
Fulltrúaráðsfundur LÍS 24. febrúar 2025
Í fulltrúaráði LÍS sitja 2 fulltrúar frá hverju aðildarfélagi LÍS. Að LÍS standa átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.
Að þessu sinni er fundurinn haldinn í Borgartúni 27, á þriðju hæð, í fundarsal Visku. Nanna Hermannsdóttir, lánasjóðsfulltrúi SÍNE (Samband íslenskra nemenda erlendis) og Páll Winkel, framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna, fræða fulltrúaráð og fundargesti um námslánakerfið auk þess sem Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, og Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, fjalla um starfsemi og samstarf samtakanna í kjölfar myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Fulltrúaráðsfundir eru skv. lögum LÍS opnir öllum stúdentum og hvetjum við alla háskólanema með áhuga á hagsmunabaráttu stúdenta og háskólamenntaðra að sækja fundina.
Vísindaferð LÍS fyrir stúdenta Háskólans á Akureyri
Nú á dögunum héldu Landssamtök íslenskra stúdenta sína fyrstu vísindaferð fyrir Stúdentafélag Háskólans á Akureyri í sal Visku í Borgartúni 27! Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, kynnti samtökin og starfsemi þeirra fyrir stúdentum HA og stéttarfélagið Viska kynnti námsmannaþjónustu sína fyrir stúdentum HA.
Takk kærlega fyrir komuna og við hlökkum til að endurtaka leikinn!
Annáll alþjóðafulltrúa 2024
LÍS leggur ríka áherslu á að vera í virkri samvinnu og samstarfi með stúdentahreyfingum víðsvegar í Evrópu, og samtökin okkar eru hluti af European Students’ Union, eða ESU. Það eru regnhlífarsamtök stúdentahreyfinga í Evrópu sem samanstanda af 44 stúdentafélögum frá 40 mismunandi löndum í Evrópu. LÍS sækir reglulega ráðstefnur og fundi á vegum ESU þar sem fulltrúar mæta á fundi, fyrirlestra, pallborðsumræður og tengslamyndunarviðburði.
Árið 2024 voru eftirfarandi ráðstefnur og fundir sóttir af fulltrúum LÍS.
Students emPower Education 2024 í Brussel, Belgíu 3. - 6. mars
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi LÍS, og Helga Guðrún, meðlimur alþjóðanefndar LÍS, sóttu ráðstefnuna. Ráðstefnan var skipulögð af VVS, sem eru Landssamtök nemenda í Flanders og eru í forsvari fyrir nemendur í flæmska hluta Belgíu, og ESU. Ráðstefnan var haldin í aðdraganda kosninga ESB sem fóru fram um sumarið. Á ráðstefnunni voru m.a. pallborðsumræður með stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum sem koma að æðri menntun auk kynningar á belgískum stjórnmálum og háskólakerfi.
47. European Student Convention í Köln, Þýskalandi 6. - 10. mars
Þau sem sóttu ráðstefnuna í Brussel gátu tekið tveggja tíma lest yfir landamærin til Þýskalands, en þar var 47. European Student’s Convention, eða ESC. Þar skipulögðu FZF, Landssamtök stúdenta í Þýskalandi, viðburðinn. Þemað á ráðstefnunni var Bologna-ferlið og kynntar voru niðurstöður úr Bologna With Student’s Eyes, en það er skýrsla sem ESU gefur út og snýst hún um hvernig aðildarfélög ESU líta á innleiðingu Bolognaferlisins í þeirra háskólasamfélagi. Einnig voru áframhaldandi umræður og kynningar á komandi kosningum í ESB.
84. fundur Landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum (NOM) 25.-28. apríl
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, mætti á 84. fund NOM í höfuðborginni Riga, en LSA, Landssamtök stúdenta í Lettlandi, sáu um skipulagningu og voru gestgjafar að þessu sinni. NOM, eða The Nordiskt Ordförande Møte, er samráðsvettvangur stúdenta á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, en þau síðarnefndu urðu hluti af NOM árið 2006. NOM þróaðist út frá fyrsta fundi sem stúdentahreyfingar á Norðurlöndunum héldu árið 1946. Þessir fundir eru mikilvægur vettvangur til þess að afla upplýsinga um málefni stúdenta í þessum löndum, og til þess að ræða og efla menntunarmál stúdenta. Þema þessa fundar var Jafnvægi vinnu og einkalífs í hagsmunabaráttu stúdenta.
86. Stjórnarfundur ESU í Geneva, Sviss 6. - 12. maí
Tvisvar á ári heldur ESU, í samstarfi við landssamtök stúdenta í viðkomandi landi, stjórnarfund (BM). Þar eru starf og stefna ESU mótuð af aðildarfélögum þess. Þessir fundir eru einnig mikilvægur vettvangur fyrir tengslamyndun og umræður milli allra aðildarfélaganna. Á stjórnarfundum sem haldnir eru að vori til eru einnig kosningar í framkvæmdastjórn ESU, en hún samanstendur af forseta, tveimur varaforsetum og 7 öðrum aðilum. Fyrstu tveir dagarnir samanstanda af mismunandi fundum, fyrirlestrum og pallborðsumræðum sem og undirbúningi fyrir stjórnarfundinn sjálfann, og næstu þrjá daga er þétt dagskrá fundarins. Fyrstu tvo dagana voru meðal annars pallborðsumræður um Evrópska háskólabandalagið (European University Alliance), kynning frá UNHCR um flóttafólk og háskólamenntun og hvað landssamtök stúdenta í geta gert til þess að auðvelda aðgengi flóttafólks að menntun í sínu heimalandi. Á fundinum sjálfum var mótuð starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESU, kosið í nýja stjórn og samþykkt mannréttindastefna ESU, stefna um réttindi stúdenta og stefna um málefni og aðgengi flóttafólks að háskólanámi. Á þessum fundi voru fulltrúar LÍS Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, Alexandra Ýr, forseti LÍS, og Sylvía Lind, meðlimur í alþjóðanefnd.
The North-Atlantic Islands’ Student Cooperation (NAIS) 17. - 19. maí
NAIS er nemendasamstarf og samráðsvettvangur fyrir nemendur Norður-Atlantshafseyja, og taka LÍS þátt ásamt MFS (Landssamtökum færeyskra stúdenta) og tveimur grænlenskum samtökum, þeim Ili Ili (Samtök stúdenta í Grænlandi) og AVALAK (Samtök grænlenskra nemenda í Danmörku). Að þessu sinni var NAIS haldið í Kaupmannahöfn og var staðsetning þess Grønlands Repræsentation, en í sömu byggingu er einnig íslenska og færeyska sendiráðið. NAIS samstarfið býr til vettvang til þess að ræða áskoranir og tækifæri sem nemendur á þessu svæði fást við. Ýmsir fundir og fyrirlestrar voru haldnir yfir þessa tvo daga, og útkoman var sameiginleg yfirlýsing þar sem hugmyndin á bak við NAIS og samstarfið endurbyggt og hlutverk þess meitlað. Fulltrúar LÍS voru Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, og Sylvía Lind, meðlimur í alþjóðanefnd sem býr í Kaupmannahöfn.
48. European Student Convention í Varsjá, Póllandi 19. - 22. september
48. ESC var haldið í Varsjá og voru gestgjafarnir PSRP (Landssamtök stúdenta í Póllandi). Fulltrúi LÍS var Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi. Ýmsir fyrirlestrar og pallborðsumræður áttu sér stað, meðal annars um mat á fyrra námi, ritstuld og heilindi, stafræna væðingu æðri menntunar og áhrif gervigreindar. Einnig voru tengslamyndunarviðburðir haldnir, enda er mikilvægt að samtök kynnist öðrum samtökum og þeim áskorunum og tækifærum sem önnur samtök eru að fást við til að stuðla að fræðslu á jafningjagrundvelli.
85. fundur Landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum (NOM) 2. - 6. október
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, var fulltrúi LÍS á 85. NOM fundinum, sem haldinn var í Kaupmannahöfn. Gestgjafar og skipuleggjendur fundarins voru DSF, eða Landssamtök stúdenta í Danmörku. Þemað að þessu sinni var Activism, Advocacy and Politics in Higher Education. Þetta voru viðburðaríkir dagar í Kaupmannahöfn, en meðal annars var farið í Nordic Council, danska þingið í Kristjánsborgarhöll, háskóla- og vísindamálaráðuneytið og hinar ýmsu dönsku háskólastofnanir. Á hverjum stað voru umræður og fyrirlestrar frá hagaðilum og öðrum sem tengjast háskólamenntun með einhverjum hætti. Einnig fórum við á höfuðstöðvar DSF og fengum að heyra frá málum og áskorunum sem samtökin eru að vinna að og fást við. Á NOM fundum eru hver samtök með kynningu sem tengist þema fundarins og stöðu mála í heimalandi viðkomandi samtaka.
88. Stjórnarfundur ESU í Osló, Noregi 18. - 23. maí
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi, og Lilja Margrét, gæðastjóri LÍS, fóru á 88. stjórnarfund (BM) ESU sem haldinn var í Osló. NSO, Landssamtök stúdenta í Noregi voru gestgjafar og skipuleggjendur. Fyrstu tvo dagana var þemað lýðræði, og þessa fyrstu daga mættu þátttakendur á fyrirlestra, pallborðsumræður og fundi auk þess að taka þátt í umræðum áður en hinn eiginlegi stjórnarfundur hófst. Fyrsta daginn var haldið vítt og breitt um Osló á vinnustofur og fundi. Annan daginn var haldið til Úteyjar og deginum eytt þar. Þar var gengið um eyjuna með leiðsögumanni sem sagði okkur söguna af eyjunni og hryðjuverkunum sem framin voru þar þann 22. júlí 2011. Einnig voru vinnustofur og umræður um hatursorðræðu. Á stjórnarfundinum sjálfum, sem haldinn var næstu þrjá daga, voru meðal annars samþykktar stefnur um grunngildi og samstöðu og einnig sjálfbærni í æðri menntunarkerfum. LÍS lagði fram ályktun, ásamt öðrum samtökum, um aðgengi palestínskra stúdenta að æðri menntun og var hún samþykkt. Fulltrúar LÍS voru ánægðir með framvindu fundarins sem einkenndist af uppbyggilegum umræðum, lærdómi og tengslamyndun á milli jafningja.
Þetta hefur verið viðburðaríkt ár fyrir alþjóðastarf LÍS, en fulltrúar sem fara út á vegum LÍS leggja ætíð mikla áherslu á virka þátttöku, umræður, tengslamyndun, að geta dregið lærdóm af kollegum okkar í öðrum samtökum vítt og breitt um Evrópu og að berjast fyrir réttindum stúdenta.
Desemberþing LÍS
Lís héldu Desemberþing þann 17. dsember þar sem fulltrúar stúdenta ræddu við nýkjörna þingmenn sem öll voru virk í hagsmunabaráttu stúdenta áður en leið þeirra lá inn í landspólitíkina. Á meðal gesta voru Ingvar Þóroddson, þingmaður Viðreisnar og fyrrum Stúdentaráðsliði í Háskóla Íslands, Ragna Sigurðardóttir, fyrrum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og þingmaður Samfylkingarinnar, og María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar, fyrrum formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og einn af stofnendum LÍS!
Frá vinstri: Ingvar Þóroddson (þingmaður Viðreisnar), María Rut Kristinsdóttir (þingmaður Viðreisnar), Ragna Sigurðardóttir (þingmaður Samfylkingarinnar) og Lísa Margrét Gunnarsdóttir (forseti LÍS)
Á þinginu gafst fulltrúaráði og gestum kostur á því að eiga í beinu samtali við hina nýju kynslóð Alþingis. Þingmennirnir ræddu meðal annars hvernig stúdentapólitíkin hefði nýst þeim á vegferð sinni inn í landspólitík, hvað hefði breyst og áorkast í málefnum stúdenta frá þeirra tíð í hagsmunabaráttu og hvaða málaflokkar þörfnuðust athygli í háskólasamfélaginu núna. Við þökkum Ingvari, Rögnu og Maríu kærlega fyrir komuna og hlökkum til áframhaldandi samtals og samstarfs á komandi kjörtímabili!
Gauti Skúlason, verkefnastjóri samskipta og markaðsmála hjá stéttarfélaginu Visku og Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, kynntu einnig nýja og spennandi stöðu kjarafulltrúa stúdenta á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs sem markar tímamót í hagsmunagæslu vinnandi stúdenta - en íslenskir stúdentar eiga einmitt Evrópumet í atvinnuþátttöku samhliða námi. Í því samhengi er einnig vert að nefna að þó að vinnandi stúdentar greiði í Atvinnutryggingasjóð eins og annað vinnandi fólk, hafa þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum einfaldlega vegna þess að þeir stunda háskólanám. Réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta í námshléum var afturkallaður þann 1. janúar 2010, sem skýtur skökku við því við vinnum mest allra háskólanema í Evrópu og atvinnuþátttaka okkar vex milli ára samkvæmt könnun Eurostudent VIII. Við hvetjum stúdenta til að hafa samband við kjarafulltrúa SHÍ varðandi mál tengd kjörum og réttindum á vinnumarkaði og óskum réttindaskrifstofu Stúdentaráðs og Visku til hamingju með þessi tímamót í hagsmunagæslu stúdenta. Bestu þakkir fær Viska fyrir að hýsa Desemberþing LÍS og við þökkum öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna.
Stúdentar á milli steins og sleggju
Í kosningabaráttu er allt stjórnmálafólk sammála um mikilvægi æðri menntunar til að tryggja bjarta framtíð lýðræðissamfélagsins Íslands. Þrátt fyrir það berjast íslenskir stúdentar í bökkum við að mennta sig og eru við það að sligast undan leiguverði, jafnvægi á milli vinnu og skóla og ósveigjanlegu, markaðsvæddu námslánakerfi. Spurningin er ekki lengur hvort menntun sé leið að betri framtíð – heldur hvort ungt fólk hafi efni á að feta þann veg og hvort það verði þess virði. Við hljótum öll að geta sammælst um það að núverandi staða háskólamála sé áhyggjuefni, og að það sé lykilatriði að næsta ríkisstjórn setji málefni stúdenta í algjöran forgang.
Kynslóðabilið og vegasalt stúdenta
Í nýlegri greiningu hagfræðings stéttarfélagsins Visku á kaupmætti ungs fólks kemur fram að síðustu ár hefur ójöfnuður milli kynslóða aukist tvöfalt hraðar á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin, og kaupmáttur ungs fólks hefur sveiflast fimm sinnum meira á öldinni en í nágrannalöndum okkar. Það segir okkur að ungt fólk á Íslandi býr við annan raunveruleika en jafnaldrar á Norðurlöndunum, og staða þess flækist enn frekar við að skrá sig í háskólanám, sérstaklega fyrir ungt fólk sem flytur til höfuðborgarsvæðisins til að stunda nám, leigir á almennum leigumarkaði og verður oft að vinna mikið með námi til að ná endum saman. Samkvæmt nýjustu tölum Eurostudent hefur atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta aukist á milli ára – Íslendingar eiga Evrópumet í atvinnuþátttöku þar sem 76% íslenskra stúdenta vinna samhliða námi. Afleiðingar þess að vinna mikið með námi geta verið margar, til að mynda þær að stúdentar á Íslandi eru lengur að klára nám sitt og vinnan hefur óhjákvæmilega áhrif á námsframmistöðu. Nám er vinna, og þó það sé eðlilegt að hluti stúdenta kjósi að vinna samhliða námi er kominn tími til að spyrja sig að því hvort íslenskir háskólanemar ættu, ár eftir ár, að þurfa að vinna mest allra í Evrópu til þess að hafa efni á því að mennta sig.
Menntasjóður námsmanna: félagslegur jöfnunarsjóður?
Með nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna, sem tóku gildi árið 2020, átti að umbylta námslánakerfinu á Íslandi og færa það nær norska styrkjakerfinu. Styrkur ríkisins til stúdenta átti að felast í 30% niðurfellingu af láni í lok náms, að því gefnu að stúdentar kláruðu nám sitt á tilskildum tíma – og þannig hvetja brautskráða námsmenn til að fara fyrr af fullum krafti inn á vinnumarkaðinn.
Samhliða 30% niðurfellingu námslána urðu vextir nýju lánanna hins vegar breytilegir og háðir sveiflukenndum aðstæðum á fjármálamarkaði, og greiðendum gert að bera áhættu af væntum afföllum sjóðsins (í fyrsta sinn í 70 ára sögu fjárhagslegs stuðnings ríkisins við stúdenta). Nú þegar komin er reynsla á nýja námslánakerfið er ljóst að lögin hafa alls ekki þjónað markmiðum sínum, en eins og LÍS og BHM gerðu grein fyrir í umsögn sinni fyrr á árinu hefur 30% niðurfellingin ekki hvatt til hraðari námsframvindu; þvert á móti eru vísbendingar um að námslánakerfið hafi nú fælingarmátt þar sem færri taka námslán og niðurstöður lífskjararannsóknar BHM sýna að helsta ástæðan að baki fækkunar lántaka er óttinn við óviðráðanlega skuldsetningu – og því ekki ólíklegt að gallað námslánakerfi spili inn í vaxandi atvinnuþátttöku stúdenta.
Byrðar að námi loknu
Útreikningar BHM og LÍS sýna að greiðslubyrði í nýja námslánakerfinu er 62% hærri yfir ævina en í því gamla fyrir þá lántaka sem fá ekki 30% niðurfellingu, og því er varhugavert að halda því fram að breytingar á námslánakerfinu hafi verið skref í rétta átt – raunar er hægt að færa rök fyrir því að óvissan um greiðslubyrði og vaxtakjör sé breyting til hins verra og að námsstyrkurinn nái ekki til þeirra sem þurfa mest á honum að halda; þeirra sem eru lengur að klára nám sitt vegna félagslegra og/eða efnahagslegra aðstæðna.
Gömlu LÍN-lánin eru líka að sliga fólk, en eins og BHM hefur gert grein fyrir hafa háskólamenntaðir einstaklingar sem tóku lán í LÍN-kerfinu setið eftir í kjölfar hrunsins. Þau lán voru ekki leiðrétt og fjöldi fólks sér því fram á að borga heil mánaðarlaun í afborganir námslána til dauðadags nema ný ríkisstjórn svari ákalli háskólamenntaðra og leiðrétti lánin. Staða stúdenta sem þiggja námslán verður eins eða verri nema stjórnvöld stígi skrefið að fullu og komi á raunverulegu námsstyrkjakerfi. Það er lykilatriði að nýr stjórnarsáttmáli leggi ríka áherslu á fjárfestingu í menntun, innleiði markvissar aðgerðir til að standa vörð um grunnstoð lýðræðissamfélags og bregðist við alvarlegri stöðu stúdenta sem bera framtíð þjóðarinnar á herðum sér.
Lísa Margrét Gunnarsdóttir
Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta
Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS