstarf á milli stúdenta og háskóla þegar kemur að gæðastarfi háskólanna. Á fundinum verður rætt um reynslu stúdenta og leitað að leiðum til að efla þátttöku stúdenta í ferli gæðaúttekta ásamt því að styrkja stöðu stúdenta sem taka þátt í gæðastarfi sinna háskóla. 


Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Ályktun um framtíði háskólastigsins

Á landsþingi LÍS lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar um framtíð háskólastigsins. Tillagan var samþykkt einróma á þinginu og snertir hún á veigamiklum baráttumálum stúdenta, þar á meðal fjármögnun háskólastigsins og stuðning við námsmenn.

Tillöguna má sjá hér að neðan í fullri lengd:

 

Ályktun landsþings Landssamtaka íslenskra stúdenta um framtíð háskólastigsins

Háskólar gegna lykilhlutverki í mótun og framþróun hvers samfélags og er nauðsynlegt að fjárveitingar til háskólastigsins og stuðningur við námsmenn endurspegli mikilvægi þeirra. Háskólastigið stendur á tímamótum hvað varðar fyrirkomulag fjárveitinga sem og stuðningskerfi námsmanna, en endurskoðun á hvoru tveggja stendur nú yfir í ráðuneyti háskólamála. Ljóst er að áralöng undirfjármögnun hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á starfsemi háskólanna og stöðu stúdenta sem hafa búið við ófullnægjandi stuðningskerfi um árabil.  Stjórnvöld eru í dauðafæri til þess að snúa við blaðinu og fjárfesta í menntun, sem er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. 

Landssamtök íslenskra stúdenta fagna því að verið sé að endurskoða fjárveitingar til  háskólanna og telja áform um að fjölga þeim þáttum sem koma til skoðunar við fjárveitingar háskóla vera af hinu góða. Samtökin telja ástæðu til að minna á mikilvægi þess að vandað sé til verka við útfærslu á hvötum við fjárveitingar til háskólanna því markmið þeirra er fyrst og fremst að stuðla að auknum gæðum náms og rannsókna. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að háskólasamfélagið sé í góðum tengslum við atvinnulífið en hlutverk háskólanna má ekki einskorðast við þarfir þess. Hlutverk háskóla er að skila þekkingu út í samfélagið og markaðsöflin ættu því ekki að stjórna því hvaða þekking verður til í samfélaginu. Ef háskólanám er sniðið eftir því að snúa hjólum atvinnulífsins verður námið einhæft, tækifærum fækkar og samfélagið staðnar. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja traustar fjárveitingar til allra greina. 

Grundvallarforsenda þess að fjölga hér háskólamenntuðum og tryggja jafnt aðgengi að námi er að til staðar sé fullnægjandi stuðningskerfi fyrir stúdenta. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur, en sú er ekki raunin í núverandi kerfi. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leyti, en þörf er á talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að svo sé. Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast þess að endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir verði nýtt í að stórbæta stuðning við námsfólk, enda er það fjárfesting til framtíðar og þar með ávinningur fyrir samfélagið.

Landssamtök íslenskra stúdenta fagna áherslum stjórnvalda á mikilvægi háskólanna en árétta að til þess að sú sýn geti orðið að veruleika verður að stórauka fjárframlög til íslenskra háskóla og auka stuðning við stúdenta til þess að stunda sitt nám. Þá er nauðsynlegt að samráð verði haft við hlutaðeigandi aðila og eru stúdentar þar stór hagsmunaaðili. 

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Ályktun um stöðu foreldra í námi

Staða foreldra í námi var áherslumál landsþing LÍS 2023 og því voru fyrirlestrar og vinnustofur þingsins tileinkað því efni. Á lokadag þingsins. var eftirafarndi ályktun samþykkt einróma en í henni má finna fyrstu kröfur stúdenta er varða réttindi foreldra í námi. Á næstu mánuðum mun ítarlegri vinna um þetta mikilvæga mál eiga sér stað.

Ályktun á Landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta um stöðu foreldra í námi

Landssamtök íslenskra stúdenta ályktar að gera þurfi töluverðar breytingar á fyrirkomulagi fæðingarorlofs- og menntasjóðs til þess að tekið verði tillit til stöðu foreldra í námi en núverandi fyrirkomulag skerðir aðgengi að félagslegum réttindum stúdenta og er það óásættanlegt.

Þrátt fyrir að þriðjungur háskólanema á Íslandi séu foreldrar er aðgengi stúdenta að fæðingarorlofsskerfinu verulega skert. Til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna þurfa stúdentar að hafa verið í a.m.k. 75% námi í aðdraganda fæðingu barns og er mánaðarleg upphæð 210.695 krónur. Til samanburðar er sama upphæð lágmarksgreiðsla fyrir einstakling í 50% starfi á vinnumarkaði. Því má vera ljóst að gerðar eru miklar kröfur til stúdenta til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk og krefjast stúdenta þess að einingaþröskuldur fyrir rétti til fæðingarstyrks verði lækkaður. Þá skýtur það skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu og endurspeglar það ekki það sjónarmið að fullt nám sé álitin full vinna.

Auk þess er það óréttlátt að fæðingarorlofskerfið geri ekki ráð fyrir því að stúdentar vinni með námi en skv. Eurostudent VII vinna 72% háskólanema á Íslandi með námi. Þannig falla t.a.m. stúdentar sem eru í 60% námi og 40% starfi á milli kerfa en í slíku tilviki á viðkomandi ekki rétt á fæðingarstyrki námsmanna og fær því einungis fæðingarorlofsgreiðslu með tilliti til 40% starfs. Því krefjast stúdentar að fæðingarorlofskerfið taki tillit til þess að stúdentar séu samtímis í vinnu og námi með því að fæðingarorlof verði metið út frá heildar starfsálagi stúdenta.

Þá ítreka samtökin fyrri kröfu um að stúdentar geti reitt sig á Menntasjóð námsmanna fyrir mannsæmandi framfærslu. Lág framfærsla er ein helsta ástæða þess að stúdentar vinni með námi og það að foreldar neyðast til þess að vinna með námi er með öllu óásættanleg staða enda skapar það mikla streitu innan heimila og hefur bein áhrif á tengslamyndun og vellíðan barna. Örugg fjárhagsstaða stúdenta er því grundvallaratriði í átt að fjölskylduvænu háskólaumhverfi. 

Þá er mikilvægt að háskólasamfélagið sjálft verði fjölskylduvænna m.a. með því að fyrirkomulag náms og kennsluhættir taki tillit til stöðu foreldra. Auka þarf sveigjanleika námsins og námsmats, m.a. með bættum rafrænum kennsluháttum og aukins framboðs fjarnáms. Því markmiði má t.d. ná með upptöku fyrirlestra og með því að tryggja stúdentum viðeigandi frítíma, t.d. með því að halda ekki próf um helgar.


Að lokum ályktar landsþing að mikilvægt sé að kortleggja stöðu foreldra í háskólanámi og þá þarf sérstaklega að kanna kynjaáhrif þeirra vankanta sem hafa verið rakin hér að ofan.


Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Samantekt af vel heppnuðu Landsþingi LÍS 2023

Landsþing LÍS fór fram á Háskólanum á Akureyri frá 29. mars til 1. apríl. Þema þingsins þetta árið var „Fjölskyldumál stúdenta“. Á dagskrá Landsþings voru fyrirlestrar og vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og þeim áskorunum sem foreldrar í námi þurfa að upplifa. 

Landsþing hófst á miðvikudagskvöldið með skemmtilegri móttöku fyrir gesti þingsins. Landsþingið stóð yfir frá morgni fimmtudags og fram til hádegis á laugardag. Samhliða fyrirlestrum, ávörpum og vinnustofum fóru fram hefðbundin þingstörf eins og lagabreytingar og stefnumótun.

Á Landsþingi LÍS mætast fulltrúar nemendafélaga sem tilheyra LÍS, þ.e. allir háskólar landsins, og einnig fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþing LÍS er stærsti samráðsvettvangur nemenda á Íslandi, þar sem þeim býðst tækifæri til að skiptast á skoðunum, taka þátt í umræðum og fá innsýn í mál stúdenta á öðrum sviðum.

Dagskrá Landsþings LÍS í ár var fjölbreytt og innihélt ýmsa fyrirlestra og vinnustofur. Meðal heiðursgesta á Landsþingi var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra. Hann  hélt opnunarávarp þingsins. Guðmundur fjallaði um stefnu stjórnvalda í málefnum foreldra í námi og hvernig stjórnvöld ætla að beita sér fyrir umbótum á þessu sviði. Bæði fæðingarorlofssjóðurinn og almenn tryggingakerfið falla undir hans ráðuneyti, og því var gangnlegt að hlusta á skoðanir hans um stöðu foreldra í háskólanámi

Einnig komu þær Þórdís Helga Benediktsdóttir og Kristín deildastjóri fæðingarorlofssjóðs og fóru þær  yfir starfsemi sjóðsins. Þær kynntu ýmis skilyrði fyrir fæðingarorlofi og ýmsa áhrifaþætti sem gætu skert eða framlengt fæðingarolof eða styrk. Einnig fóru þær yfir fæðingarstyrk námsmanna nánar og þær kröfur sem stúdent þarf að upfylla til þess að eiga rétt á honum. 

Síðasti gesturinn var Elísabet Ýrr Steinarsdóttir, fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni, sem fjallaði um mikilvægi tengsla og tengslamyndunar í háskólasamfélaginu með áherslu á foreldra í háskólanámi. Í erindinu "Fjölskylduvænt Háskólasamfélag"  fór hún yfir þá þætti sem skipta máli í tengslamyndun, áhrif streitu og hvernig foreldrar geta á heilbrigðan hátt fundið jafnvægi milli fjölskyldulífs og náms. Einnig var fjallað um hugmyndir fjölskyldufræðings um hvernig háskólasamfélagið getur komið til móts við foreldra í námi. 

Þakkar framkvæmdastjórn þeim kærlega fyrir komuna.

Fyrir utan fyrirlestra og vinnustofur voru tvær stefnur LÍS samþykktar á Landsþingi. Nýsköpunarstefna, sem sköpuð var út frá afrakstri Landsþings 2022 á Hólum, var einróma samþykkt á Landsþingi, en hana má finna hér: https://studentar.is/s/Stefna-Landssamtaka-islenskra-studenta-um-nyskopun-og-rannsoknir-i-islensku-haskolasamfelagi

Sjálfbærnistefna LÍS var einnig kynnt á Landsþinginu en hún hefur verið í endurskoðun hjá Gæðastjóra LÍS, Kolbrúnu Láru ásamt gæðanefnd. Hún var kynnt og einróma samþykkt á Landsþingi og má sjá hana hér: https://studentar.is/s/Samykkt-sjalfbrnistefna-a-landsingi-2020.pdf

Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ.

Á Landsþingi voru einnig tvær ályktanir kynntar og samþykktar af þinginu. Alexandra Ýr, forseti LÍS kynnti Ályktun Landsþings Landssamtaka íslenskra stúdenta um stöðu foreldra í námi. Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ kynnti Ályktun um framtíð háskólastigsins. Þessar ályktanir voru einróma samþykktar og má sjá þær hér: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/5/12/lyktun-um-framti-hsklastigsins og hér: https://studentar.is/frettir-og-greinar/2023/5/4/lyktun-um-stu-foreldra-nmi

Lilja Margrét, Alexandra Ýr og S. Maggi nýkjörin.

Á Landsþingi LÍS bárust þrjú framboð í framkvæmdastjórn LÍS. Lilja Margrét Óskarsdóttir bauð sig fram í gæðastjóra samtakanna, Alexandra Ýr van Erven bauð sig fram í forseta samtakanna og S. Maggi Snorrason býður sig fram í varaforseta samtakanna. Þau héldu framboðsræður á Landsþingi og hlutu þau öll einróma kjör á Landsþingi. 


Landsþing LÍS er ekki einungis málefnavinna heldur er einnig nóg af skemmtun. Nóg var um hópefli og skemmtilegum leikjum á hótelinu á kvöldin. Þinggestir voru orðnir vel samanþjappaðir eftir skemmtilegt Landsþing. Þinggestir fengu einnig tækifæri að fara í vísindaferð á vegum NFHB og SHA í Skógarböðin og áttu þinggestir góða stund þar saman. Á laugardeginum hélt SHA svo frábæra 10 ára afmælisveislu fyrir LÍS. Framkvæmdarstjórn LÍS þakkar SHA kærlega fyrir skemmtilega veislu.

Landsþing LÍS er mikilvægur viðburður sem hefur þann tilgang að vera samráðsvettvangur stúdenta þar sem þeir geta komið saman og skipst á skoðunum, hugmyndum og umræðum um málefni sem snerta stúdenta. Með fjölbreyttri dagskrá, áhugaverðum fyrirlesurum og vinnustofum, og góðri þátttöku þingfulltrúa, veitir Landsþingið góða aðstöðu til að skapa gagnlegt umhverfi fyrir farsælt og faglegt samráð meðal stúdenta á Íslandi.

Þinggestir Landsþings 2023

Framkvæmdarstjórn þakkar SHA kærlega fyrir góða skipulagningu á frábæru Landsþingi, einnig þakkar hún Helgu Lind Mar fyrir fundarstjórn. Að lokum vill hún þakka öllum þinggestum fyrir góða þátttöku og frábært Landsþing.

Myndir teknar af ebf_photovideo á Facebook og Instagram.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Landsþing LÍS 2023

Landsþing LÍS verður haldið að Háskólanum á Akureyri daganna 29. mars - 1. apríl. Yfirskrift þingsins verður að þessu sinni Fjölskyldumál stúdenta. Dagskrá þingsins í ár verður í samræmi við yfirskrift þess og munu eiga sér stað fyrirlestrar og vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og áskorunum sem oft fylgja.

Mætt verður til Akureyrar miðvikudagskvöld og mun vera haldin móttaka fyrir gesti þingsins sama kvöld. Þinghöld standa yfir frá fimmtudagsmorgni og til hádegis á laugardag. Ásamt fyrirlestrum, ávörpum og vinnustofum munu einnig fara fram hefðbundin þingstörf, þar má nefna; lagabreytingar og stefnumótun.

Á landsþingi LÍS koma saman stúdentafulltrúar frá aðildarfélögum LÍS þ.e. allir háskólar landsins sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþing LÍS er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi þar sem gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum vettvöngum.

Dagskrá LÍS er hin glæsilegasta og samanstendur af hinum ýmsu fyrirlestrum og vinnustofum. Landsþing LÍS fær þann heiður að taka á móti frábærum gestafyrirlesurum og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson Félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpa þingið. Einnig mun hún Þórdís Helga Benediktsdóttir fara með fyrirlestur um fæðingarorlofssjóð svo dæmi má nefna.

Dagskrá landsþings má finna hér að neðan.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Félags- og vinnumarkaðsráðherra

Guðmundur mun fjalla um stefnu stjórnvalda í málefnum foreldra í námi og hvernig stjórnvöld hyggjast beita sér fyrir umbótum á þessum sviði. Bæði fæðingarorlofssjóður og almannatryggingakerfið falla undir málefnasvið hans ráðuneytis og því viðeigandi að heyra hans sýn um stöðu foreldra í háskólanámi.

Þórdís og Kristín

Þórdís Helga Benediktsdóttir og Kristín, forstöðumaður og sérfræðingur Fæðingarorlofssjóðs.

Þær munu fjalla um fæðingarorlofskerfið og þá sérstaklega með tilliti til foreldra í námi. Þær munu m.a. ræða um samspil fæðingarorlofs og fæðingarstyrks og koma með ábendingar um hvaða vandamál stúdentar eru að reka sig á í fæðingarorlofskerfinu.

Elísabet Ýrr Steinarsdóttir

Fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

Í erindinu Fjölskylduvænt Háskólasamfélag verður fjallað um mikilvægi tengsla og tengslamyndunar þar sem áhersla verður á foreldra í háskólanámi. Farið verður yfir hvaða þættir skipta máli í tengslamyndun, áhrif streitu og hvernig foreldrar geta á heilbrigðan hátt fundið jafnvægi milli fjölskyldulífs og náms. Einnig verður fjallað um hugmyndir fjölskyldufræðings um hvernig háskólasamfélagið getur komið á móts við foreldra í námi.

Read More